þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Sagan

Ég vil ekki að Arnold Schwarzenegger verði forseti Bandaríkjanna. Sjáið bara hvað kom fyrir Þjóðverja síðast þegar þeir kusu Austurríkismann yfir sig.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Klósett

Af mörgum ástæðum er það ekki gott að drekka 750 ml. af kókómjólk með kanilsnúði.

---

Athugasemd um íslenskar málstofnanir: Mér er nákvæmlega sama þó að Auglýsing um greinarmerkjasetningu segi að ekki beri að setja punkt á eftir mælieiningum úr metrakerfinu, því það er heimskulegt. Sömuleiðis lýsi ég furðu minni og ógeði á því að Orðabók Háskólans sjái sér ekki fært að hafa orðið kanilsnúður fullbeygt í plöggum sínum. Vill stofnunin halda því fram að kanilsnúða sé ekki neytt á Íslandi?

---

Uppfært: Rannsókn hefur leitt í ljós að orðið kanelsnúður er til hjá Orðabókinni. En það rýrir ekki gagnrýni mína hér að framan, því ég var að leita upplýsinga um kanilsnúðinn sem ég át og vildi rita um, það var ekki kanelsnúður.
Fréttir

Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, og Björn Steinar Sólbergsson, organisti Akureyrarkirkju, eru tvífarar.
Þórbergur

Um daginn gerði ég tvo þætti um Þórberg Þórðarson á Rás 1. Orðin „Müllersæfingar“ og „hitastigsmælingar“ komu ekki fyrir í þættinum. Mér voru áhrif Þórbergs ofarlega í huga og hagaði spurningum eftir því. Þáttaröðin hét þess vegna „Þórbergur Þórðarson og allir hinir“, en ekki til dæmis „Þórbergur Þórðarson einn og grátandi úti í horni“ sem nýja bókmenntasagan gefur til kynna að hann hafi verið með fyrirsögninni „Bókmenntalegur andófsmaður“. Hvað þýðir það eiginlega?

Ég talaði við Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur, bókmenntafræðing; Hallgrím Helgason, rithöfund; Pétur Gunnarsson, rithöfund; Bergljótu S. Kristjánsdóttur, prófessor; Stefán Mána, rithöfund, og Þórarin Eldjárn, rithöfund.

Við Pétur ræddi ég sérstaklega mögulegan skyldleika við Proust, og ég bað Þórarin Eldjárn að bera Þórberg saman við misskildan snillinginn Jóhannes Birkiland og magnum opus hans, Harmsögu ævi minnar.

Skilaboðin í þættinum voru eiginlega að allir ættu að lesa Jóhannes Birkiland en ekki Þórberg Þórðarson.

Fyrri þátturinn er hér, og sá seinni hér.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Aftur úr Fréttablaðinu

Fyrrverandi framsóknarráðherra er að nöldra yfir fordómum gegn Framsóknarflokknum [öðru nafni mafíunni], sem flestir menn með óskaddaða geðsmuni óska reyndar ofan í salt og ösku, en hvað um það, hann segir:

„Ég hafði ekki verið lengi í Reykjavík þegar ég fór að finna fyrir pólitískum fordómum á mínu eigin skinni. Fúslega hafði ég samþykkt þá beiðni að nafni mínu væri raðað ofarlega á lista, sem framsóknarmenn í háskólanum stóðu að í stúdentaráðskosningum haustið 1947. En þá brá svo við að ýmsir málkunningjar mínir úr Reykjavík lýstu furðu sinni og sögðust ekki trúa því að ég væri „frammari“! Ég féll einhvern veginn ekki inn í reykvíska staðalímynd af framsóknarmanni.“

Söguvitund mín er ekki þroskaðri en svo að ég hélt í alvöru að orðið „frammari“ hefði orðið til árið 2001, stuttu áður en Snæbjörn sagði það við mig í fyrsta sinn.
Er það efni í fyrirsögn þótt einhver segi interpret með áherslu á fyrsta atkvæði?

Hjartað í mér tók kipp þegar ég renndi augum yfir fyrirsögn á blaðsíðu 10 í Fréttablaðinu í dag, en þar stóð: „Ósamræmi í framburði“ og ég hélt að ég hefði loksins hitt einhvern sem deildi skoðun með mér á því hvað skipti mestu máli í lífinu, sem sagt samræmi í framburði, en þá reyndist þetta vera frétt um framburð tveggja forsvarsmanna Baugs fyrir dómi um fyrirtæki
á Bahama-eyjum en ekki um tungumál og þess vegna varð ég vonsvikinn.
Íslenskt samfélag II

Já, ekki er það fagurt. Raunar ófagurt.

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Íslenskt samfélag

Viðurkennd hegðun: Að safna hóp manns í kringum sig og netsíðuna ungfruisland.is á fjölmennum vinnustað í útvarpsrekstri og hrópa „ég var að hamast í píkunni á þessari í nótt“.

Ekki viðurkennd hegðun: Að safna hóp manns í kringum sig og stúdentsskírteinið úr Menntaskólanum í Reykjavík, bókasafn sitt og hugsanir og segja „ég er maður“.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Gegt ópró

Mihai, kommon. Af hverju mæmaðirðu lagið? Það angrar mig hversu vonsvikinn ég er yfir þessu.
Ákvörðun

Útvarp Reykjavík sat á kvöldvaktinni að loknum lestri dánarfregna og horfði á söngvakeppnina og velti fyrir sér hvort það ætti í alvöru að greiða hommateknóinu „Þú tryllir mig“ atkvæði sitt.
Non medicus sed historicus

Það er fátt eins gleðilegt og að sitja með Ásgeiri á Aktu-taktu, ritrýna orðalag í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins og ræða nýlendustefnu. Við þau tækifæri verður mér hugsað að Ásgeir á ekki að vera að hjakka hálfvolgur í Medícínu, heldur snúa sér til glóandi Historíu sem bíður hans á sigurtindi með sverð í hendi. Ásgeir á að vera Historiker.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Ég er brott frá þér Árnagarður

Æi, það er maður hérna með skræka og kerlingarlega rödd að panta bændagistingu. Ég get ekki sætt mig við slíkt. Þess vegna ætla ég að fara í mötuneyti Ríkisútvarpsins að fá mér að borða. Og spjalla við Bjarna Rúnar tónmeistara um hljóðblöndunina og hljóðnemasamsetningar í útsendingunni úr óperunni í kvöld og framburð á hollenskum eftirnöfnum.
Tveir fræðimenn af Stofnun Árna Magnússonar hittast á ganginum

Fjórir nemendur tínast út úr stofunni.

Fr. 1: Eruð þið búin?
Fr. 2: Já, ekki meiri gotneska í dag.
Fr. 1: Einu sinni tók ég þrjú misseri í gotnesku, það var skylda í deildinni.
Fr. 2: Já. Seglin hafa verið rifuð ... allhressilega, hahahahahaha.
Fr. 1 (dæsir): Já, þetta vildu hipparnir ekki læra.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Ehrt eure isländischen Meister, dann bannt ihr gute Geister

Ég hugsaði um daginn: „Ef kúrsarnir í meistaranáminu í íslenskum fræðum í haust verða ekki X, þá fer ég að gera eitthvað annað.“ Svo var ég að líta á kúrsana í meistaranáminu í haust, og þeir eru X og vel það. Þetta eru nánast sömu kúrsarnir og ég bjó til í huganum. Sem er skemmtileg tilviljun. Svo sagði mér dr. phil. nokkur að ef ég vildi fá vinnu á Íslandi í fræðum mínum að loknu námi væri sterkur leikur að státa af íslenskri meistaratign, auk þess sem erlendum háskólum þætti akkur í sprenglærðum og sérhæfðum mönnum í íslenskum miðaldafræðum.

Utanför er slegið á frest til hausts 2009. Hún er samt á dagskrá, ég er kominn í stigann á leiðinni upp að stökkbrettinu, og stökkið verður þeim mun hærra sem uppgangan lengist. En gusan verður minni því þá verður fituprósenta mín lægri, skvap minna og grískir drættir tálgaðri.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Dr. Saxithorisfilius vir divinus

Jájá, þetta rennur af manni eins og ég veit ekki hvað. Þvottabretti í ágúst. Skipið lætur að stjórn hægt og sígandi, hægt og sígandi.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Háttvirtur þingmaður gerir grein fyrir atkvæði sínu

Ég mun kjósa þá fylkingu sem vill:

1) taka upp inntökupróf í hugvísindadeild, sem felst í því að nemendur skila ritgerð sem þeir skrifuðu í menntaskóla og mæta í viðtal frammi fyrir nefnd fastráðinna kennara sem samþykkir eða (umfram allt) hafnar umsækjendum;

2) hækka lágmarkseinkunn í hugvísindadeild í 7,5;

3) fækka nemendum í hugvísindadeild þannig að hver kennari geti eytt umtalsverðum tíma á hvern stúdent;

4) fjölga ritgerðum í öllum kúrsum í fjórar talsins, sem nemendur skila inn einu sinni til bráðabirgða, fá aftur útkrotaða sem klósettvegg í Pompeii, skila inn aftur og fá með einkunn og meira kroti (ritgerðir í kúrsum nú til dags eru ein eða engin (!), og fást með herkjum til baka og þá gjarnan með fjögurra orða athugasemdum);

5) hafa 10-15 nemendur í hverjum kúrsi, og síðan umræðutíma með meistara- eða doktorsnemum;

6) koma á súpervæsora-kerfi, þar sem nemanda er úthlutað umsjónarkennara sem leiðbeinir honum í gegnum grunnnám hans;

7) veita mér þá tilfinningu að ég sé að gera eitthvað markvert, eins og ég fékk að vita á væbinu frá fólki þegar ég var á fornmáladeild í Menntaskólanum í Reykjavík;

8) taka upp námsLAUN frá ríkinu, en ekki námslán;

9) að Háskóli Íslands verði Akademía og Úníversítas eins og hann á að vera, en ekki Námsflokkar Hafnarfjarðar, eins og hann er núna.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Útvarp Reykjavík, nú hefst lestur Passíusálma

[Páll Ísólfsson leikur á orgel.]

Upp, upp, mín sál, og allt mitt geð,
upp, mitt hjarta, og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til,
Herrans pínu ég minnast vil.

[15-20 sekúndna viðhafnarþögn, eftir eðli og gerð sálms.]