laugardagur, febrúar 28, 2004

Míkrókosmos og makrókosmos

Það er svo gaman að fylgjast með öllum umræðunum um keppnina. Það er sérstaklega stór unun í því að heyra allar þessar samsæriskenningar sem kristallast kannski allar í hinni ólíkindalegu spurningu Jónasar Arnar Helgasonar í sundinu þegar MH-ingar eltu okkur þangað á keppnisdag: „Hvar er Stefán, strákar, ha? Tókuð þið hann ekki með ykkur, ha?“

Það er svo gaman að vita til þess að stór hluti þjóðarinnar telur þetta eitt allsherjarsamsæri og leynimakk frá upphafi til enda, en þekkja sjálfur einungis til samstarfs nokkurra pilta sem hittast stundum og stunda fræði og eru síðan drifnir fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og þúsund manna áhorfendaskara til að svara spurningum. Það er gaman að vita til þess (og jafnframt ógnvænlegt) hversu miklu stærra manni sjálfum þetta er.

Það er gaman að sjá skrif um sjálfan sig í dagblöðum og gildishlaðna sleggjudóma, eins og hjá Illuga Jökulssyni í DV í dag, því það er verið að tjá sig um einhvern lítinn þátt allrar veru manns sem er opinberaður fyrir framan alþjóð í keppni sem sumir taka svo alvarlega að þeir eru reiðubúnir að láta hrærast eilíflega í hatursbáli. Fyrir hvað?

Já, það er ótrúlega gaman að þessu.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Ha?

Maður má æsa sig stundum. Skárra væri það nú.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Nöfn eru oss eigi hatursefni

Í Garðabæ býr maður sem heitir Októ Einarsson.

Vá. Ég ætla að hlaupa niður á Hagstofu og breyta nafninu mínu í Decem Tres Quindecimsson.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Af guðlegum viðskiptum

Mikið óskaplega var gaman á árshátíðinni. Hún byrjaði skringilega en síðan fór landið sírísandi (beygingarmynd dagsins, einhver?) er á leið daginn. Þetta er með skemmtilegri vikum sem ég hef lifað í menntó, það verður bara að segjast.

Já, með því skemmtilegra sem ég hef gert í menntó hefur verið dagskrárgerð í útvarpi, í þriðja bekk og svo núna. Ágætt að ramma þessa braut inn með því.

Síðan steig ég upp á dansgólfið á Broadway í fyrsta sinn um dagana, þó ekki í sama tilgangi og flestir aðrir, það getum vér vottað. Ég fékk nefnilega þá hugmynd (í því ástandi er ég var) að áður en merlaði af morgni skyldi Kalli Bjarni idol sko fá að vita hvernig maður segði 'idol' á forngrísku. Það er 'eidolon' fyrir þau ykkar sem það vita ekki. Þannig að ég stóð fyrir framan sviðið í góðan hálftíma og starði á hann til að ná augnsambandi. Meðan á því stóð uppdiktaði ég ræðu sem átti að ná athygli hans. Hún hófst svo:

AFS (með útréttan handlegg og snýr lófa til himins, æpir í geðshræringu): Einn Grundfirðingur við annan! Snæfellingur! Leggðu hlustir við og hlýð á orð mín því ég boða þér mikinn sannleik!

Svo vildi hinn fagurbrynhosaði Atli mælt hafa við hið skírhvellandi eidolon. Þetta ætlaði ég að æpa að honum á milli laga, og þegar hann hefði beygt sig til mín, glaður yfir að hitta annan Skesshyrning, ætlaði ég að demba fróðleiknum yfir hann. Það sem kom þó í veg fyrir það var að milli laga stóðu nokkrir ágætismenn fyrir aftan mig og æptu „Grindavík, Grindavík, Grindavík!“ af lífs og sálar kröftum, drepandi fyrirætlun mína.

En í næsta lagi sá ég mér leik á borði. Hið háttkvaka eidolon hafði þann sið í alþekktum strófum í þeim óskunda sem það söng að rétta míkrófóninn út í almenninginn og skyldi sá sem fyrir valinu varð syngja þessa strófu í eidolons stað.

Maður sem var í eins metra fjarlægð frá mér varð fyrir valinu. Hann syngur, eidolon tekur við. Næsta erindi klárast, eidolon leitar að næsta lukkunnar pamfíl til að reka hljóðnemann framan í, og viti menn: Hið skírhvellandi eidolon og hinn fagurbrynhosaði Atli ná augnsambandi og áður en varir er undirritaður með hljóðnemann fyrir framan sig og heyrir í sjálfum sér öskrandi í hátalarakerfinu, strangely out of place með Jet Black Joe í bakgrunni:

Einn Grundfirðingur við annan! Snæfellingur!

Svo hófst hin fagurformaða ræða og svo lauk henni. Því eidolon, ei þekkjandi sitt nafn, kippti hljóðnemanum til baka með þóttasvip. Þannig lauk viðskiptum vorum og ég gekk niður af sviðinu.

Kalli Bjarni! Grundfirðingur, Snæfellingur! Ef þú ert að lesa þetta, þá útleggst 'idol' sem 'eidolon' á girsku máli! Ó að vindurinn beri orð mín eidolons til!

mánudagur, febrúar 09, 2004

Úff, maður

Í staðinn fyrir að læra undir sögupróf í dag fékk þessi maður mig til að taka þátt í því sem hlýtur að vera mesta steiking lífs míns. Sem fólk fær væntanlega að sjá á árshátíðardaginn. Ef guð hefur ekki bannfært mig eða eitthvað út af téðri steikingu.

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Punkturinn

Jag är så jätte, jätte glad.

Kontrapunktur tókst með afbrigðum vel, enda toppfólk í hverju rúmi; stigavörslu, tæknivinnslu og fyrir-svara-sátu. Útvarpsdrengirnir Agnar, Björn og Ingvar eiga heiður skilinn fyrir afar metnaðarfulla og vel af hendi leysta pródúksjón.

Liðin voru bæði frábær, enda kannski ekki við öðru að búast.

Áhugasamir geta farið hingað og smellt á 'sækja' við Kontrapunkt. Hann er þó algjört ferlíki, 71,2 mb.

Ó, ég er svo glaður.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Punkturinn

Þá er það ljóst.

Laugardaginn 7. febrúar klukkan 17:10 verður Kontrapunktur endurreistur í allri sinni dýrð í Útvarpi Framtíðarinnar FM 88,5.

Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að hlusta.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Punkturinn

Punkturinn vex og vex uns hann springur í tætlur af finnsk-úgrískum töluorðum. Stay tuned.