föstudagur, maí 30, 2003

Táp og fjör og frískir menn finnast hér á landi enn

Áðan gekk inn á Bókasafn Garðabæjar drengur, á að giska ellefu ára, og bað hátíðlega um að fá að skoða íslensk-latneska orðabók. Það munaði minnstu að ég færi að gráta.

þriðjudagur, maí 27, 2003

Æ

Þetta er ótrúlegt. Það er alveg sama hvert ég fer, þar eru þau. Ef ég sit á tónleikum í Skálholti, þar eru þau. Ef ég geng fram hjá Landakotskirkju, þar keyra þau fram hjá á CD-númeraða Range Rovernum. Ef ég fer á sinfóníutónleika, hver eru fyrir framan mig í röðinni? Jú, þýsku sendiherrahjónin.

Þar sem ég er, þar eru þau. Herra og frú doktor Dane virðast elta mig á röndum af óútskýranlegum ástæðum. Ég hlýt að vera fyrsti Íslendingurinn sem er stalkaður af sendiherra erlends ríkis.

Ég er hræddur.

föstudagur, maí 23, 2003

?

Er það bara ég eða er Árni Magnússon, verðandi félagsmálaráðherra, lifandi eftirmynd Helga Ingólfssonar?

sunnudagur, maí 18, 2003

Rúskí

Ef pókorný — blagatvorný eru ekki skemmtilegustu rímorð sem til eru þá veit ég ekki hvað.

laugardagur, maí 17, 2003

Les disques

Fór í þann mammons bévaðan locum Smáralind áðan. Áður en ég treð yfir þröskuld í Smáralind (og á Hlemmi) hef ég fyrir sið að signa mig, framsegja þrjú paternoster, kyrja tvö credo og þylja fimm avemaríur svo fyrir Drottins náð og miskunn ég megi þaðan út koma lífi haldandi.

Nema hvað, ég fór í Skífuna og sá fyrir mér hið títaníska tónlistarúrval sem þar er; sjötíuþúsund eloquence-diska (þótt þeir séu að sjálfsögðu fátækum námsmanni allt annað en hatursefni) og u.þ.b. átta öðruvísi diska í „2 fyrir 2200“-tilboðinu. Triste, n'est-ce pas?

Ég kom auga á Tondichtungen-disk eftir þann arfagóða mann Richard Strauss sem mig langaði í og spurði afgreiðslumanninn hvort ekki væri hægt að fá „1 fyrir 1100“. Hann horfði á mig eins og ég hefði sagt að Grímur Thomsen væri höfundur Sapphóar-þýðingarinnar „Goða það líkast unun er“ og ég lét málið niður falla við neitun hans. Skellti Scheherazade eftir Rimsky-Korsakov með og borgaði mínar tuttuguogtvöhundruð krónur.

Úje

Innan mjög skamms fæ ég í hús gjörvallan Niflungahringinn á 7 DVD-diskum frá Deutsche Grammophon. Það verður rosalegt. Einu sinni var ég að Luft-stjórna völdum köflum úr Hringnum og braut reglustikuna mína sem þá var orðin tónsproti. Hvað verður núna?

Það lítur því út fyrir eitt húrrandi Wagner-fyllirí að prófum loknum, Wagner-tónleikar 22. og Niflungahringurinn og Niflungahringurinn og Niflungahringurinn. Og Niflungahringurinn.

Vorschlag

Praeterea censeo Turidurem Shlomonis filiam praesidentem Islandiae faciendam esse, ut supra.

föstudagur, maí 16, 2003

Fyrsta frúin

Ég dýrka Dorrit Moussaieff. Þessi kona er frábær. Ekki aðeins er hún farin að kunna ansi mikið í ástkæra ylhýra, heldur er hún líka svo skrýtin og skemmtileg. Rétt í þessu var tekið viðtal við þau Ólaf þar sem hún svaraði ótrauð nokkrum spurningum með sínum auðkennilega talanda, en þegar fréttamaðurinn ætlaði að slútta þessu þá hrifsaði hún til sín hljóðnemann og hélt gríðarfast í hann meðan hún sagði skælbrosandi og kinkandi kolli, hafandi tekið útsendinguna traustataki:

„Og svo vil ég … þagga … góðar óskir.“ [L-ið og r-ið lesist mjög raddað. Innsk. ritstj.]

Apropos Dorrit. Það er alveg ótækt að manneskjan heiti einhverju svona nafni, komin í tölu höbbðingjanna á Íslandi. Að sjálfsögðu á hún að heita Þuríður. Það gefur auga leið. Dorrit er bara anglísering á Þuríður. Ég sé þetta fyrir mér: Þuríður Shlomodóttir. (Moussaieff virkar ekki á mann sem eftirnafn úr Þingeyjarsýslum, og skal því víkja fyrir ögn þjóðlegra kenninafni. Síðan efast ég um að nokkur önnur kona íslensk eigi föður með þessu nafni.)

Burt með Ólaf! Þuríði Shlomodóttur í forsetann 2004!

mánudagur, maí 12, 2003

Internetið: áreiðanlegasta mælingatæki vorra daga


Sjáðu hvaða týpa þú ert

föstudagur, maí 02, 2003

1. maí

Fákunnandi kröfugöngumenn sem ekki hafa Nallann á rússnesku á hraðbergi eru aukvisar sem standa ekki undir nafni.
Il blog italiano

Oh che vita, che vita! Oh che mestiere!

Orsù, presto a bottega.