fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Morgundagurinn

Guð minn góður. GUÐ MINN GÓÐUR.

En þessu öllu saman er hægt að bjarga með einni Bach-kantötu á fóninum og bolla af Earl Grey. Guð blessi Kínamanninn sem fann upp Earl Grey.

(Konráð Jónsson.)

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Nýja stafsetningarorðabókin

Mig langar að byrja á því að fagna þessu þjóðþrifaframtaki. Bravó, bravó, bravó.

En þá rakleitt að gapastokknum. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það er ekki hægt á Íslandi að gefa út heildstæða orðabók sem þjónar breiðum fjölda fólks, alveg eins og gert er í útlöndum. Orðabók sem er allt í senn: framburðarorðabók, réttritunarorðabók, beygingarorðabók, merkingarorðabók, orðsifjabók, samheitaorðabók og málnotabók.

Svona bækur eru til alls staðar í kringum okkur. Í þeim stendur uppflettiorðið fremst (rétt stafsett og með afbrigðum), kyn þess og kenniföll fyrir aftan og svo framburður hljóðskrifaður innan hornklofa. Sagt frá erfiðri/varasamri beygingu og síðan kemur definisjón eða –sjónir (með samheitaívafi) og umfram allt praktískar dæmasetningar í samhengi um hvernig á að nota orðið. Loks kemur örstutt afleiðsla þar sem uppruni og þróun er rakin.

Nú segið þið að slík bók yrði klettur að vexti. Þá segi ég: Nei, öllum óþarfa yrði sleppt (skáldamálsorðum, landshlutamáli og öðrum kúríósítetum sem hægt er að safna saman annars staðar).

Það þarf bók sem svarar á einum stað helstu spurningum sem vakna í dagsins önn. Í dag er þetta allt saman í milljón bókum og mörgum tonnum af pappír, og það er ekki einu sinni til alvöru íslensk framburðarorðabók (bara sambræðingur upp úr kennsluhefti í hljóðfræði) eða beygingarorðabók (bara á netinu). Ég hef heldur einhvern veginn aldrei botnað í Orðaheimi og Orðastað.

Það fyrsta sem öskraði annars á mig þegar ég opnaði nýju stafsetningarorðabókina var innsláttarvillan Bernouilli-lögmál á bls. 679, en svo kom það rétt Bernoulli-lögmál á bls. 712.

Svo eiga notendur líka að fatta það sjálfir hvenær á að rita stóran staf í sérnöfnum. Af hverju stendur til dæmis ríkisútvarp –ið í flettunum en Ríkisútvarpið í einhverri rammagrein aftast um stóran staf? Af hverju er orðið Mannanafnanefnd/mannanafnanefnd ekki einu sinni í bókinni?

Að öðru leyti er ég afar sáttur við nýju stafsetningarorðabókina. Nema þar er gerð tilraun til að setja einhverjar algildar reglur um kommusetningu. Þið vitið hvað mér finnst um það.

mánudagur, ágúst 28, 2006

Vítaverð léttýðgi

Hugsið ykkur, orðið saga er søga á færeysku. Hvers konar þjóð leyfir sér að alhæfa hljóðverpt sérhljóð í rótaratkvæði? Talandi um að sleppa af sér beislinu.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Dómur fellur

Voru allir djassmeistarar síðustu aldar heróínfíklar sem börðu konurnar sínar? Svarið er einfalt: Leiðin til sigurs liggur í gegnum mísógynismann.
Hydropower/psychopower

Mér finnst eins og háskólanám mitt hafi hingað til verið ein samfelld frestun framkvæmda. En gleðjist, nú er stutt í það að lærdómsvirkjunin verði gangsett því í vetur munu starfa í mér andlegir Kárahnjúkar. Og við erum ekki að tala um nein helvítis kílówött.

Sogsvirkjanir mega vara sig.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Og gefi þér frið

Eru í gildi einhvers konar lög á Íslandi sem banna kirkjunni að ráða góða söngmenn til klerklegrar þénustu?

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Welch ein Schwung

Og sjötti engillinn básúnaði úr geislaspilaranum. Þá heyrði ég rödd eina frá hornunum á gullaltarinu, sem er frammi fyrir Guði. Og röddin sagði við sjötta engilinn, sem hélt á básúnunni:

Heiligste Dreieinigkeit,
großer Gott der Ehren,
komm doch, in der Gnadenzeit
bei uns einzukehren,
komm doch in die Herzenshütten,
sind sie gleich gering und klein,
komm und laß dich doch erbitten,
komm und kehre bei uns ein,
komm und ziehe bei uns ein!


Þú spyrð, Fimmti guðspjallamaðurinn? Nei, Guð sjálfur.

Og vegna þess koma dagar þar sem manni finnst Dreieinigkeit í fyrstu línu hálfgerð skekkja einhvern veginn, Viereinigkeit væri nær lagi. Væri ekki nær að skunda á kirkjuþing í Laterano þar sem þrenningunni yrði varpað fyrir róða og hinn heilagi ferningur hafinn upp? (Viðeigandi breytingar gerðar á trúarjátningum hér og þar.) Guð faðir, sonur, heilagur andi og Johann Sebastian.

Þetta gæti jafnvel sameinað Austurkirkjuna og Vesturkirkjuna ef vel tekst til.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Dómharður

Ég held ég sé of dómharður. Nei annars, þeir sem segja það eru fífl.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Tvær þjóðir í einu landi

Einu sinni var ég spurður hvort ég drykki ekki bara líka kók með ítölskum mat en ekki rauðvín. Þegar ég sagðist iðulega drekka kók með ítölskum mat horfði spyrjandi á mig eins og ég hefði sagst skeina mig til hátíðabrigða á jólunum og jafnvel ekki einu sinni þá.

laugardagur, ágúst 05, 2006

Hahahahahahahahahaha

Hahahahahahahahahahahahahaha.
Woody Allen-tesan

Fávitarnir, oft í líki Alan Alda, vinna alltaf.
Netskrif alþýðumanna

Hversu lélegur syntax og klisjótt hugsanalíf getur rúmast í einni manneskju?

föstudagur, ágúst 04, 2006

Ég vil horfa á Star Trek

Ég hef náð að hrista fávitahroll gærdagsins af mér og fór út í Fjarðarkaup. Elskaðar föðursystur mínar eru að koma í heimsókn á morgun að skoða íbúðina mína. Ég fékk skipun frá HQ um að kaupa eitthvað ostadrull, vínber og ritzkex oní þær. Þetta er svo fínt.

Verst að heimsóknina ber upp á sama tíma og Star Trek-prógrammið á bé bé sé. Einn þáttur úr upphaflegu seríunni og tveir Next Generation-þættir. Af þessu missi ég.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Dagurinn sem ég komst að því að ég er ekki leikari

er í dag. Mér líður ömurlega.