föstudagur, júlí 22, 2005

Homo coctus, autem doctus

Jæja, steikingin er hafin. En lærð steiking, mjög lærð steiking, athugið það.
Ég ætlaði að segja klukkuna í útvarpið rétt áðan. Hún var 18:56. Ég sagði: „Klukkuna vantar fjórar mínútur í níu,“ af því að ég hugsaði „Hún er að verða 19“ og því sló saman við níu. Mér líður kjánalega núna.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Hugum að dagskrá

Ég tel sérstaka ástæðu til að minna á útvarpsþáttinn minn Úr alfaraleið sem Rás 1 varpar út yfir landslýð fimmtudaginn 28. júlí kl. 15:03, stundvíslega að loknum fréttum, en hann ber yfirskriftina Með gleðiraust og falsettuhljóm: suðurþýskt jóðl. Þátturinn aftur á dagskrá á laugardag, kl. 21:05.

Auglýsingalestrinum er lokið.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Cette page de blog n'a pas étée mise à jour depuis très longtemps, Messieurs et Mesdames. Pourquoi parle-t-il en français dans ce blog, demandez vous peut-être. Parce que je suis un gentilhomme qui parle dans une langue très soignée. Mon boulot dans la Radiodiffusion est plaisant. J'ai assez de temps pour faire bien des choses, par exemple apprendre le français (ut videtur), dont je comprends beaucoup maintenant.

Annars hef ég spilað Mozart utan enda í vinnunni undanfarið. Ainsi soit-il désormais.

laugardagur, júlí 09, 2005

Stúdíó 3, kl. 18:51, síminn hringir

„Sæll, ungi maður. Hvað heitir þú? Xur Xursson þulur heiti ég. Hefir þú engan metnað fyrir hönd íslenzkrar þjóðar? Veiztu hvað Baldvin Einarsson, ritstjóri Ármanns á Alþingi, kallaði menn eins og þig? Renegada, eða undanvillinga! Það er undanvillingaháttur að spila erlenda tónlist í hléi í þjóðarútvarpi Íslendinga. Þú hefur úr svo miklu að velja fyrir þessar þrjár mínútur, og þú velur Benny Goodman! Vonandi bætir þú úr þessu, ef þú vilt ekki fara á svarta listann hjá mér!“

Svo mörg voru þau orð, og ekki fleiri.
Fram kom í fréttum hljóðvarpsins á fimmtudaginn að Ísleifur Birgisson stundi nám í hljóðfræði í London. Mér fannst þetta áhugaverð staðreynd og ekki fjarri lagi þar sem ég veit að University College London er framarlega á sviði hljóðfræðirannsókna og býður upp á próf í enskri hljóðfræði á vegum IPA.

Síðan las ég í Morgunblaðinu að Ísleifur Birgisson stundi nám í hljóðupptökufræðum. Þar fór það.

Snæbjörn Guðmundsson segir nú fréttir af áhugaverðum útlendingum.
Er það rétt hjá mér að álykta af fréttum hérlendis að hálf íslenska þjóðin hafi verið stödd á lestarstöð í London á fimmtudaginn?