miðvikudagur, júní 29, 2005

Zapfenstreich, links um!

Plötusafnið hérna niðri er fullt af gömlum þýskum marsaplötum. Með þeim fylgja útsendingarskrár sem sýna að síðast voru þær spilaðar í útvarpið árið 1963. Atli Freyr Steinþórsson mun ráða bót á því 11. ágúst næstkomandi.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Ég hef fundið einkennislag mitt

Þessi háeðla tónlist á jafn-vel við lærdómshattarmyndina hér til hliðar sem engin önnur í guðs kristni. Til að grípa tilgang þessa bloggs og boðskap þarf að hlusta á pávönuna sem hér er fram borin og horfa á myndina um leið.
Bara eitt enn, svo skal ég hætta

Klukkan er 13:29. Atli Freyr mætir útvarpsstjóra í anddyri Útvarpshússins.

Útvarpsstjóri: Blessaður.
Atli Freyr: Blessaður.
Útvarpsstjóri (æpir úr fjarlægð, kominn fram hjá): ÞÚ STENDUR ÞIG VEL SEM ÞULUR!
Atli Freyr (æpir glaðhlakkalega): Þakka þér fyrir.

Þetta er nú eiginlega in the bag núna. Allt þetta gæti hins vegar verið teygja sem strekkist á uns Pétur Pétursson hringir í mig og hún slitnar. Allsvakalega. Frá því verður sagt á þessum vettvangi ef af verður.
Ég skal bara segja það aftur

Don McLean er drasl. Madonna er gull.

mánudagur, júní 20, 2005

Ég er nú að endurnýja kynni mín við Star Trek: The Next Generation á DVD-diskum. Fyrstu kynni mín við þá þætti átti ég fyrir margt löngu þegar hann var sýndur seint á kvöldin á Sýn. Þá lét ég mömmu taka hann upp og það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim úr skólanum daginn eftir var að horfa á hann.

Þeir hafa í engu misst sjarma sinn. Skemmtilegast núna er að horfa á þá á mismunandi málum. Þessir DVD-diskar, maður. Á þeim er, auk enskunnar, þýskt, fransk, spænskt og ítalskt tal. Oft í lok hvers þáttar stendur kapteinn Picard upp og bandar hendi og segir „Engage!“ og Enterprise þeytist út í geim. Vitið þið hvað hann segir á þýsku? „BESCHLEUNIGEN!“ Hahaha. Beschleunigen. Haha. Asnalega tungumál.

föstudagur, júní 17, 2005

Í fyrra spáði ég réttilega fyrir um það að Brynhildur Guðjónsdóttir yrði fjallkona. Ég er ekki jafnviss í ár. Reyndar hef ég ekki hugmynd. Brynhildur var einhvern veginn svo borðleggjandi í fyrra. Í ár hefur engin sérstök skúespilerína verið áberandi. Annus horribilis fjallkonensis. Við fjölmenningarsinnar munum samt berjast fyrir því áfram að fá Leoncie færða í skautbúninginn, sama hver hneppir hrossið á morgun.

Annars var ég svo upptekinn af heimsveldissinnuðum aulabröndurum í dag að ég gleymdi að auglýsa eigin þátt á Rás 1 sem var kl. 20 í kvöld. Svo var Ingveldur G. Ólafsdóttir skrifuð fyrir honum í Mogganum. Búhú. Og hann er ekki á netinu.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Söngur imperíalistans er hann gengur inn í teboð

Sound the trrrumpets, serve the crrrumpets!

miðvikudagur, júní 15, 2005

Für Elise

Baga-t-elle?

mánudagur, júní 13, 2005

In your face, Sísí!

Í dag las ég dánarfregnir og jarðarfarir í fyrsta skipti. Það var allt í lagi með mig þar til ég lét stefið rúlla og sagði: „Dánarfregnir ... og jarðarfarir.“ Um leið og ég sleppti orðinu var ég kominn inn í bíl með mömmu árið 1989 eftir að afi dó og hún kveikti á útvarpinu til að heyra nafn hans lesið. Þá áttaði ég mig á því að um allt Ísland hefði fólk gert slíkt hið sama og væri nú að hlusta á mig; ég væri beinlínis að skapa minningar fólks sem ég þekkti ekki. Það þyrmdi svolítið yfir mig.

Því létti þó eftir fréttir kl. 14, þegar fréttamaðurinn kom inn í stúdíóið. Hann sagði við mig: „Heyrðu, ég leigi hjá Gunnari Eyjólfssyni. Hann sló á öxlina á mér í morgun og sagði: „Svavar minn, nýi þulurinn á Rás 1, hann er góður ... mjög góður.““

Gunnar Eyjólfsson. Aldrei hef ég vitað slíka ánægju í starfi.
Uppfært

Ég lít hér út um gluggann, en Sísí er ekki enn þá komin að drepa mig.

sunnudagur, júní 12, 2005

Afsökun

Mér til gamans gúglaði ég orðin nýr þulur áðan. Kom þá í ljós að hún Sísí átti sitthvað vantalað við mig fimmtudaginn 9. júní:

Áhersluvilltur þulur
Nýr þulur á Gufunni sem leggur áherslu á vitlausa hluta orða, t.d. Síminn og Blómaval. Fokkíngs fáviti. Klóra úr honum augun og tunguna með reyklausum fingrum mínum.
posted by Sísí at 11:02

Fyrirgefðu, Sísí. Það er það eina sem ég get í raun og veru sagt.

laugardagur, júní 11, 2005

Það er fullkomnað

Í dag holdgerðist Útvarp Reykjavík í mér. Ég hef engin frekari markmið í lífinu.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Hápunktur lífs míns

Gamall maður hávaxinn með dökk gleraugu og í tvídjakka gengur inn í stúdíó 3 í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Hann bandar höndum og bíður. Bent er inn í hljóðstofu. Hann gengur þangað inn og réttir fram hönd sína.

GM (adagio molto): Sæll og blessaður, Jónas Jónasson heiti ég. Þú hefur góða og flotta rödd, réttar áherslur og fínan tón. Til hamingju.

Gamli maðurinn fer. Fyrir utan standa Ragnheiður Ásta Pétursdóttir og Gerður G. Bjarklind og horfa á mig. Mér leið eins og Luke Skywalker í lokin á The Return of the Jedi.

Hlustendum er þess vegna bent á þetta og þetta.
93,5

Atli Freyr Steinþórsson sér um auglýsingalestur á báðum rásum rétt fyrir kl. 10, 11 og 12. Hahahahahahahahahahahaha.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Starfsþjálfun hefst

Í þularstofu Rásar 1 er rauð taska sem inniheldur sorglega barokktónlist sem spila skal ef mannskaði verður í náttúruhamförum eða ef sorgaratburðir verða.

Sjaldan hefur hugtakið „the sound of sombre music played on gramophone records“ staðið mér jafnljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

sunnudagur, júní 05, 2005

Lútherskt sálmakvak, úje

Bæði tónlist og skáldskapur kom til álita þegar listinn var settur saman. Sex bestu sálmarnir, í engri sérstakri röð:

1. Faðir andanna;
2. Víst ertu, Jesú, kóngur klár;
3. Fögur er foldin;
4. Þig lofar, faðir, líf og önd;
5. Allt eins og blómstrið eina;
6. Ástarfaðir himinhæða.

laugardagur, júní 04, 2005

Enn um orðstofna

Les brulles sont brûlées. Brullurnar eru brenndar. Brullibrull.

föstudagur, júní 03, 2005

Hard Day’s Night

Í dag bjó ég nokkra Kvöldtóna-þætti til útsendingar. Síðan fór ég og spjallaði við málfarsráðunautinn um hvort maður bæri nafnið Nikolaus Harnoncourt ekki örugglega fram [arnonkúr]. Hann var mjög hress með þá spurningu.

Ég hef aðeins eitt að segja: Guð blessi Ríkisútvarpið.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Djobbið hans Atla

Í dag stóð ég við vatnskæli og ræddi við frægar raddir. Síðan fór ég og hlustaði á Haydn-sinfóníur. Á launum.

Útvarpshúsið er magískur staður.