laugardagur, júní 30, 2007

Fornaldardýrkun

Fornaldardýrkun getur verið tvenns konar; göfug og vekjandi eða heimskuleg og þreytandi. Það er heimskuleg og þreytandi fornaldardýrkun að segja Lundúnir fyrir London, Kænugarður fyrir Kiev og Dyflinni fyrir Dublin.

Ef við schauen dem Volk aufs Maul sjáum við að það myndi enginn lifandi maður með réttu ráði segja í fullri alvöru: „Heyrðu, ég var í Lundúnum um daginn,“ eða: „Djöfull var Evróvisjón í Kænugarði ömurlegt“. Það er kveifarleg postulíns-íslenska að segja Lundúnir, Kænugarður og Dyflinni. Og „Evróvisjón“, sem er ömurlegasta dæmi um staurblinda fílabeins-RÚV-íslensku sem ég veit um. Hugsið ykkur, „Evróvisjón“. Hver vill telja rökvillurnar í þeirri illa heppnuðu og arfaslöku tökuþýðingu, sem gefur sig út fyrir að vera „rétt“ íslenska?

Hvar eigum við að stoppa? Segja Bjarnmundarniðjaheimar fyrir Birmingham? Gerum það bara. Förum bara alla leið í þessari stjórnlausu geðsýki.

föstudagur, júní 29, 2007

Ísland ögrum skorið, eg vil nefna þig

Ég gerði þáttarkorn 17. júní um dönsku þjóðernisrómantíkina í tilefni dagsins, en við erum öll danskari en poki af Sprøde Flæskesvær* án þess að nokkur vilji viðurkenna það. Mér er a.m.k. engin minnkun í því að segja: Ég er Danófíl, amo Danaos. Svo sömdu þeir (eða Þjóðverjarnir sem svo vildi til að voru staddir í Danmörku á þeim tíma) skemmtilega tónlist á 19. öld.

Þátturinn er hér.

*Sprøde Flæskesvær er djúpsteikt svínafita í bitaformi, vinsælt til snakkáts í Danmörku, borðað þar eins og poppkorn.

laugardagur, júní 23, 2007

Angela Merkel

Ákafir fylgjendur ljósvakafrétta hafa tekið eftir því að kanslari Þýskalands, Angela Merkel, tjáir sig aldrei við erlenda fjölmiðla öðruvísi en á þýsku.

Þjóðverjar eru orðnir þreyttir á því að vera alþjóðlegt stórveldi án þess að eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og að þýska skipti engu á alþjóðavettvangi, hún er til dæmis ekki eitt af opinberum tungumálum nefndra Sameinaðra þjóða.

Uppgangur Þýskalands á öllum sviðum er yfirvofandi.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Hæ Atli, hvar er bleiki liturinn í dag?

Hann er mér víðs fjarri.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Hi, I'm Swastika

Synd að það sé bara ein kona sem heitir þessu nafni, þær mættu alveg vera fleiri. Eitthvað segir mér samt að foreldrar hennar hafi verið hindúar, fremur en, ja, sturlaðir nasistar. Sjá nánar 3. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.

mánudagur, júní 11, 2007

Of hvítt

Ég íhugaði áðan að fá mér steinda kirkjuglugga í stofuna mína.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Annar random Færeyingur tekinn tali á skemmtistað í Tórshavn

AFS: Svo eru það Kristinn Sigmundsson og Snorri Wium og ...
Fær.: Já, Snorri Wium, ég vann hjá honum í málningarvinnu í fimm ár.
AFS: Er Snorri Wium málari?
Fær.: Já.
Random Færeyingur tekinn tali á skemmtistað í Tórshavn

AFS: Færeyskir tónlistarmenn, já já maður kannast við Brand Enni og ...
Fær.: Já, hann er litli bróðir minn.