föstudagur, janúar 26, 2007

The glories of Her Majesty's tongue

„I want people to tremble in the presence of my Olympic glory. The thought of someone not being awe-inspired by the sheer sight of my person is frightening to me. That is why I never use public restrooms.“

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Hvenær skal vaska upp?

Þegar kvöldmatur er etinn úr pönnunni og kranavatn drukkið úr mælikönnu.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Ísland

Það var í seinni hálfleik í gær þegar ég fór að sjá allt í slómósjon og heyrði skyndilega karlakórinn Fóstbræður syngja á constant repeat Ísland ögrum skorið, og „blessað nafnið haaaaaaaaaans“ gjarnan þegar þeir héngu í lausu lofti yfir línunni með uppreiddan arm.

mánudagur, janúar 22, 2007

Öldungar Júða annars dags

Nú langar mig að vita hvort það er hægt að halda uppi heilu samtali, til dæmis um mismunandi bragðgæði banana eða um rúðupiss, með tilvitnunum í Passíusálmana.

mánudagur, janúar 15, 2007

Internetið

Mig vantar þráðlaust net heim til mín því annars er mér eiginlega ekki fært að stunda nám í hinum nútímalega og virta Háskóla Íslands. Þess vegna gerði ég mér ferð í Reiknistofnun Háskólans í Tæknigarði. Já, góðir lesendur, ÉG FÓR ÞANGAÐ! Ég lagði land undir fót, spólaði í smá snjó og sigldi þangað hina tiltölulega stuttu leið frá bílastæðinu við aðalbygginguna á bílastæðið við Tæknigarð. En bara svo ekkert fari á milli mála þá árétta ég að ÉG FÓR SJÁLFUR IN PROPRIA PERSONA Á STAÐINN. Ég, í líkama mínum, var því þegar upp var staðið viðstaddur.

Í afgreiðslunni bar ég upp þetta tiltölulega einfalda erindi, að mig fýsti að seðja mig á gæðum þráðlauss internets Háskóla Íslands, ég væri þangaðkominn að leysa úr þessum vanda, ég vildi skrá mig fyrir þessum gjörningi.

„JÁ, ÞETTA ER ALLT Á NETINU!!!!!!!!!!!!!!!!“ öskraði konan á mig eins og ég væri vangefinn.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi: Til hvers situr þessi lítilsiglda kona í glerbúri í anddyri opinberrar stofnunar? Til að segja við mann og annan „þetta er á netinu“? „Fyrirgefðu, fröken Kona, ég finn fyrir þrýstingi í kviðarholinu, geturðu sagt mér hvar salernið er?“ „Já, það er á internetinu.“

Ég hef ekki áhuga á að lifa í samfélagi þar sem svarið „þetta er á netinu“ er gefið við öllum vanda. Ég hef ekki áhuga á að slá inn talnaraðir og lempa einhverjar snúrur í dos-stýrikerfinu ef ég get mögulega mætt á staðinn, numið mál úr annars munni og þakkað fyrir mig. ÉG VIL EKKI AÐ MÉR SÉ SVARAÐ „ÞETTA ER Á NETINU“. Ég hef ekki áhuga á því, það eru ekki allir sem vilja andlitslaust plastíksamfélag. Ég vil hafa samskipti við annað fólk, því annað fólk lyktar á ákveðinn hátt, það hefur sérkennilegt augnaráð, það talar skringilega, sumir eru ljótir, aðrir ekki. Þetta eru allt þættir sem er gaman að hugleiða í dagsins önn. Það er ekki hægt ef allur heimurinn snýst fyrir tilverknað tölvuskjás.

Og það sem meira er: Ég hef ekki þolinmæði eða andlega nennu til að standa í einhverju sem ég veit að annað fólk getur útréttað miklu betur en ég. Það tekur tölvumann ekki nema stundarkorn að setja upp þráðlaust internet. Ég slátra ekki sjálfur dýrum sem ég legg mér til munns, því til eru slátrarar. Sömuleiðis reyni ég að sneiða hjá því að afla mér sjálfur frétta af heimsmálum með símhringingum í Saddam Hússein því það eru helvítis fréttatímar í sjónvarpinu. Á sama hátt er mér ekki samboðið að feta mig sjálfur fram úr einhverju kjaftæði sem fólk fer í háskóla til að læra og okrar á öðrum til að veita, eins og til að mynda tölvunarfræði. Mér er alveg skítsama hvort þér, tölvunarfræðilærði lesandi, finnst þetta létt og löðurmannlegt verk eins og að skeina sig, en mér finnst það ekki.

Mér finnst hlutverkið sem internetið leikur í samfélaginu, sem afsökun til að reka samferðafólk af höndum sér og neita tilvist þess, plága og viðbjóður.

laugardagur, janúar 13, 2007

Annað fólk II

Samt er það svo skrýtið að sterkasta tilfinning sem ég hef fundið fyrir er aðdáun á öðru fólki.
Annað fólk

Stundum ber það við að á strendur mínar sigla bloggsíður skrifaðar af gáfuðu, fyndnu og hugsandi fólki sem ég hafði að öðru leyti ekki hugmynd um að drægi andann. Mér finnst þetta ánægjulegt því ég starfa samkvæmt vinnureglunni „fáviti until proven otherwise“. Þetta er jafnframt ástæða til örvæntingar því meðan sama fólk valsar um þjóðfélagið á stímandi gáfum, fyndni og hugsun þarf ég að kljúfa skafl af fávitum á vegferð minni, jafnvel á leið minni frá útidyrahurð út á gangstétt.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Helgi Hjörvar kveður úr haugnum

Ríkisútvarpinu geðjast ekki að máli beggja kynja.
Ekki misskilja, ég elska ykkur en hata syndina

Að fara í framhaldsnám við Háskóla Íslands er eins og ef matreiðslumeistari ætlaði sér að afla salatbarnum í 10-11 Michelin-stjörnu. Til að halda sönsum ætla ég mér að ignora alla hina skítkokkana sem hér eru mér samtíða í „háskólanámi“. Já, ég er að tala við þig, gelsmurði blaðrari fyrir framan tölvuverið.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Tvíburar

Marc-Antoine Charpentier og Jón Leifs eiga það sameiginlegt að tónlist þeirra þekkist á sekúndubroti. Fleira eiga þeir þó ekki sameiginlegt.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Yow, with trooum ow livvande spowman

Á Austurvelli um daginn reyndu tveir mormónar á barnsaldri (annar þeirra var enn í mútum) að snúa mér til siðar síns. Þeir töluðu íslensku svo ég ætti ekki að vera að skrifa þetta. Þá koma þeir og eiginkonur þeirra og drepa mig.
Uartigheder

Hvað varð um þá sjálfsögðu kurteisi að nefna biskup landsins herra? Ógæfa þessa lands er ógeðslega fólkið sem býr þar.
Nú árið er liðið eða Eydanir II

Á jólunum syngjum við danska sálma og verðum meyr. Á áramótum syngjum við líka danska sálma og verðum meyr.