þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Sá einhver japönsk-frönsku myndina á RÚV um daginn? Hún fjallaði um belgíska konu sem svo vildi til að var bílíngvöl, frönsku-japönsku, og varð sér úti um starf hjá japönsku stórfyrirtæki. Myndin fjallaði um skítastarf hennar og erfið samskipti við japanska yfirmenn. Þeir voru alltaf reiðir og urruðu til að láta það í ljós. Horfðu svona á hana með stingandi augnaráði og urruðu aðeins. Kannski er það menningarhefð í Japan.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Í tilefni af yfirlýsingu Snæbjarnar vil ég taka fram eftirfarandi: Ég sagði „engin helvítis álver“ með háðslegum hálfvitablæ en síðan „mennirnir voru umsvifalaust handteknir“ með traustri og þýðri yfirvaldsrödd. Þannig mátti lýðum vera ljós skoðun mín á þessu máli. Þetta geta menn sannreynt á vefupptökum.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Auðunn Blöndal í beinni að tjá sig um typpi í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Ég hefði haldið að slíkum manni væri ekki hleypt inn í Útvarpshúsið.
Katrín Jónsdóttir eða Æi, andskotinn, af hverju er regluverkið ekki fullkomið?

Við franska málfræðibók sem útskýrir hugtakið gérondif með málsgreininni „Pierre est descendu en chantant la Marseillaise (Pierre fór niður sönglandi franska þjóðsönginn)“ er ekki annað að gera en grípa á færi og kaupa.

Annars varð ég fyrir hálfgerðu andlegu áfalli um daginn þegar ég komst að því að engin málsöguleg rök eru fyrir því að hafa z í verslun, þar sem orðið er bara alls ekki dregið af verði (enda ekki hægt að „verðsla vöru“) heldur af orðasambandinu að verja vöru (= selja vöru, höndla með hana). Menn sjá í hendi sér að ekkert tannhljóð er í vöru og ekki heldur í verja vöru (sem er notate bene figura etymologica, orðasamband þar sem öll orð eru af sama stofni, s.s. segja sögu, græja græju, gefa gjöf, baka böku osfrv.) Þetta hefur valdið mér miklum brotum á heila.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Úr Jafnréttisáætlun Menntaskólans í Reykjavík

„Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og þeir sæti ekki kynferðislegri áreitni, einelti né öðru ofbeldi. Það sama gildir um samskipti kennara og nemenda.“

Hjúkkett maður, tími til kominn að árétta þetta, þetta var orðið óþolandi þegar ég var þarna.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Ölæði til forna eða Samhengið í mannkynssögunni

„Þá var skenkt höfðingjum Jómsvíkinga hin stærstu horn af hinum sterkasta drykk er þar var. En er það minni var af drukkið þá skyldu drekka Krists minni allir menn og var Jómsvíkingum borið æ fullast og sterkastur drykkur. Hið þriðja var Mikjáls minni og drukku það allir.

En eftir það drakk Sigvaldi jarl minni föður síns og strengdi heit síðan að áður þrír vetur væru liðnir skyldi hann vera kominn í Noreg og drepa Hákon jarl eða reka hann úr landi. Síðan strengdi heit Þorkell hávi bróðir hans að hann skyldi fylgja Sigvalda til Noregs og flýja eigi úr orustu svo að Sigvaldi berðist þá eftir. Þá strengdi heit Búi digri að hann mundi fara til Noregs með þeim og flýja eigi úr orustu fyrir Hákoni jarli. Þá strengdi heit Sigurður bróðir hans að hann mundi fara til Noregs og flýja eigi meðan meiri hlutur Jómsvíkinga berðist. Þá strengdi heit Vagn Ákason að hann skyldi fara með þeim til Noregs og koma eigi aftur fyrr en hann hefði drepið Þorkel leiru og gengið í rekkju hjá Ingibjörgu dóttur hans. Margir höfðingjar aðrir strengdu heit ýmissa hluta. Drukku menn þann dag erfið.

En eftir um morguninn þá er Jómsvíkingar voru ódrukknir þóttust þeir hafa fullmælt og hafa málstefnur sínar og ráða ráðum hvernug þeir skulu til stilla um ferðina, ráða það af að búast þá sem skyndilegast, búa þá skip sín og herlið. Varð það allfrægt víða um lönd.“

- Niðurlag 35. kap. Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Snorra Sturluson

Með öðrum orðum: „Djöfull ætla ég að fara og kála honum maður. Já og ég ætla með þér, þú ert vinur minn veistu ég elska þig maður. Já og svo ætla ég að ríða henni maður. Já hahahaha. Fokk je sko.“
Mér líkar það mjög vel þegar fólk kemur til dyranna eins og það er klætt, reynir ekki að villa á sér heimildir og þorir að segja skoðanir sínar umbúðalaust, þó að sjálfsögðu af fullri kurteisi.

Þess vegna fagna ég þessari frétt. Mér finnst hún mjög góð. Ég hef sömu forsendur og Viktoría (sem myndi útleggjast Sigríður á norræna tungu) þegar ég lýsi yfir viðbjóð mínum á tónlist á borð við Aphex Twins og Rolling Stones. Mér finnst mjög gaman að skoðanir mínar stangist rækilega á við meirihlutans. Þess vegna skil ég Victoriu Beckham, þó að hún sé hinum megin á spektrúminu.

laugardagur, ágúst 13, 2005

Fólk sem vandalíserar þjóðþing og frelsishetjur á að setja í gapastokk á torgum úti.
Af hverju er Ásgeir Pétur Þorvaldsson farinn að lesa fréttir á Stöð 2?

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Þetta er nú meira ruglið. Meira ruglið, segi ég.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Í öðrum fréttum

Hjúkrunarheimilið Eir hýsir fólk, hvert dauðinn hendir iðulega. Eðli málsins samkvæmt þarf ég að lesa það í útvarpið. Þá stendur „[...] lést á hjúkrunarheimilinu Eir [...]“. Ég fletti þessu orði upp og komst að því að það mun vera Eiri í þágufalli. Ég hef því sagt „lést á hjúkrunarheimilinu Eiri“ undanfarna daga. Ég fór til málfarsráðunautarins og spurði hann um þetta. Hann benti mér á það, að enda þótt Eiri væri kórrétt þágufallsmynd orðsins, þá hljómaði það ankannalega í dánarfregnum því þá væri eins og fólk hefði dáið á eyri úti í á. Sem er alveg rétt. Maður verður að gæta að samhengi.

Svo skemmtilega vildi til að inni hjá honum voru blaðamaður og ljósmyndari frá Verdens Gang í Noregi sem voru að vinna að grein um íslenskt mál og málstefnu og þátt Ríkisútvarpsins þar í. Þeim fannst svo óendanlega sniðugt að ég ætti raunverulegt og brýnt erindi um málfarsefni við þennan sérskipaða ráðunaut sem þarna sat á vakt að þeir ljósmynduðu mig í bak og fyrir og skrifuðu niður nokkur vel valin orð sem ég mælti um málstefnu Íslendinga og mikilvægi hennar.
Litið í foryustugrein vefritsins

Ég hef aldrei haft neina sérstaka skoðun á Páli Magnússyni. Hann hefur hins vegar vaxið í áliti mjög hratt undanfarna daga:

„Ríkissjónvarpið hefur ekki sinnt menningarumfjöllun nægilega vel en Rás 1 sinnir henni hins vegar ágætlega. Ef réttlæta ætti tilvist Rásar 1 með því hversu margir hlusta á hana þá yrði hún lögð niður. En ef menn reka fjölmiðil á menningarlegum forsendum þá verður að nota annan mælikvarða á það hvernig til tekst en einungis áhorfenda- eða hlustendafjöldann.“

Páll segir allt sem ég vil heyra. RÚV lýtur nefnilega öðrum lögmálum en allir aðrir fjölmiðlar vegna þess að það er ekki rekið á sömu forsendum því það miðlar (eða á að miðla) annars konar efni. Þetta skilja ekki allir. Svo leggur hann líka til að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði og tilfærir þau rök að þannig sé BBC. Það þarf nú ekki meira til að ná mér slefandi en að vilja gera RÚV meira eins og BBC, sama á hvaða sviði það er.

Mér finnst að RÚV eigi að vera á fjárlögum, utan auglýsingamarkaðar. Það sem þarf síðan að gera er að hagræða í stofnuninni, einfalda rekstur og skrifstofuhald og dæla síðan peningum í dagskrárgerðarfólkið. Þannig, og aðeins þannig, verður gott útvarp og gott sjónvarp til.

Leiðari Morgunblaðsins í dag:

„Morgunblaðið hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að selja eigi Rás 2. Það eru engin rök fyrir því, að ríkið reki afþreyingarstöð í samkeppni við aðrar slíkar á markaðnum. En jafnframt hlýtur að koma til greina að beina sjónvarpsstarfsemi RÚV í annan farveg en nú er. Íslenzkt þjóðfélag þarf á því að halda, að á boðstólum verði sjónvarpsefni, sem hafi eitthvert menningarlegt gildi í víðri merkingu þeirra orða. Ameríska ruslið, sem einkastöðvarnar bjóða upp á til afþreyingar, er orðið svo yfirgengilegt að það er orðin þjóðfélagsleg nauðsyn að skapa þar eitthvert mótvægi.“

Ég get skrifað undir þetta í meginatriðum. RÚV fær 2400 milljónir á ári. 2400 milljónir. Það væri hægt að búa til tvo íslenska sittkom-þætti og þrjár dramaseríur á ári fyrir þann pening. Fyrst Danir geta þetta þá getum við það. Og þegar talað er um menningarlegar skyldur RÚV, þá er enginn að tala um óperur og sembaltónleika einvörðungu. Það hefur líka menningarlegt gildi að búa til íslenska þætti um það hvernig Íslendingar lifa, hvernig þeir skynja heiminn, hvað þeim finnst fyndið osfrv.

En aftur að Páli:

„Ég gekkst nokkuð upp í því á háskólaárum og nokkuð fram eftir aldri að vera trúlaus efahyggjumaður og montaði mig af því í alls konar samhengi. Ég tók ekki meðvitaða ákvörðun um að hætta að vera trúlaus og fara að trúa, en það hefur orðið breyting innra með mér hin síðari ár. Í dag svara ég spurningunni með já-i. Ég er trúaður. Það væri enginn tilgangur með öllu þessu bardúsi ef ekki væri til æðri máttur.“

Infidels, beware. Svona fer fyrir ykkur.

Annars vex Blaðið ótt og títt í áliti, einkanlega vegna þess sem Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar í það. Það er undantekningalaust skemmtilegt sem hún skrifar.