mánudagur, mars 29, 2004

Hét hann þá á hinn sæla Þoddlák ...

Þessa dagana er vart rætt um annað en The Passion of the Christ, enda ágæt mynd í alla staði. Skemmtilegast við þessa umræðu alla finnst mér þó allar jarteinasögurnar í dagblöðunum um að stórglæpamenn hafi iðrast fyrir sakir blóðs Krists í bíó og hlaupið beint á næstu lögreglustöð sér til tyftingar.

Sýnir það kannski hversu mikið mál þessi mynd þykir á sumum bæjum.


Töluorð

Alltaf þegar ég kaupi mér snúð bið ég viðkomandi að skera snúðinn í fernt fyrir mig. Þetta hefur aldrei komist til skila í fyrstu tilraun, ég fæ alltaf snúðinn í tveimur hlutum en ekki fjórum fyrr en ég segi „í fjóra hluta“ og reyni ég þó að kveða skýrt að orði.

Máltilfinningu afgreiðslufólks á Íslandi er ábótavant.
Die Franzosen, ach ja die Franzosen

Fyrir utan það að hafa skíttapað í öllum vopnuðum átökum síðustu aldar eru Frakkar ágætisþjóð með skemmtilegt tungumál. Franskt barokk er einnig mjög áheyrileg tónlist og þá sérstaklega trúarleg tónlist fyrir þær sakir sem að neðan verða nánar tilgreindar.

Franskt trúarbarokk er nefnilega gjarnan sungið á latínu. Og ekkert franskt trúarbarokk er fullkomið nema það sé flutt af Frökkum, jafnt hljóðfæraleikurum sem söngvurum. Frakkarnir syngja latínuna með sínu franska nefi (enda er franskur framburður á öllum orðum sá eini rétti, eins og menn kannast við) og er þá um aungvan klassískan latneskan framburð að ræða eins og hægt er að sjá örfá skemmtileg dæmi um hér.

Þar hafið þið það. Oddur Ástráðsson styrkti gerð þessarar færslu.

sunnudagur, mars 28, 2004

Heri, ieri, hier, ayer

Tostokojoff, homo bonus, mainstream, hækja, réttarheimildir, „Brynjólfur, sæktu meira lýsi“, velska, Ernst Müller.

Já, það er margt í mörgu.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Honni

Hélt sögufyrirlestur í þýsku í dag. Um Erich Honecker, einn nafntogaðasta leiðtoga Austur-Þýskalands. Bekkir voru þéttskipaðir en þar sátu meðal annars menn utan bekkjarins sem ég hafði boðað á fyrirlesturinn með góðfúslegu leyfi Ásmundar kennara, Varðhundur og Vinstrihundur.

Greyið Honecker, karlinn. Fyrst enginn vill stofna Trotskí-sellu með mér, væri þá ekki sniðugt að stofna virðulegt Honecker-félag, Die skandinavische Honecker-Sozietät?

Hver er memm?

miðvikudagur, mars 24, 2004

NEI OG AFTUR NEI!

Holy shiteburger!

Ég var að fatta að ég kann enga dönsku lengur! Ég ætla að vaka allan næsta sólarhring og læra danska þýðingu Ódysseifskviðu utan að.
Forsetinn

Það er nokkuð ljóst hver fær atkvæði mitt í sumar. Þar sem frú Dorrit Moussaieff er ekki í kjöri (en fróm ósk um leiðtygi hennar er borin fram hér á spássíu því hennar tími mun koma!) neyðist ég til að kjósa það sem kemst næst henni.

Æi, hún verður að minnsta kosti á Bessastöðum.

þriðjudagur, mars 23, 2004

Barna-Wagner: Teiknimyndir leita á ný svið

Segið svo að maður læri ekki eitthvað nýtt á bókasafninu. Til safnsins var um daginn keypt teiknimynd, sem væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök að hún heitir Tristan og Ísold.

Framan á henni er mynd af voðalega staðlaðri ljóshærðri prinsessu í bleikum kjól og hún horfist í augu við dökkhærðan riddara í lillabláum herklæðum. Þeim við hlið eru greinilega fyndnu sidekick hvors um sig, ljósálfur og fjólublár þvottabjörn. Í bakgrunninum er síðan bleikur ævintýrakastali.

Og það sem meira er: Þessi teiknimynd er orðin vinsælasta teiknimyndin á safninu. Hún er bókstaflega alltaf úti og hefur þar með rutt Barbie as Rapunzel úr sessi.

Einhvern næstu daga þegar ég hef tíma ætla ég að taka þessa teiknimynd og horfa á hana.

mánudagur, mars 22, 2004

Orð að sönnu, ójá


El fútbol es popular porque la estupidez es popular. — Jorge Luis Borges. Óborganlegt.


Þeir sem vilja fá þessa tilvitnun á einhverju öðru máli (nei, Snæbjörn, ég er ekki að tala um einhver indjánamál, majamál eða leiðinleg geitahirðamál í Júra-fjöllum) kommenti hér að neðan.
Versta martröð mín

Þær eru reyndar tvær:

1) að ganga upp að bakdyrunum á Gamla skóla og sem ég rétti höndina að húninum til að opna rífur einhver upp dyrnar á móti mér svo að úr verður brotinn úlnliður og lömun

2) að fara í munnlegt próf í latínu og draga tvo miða sem eru bara með verkefnum úr Ars amatoria eftir Óvidíus

laugardagur, mars 20, 2004

Pronunciatio

Una hefur samþykkt að mæta í hljóð-lab til mín og gangast undir nærgöngular framburðarrannsóknir. Þetta var ákveðið í kjölfar þess að ég fór að greina sérkennilegan einhljóðaframburð í máli hennar sem gefur til kynna aðra búsetu en gefin er upp í þjóðskrá.

Niðurstöður rannsóknarinnar verða gefnar út í ritgerðarformi er frá líður.

föstudagur, mars 19, 2004

Og meira

Síðan var reyndar latínustíll (sem var festur á filmu og birtist væntanlega í fréttum Stöðvar 2) og enskustíll í dag. Það er undarlegt með korrelasjónirnar í þeim fögum. Í báðum stílunum kom fyrir orðið borgarastyrjöld.

Þetta er undarlegt í ljósi þess að fyrir nokkrum dögum lásum við bút úr Eneasarkviðu þar sem Dídó heldur því fram að hyrkönsk tígrisdýr hafi alið svikarann Eneas.

Seinna um daginn vorum við í Macbeth í ensku. Þar mælir hann svo við draug Bankós:

„What man dare, I dare:
Approach thou like the rugged Russian bear,
The arm'd rhinoceros, or the Hyrcan tiger [...]“

Eru þetta tilviljanir? Hvaða textavensl búa hér að baki? Eru þetta samantekin ráð póstmódernistakennaranna í MR um að búa til sýndarveröld í textalíki sem nemendur falla inn í? Speglanir úr einum heimi í annan? Helga Kress?
Seiseijú, mikil ósköp

Dauði og saltur jökull í gær. Fornfræði klukkan 8:10 í dag.

Læf gós on, obbladí-obblada.

þriðjudagur, mars 16, 2004

Ræðukeppni

Í dag keppti ég sem stuðningsmaður í úrvalsliði fornmáladeildar ásamt með Helga meðmælanda, Friðriki frummælanda og liðsstjóra. Kepptum við gegn liði eðlisfræðideildar og var umræðuefnið 'fornmáladeild'. Úrvalslið fornmáladeildar mælti á móti.

Við mættum hatrammir til leiks (eftir massífa heiftarupppeppun í T-stofu) og drógum ekkert af okkur í ofsanum gegn þeim þjóðhagslega óhagkvæmu iðjuleysingjum og ónytjungum sem eru á fornmáladeild. Eðlisfræðingar reyndu af veikum mætti að verja tilvist aumingjaruslakistunnar en tókst ekki og unnum við þar sem málstaðurinn og Guðs blessan voru okkar megin.

Því hvað er það, með leyfi að spyrja, sem siðspilltir niðurrifsseggirnir á fornmáladeild stefna að, annað en tortíming borgríkis okkar?

sunnudagur, mars 14, 2004

Háskólakynning

Háskólakynningin áðan breytti afskaplega miklu hjá mér, eða gaf mér öllu heldur nýtt sjónarhorn á hlutina. Mikið er nú vænt fólk sem starfar við Háskóla Íslands.

Sá ágæti maður Jón Ma. Ásgeirsson á heiður skilinn fyrir vasklega framgöngu í uppflettingum sem skilaði niðurstöðunni 'kaì he aléþeia eleuþerósei hymãs'.

fimmtudagur, mars 11, 2004

Sine nomine

Örlagadísirnar hafa reynst mér hliðhollar í dag þótt A. Funch hafi orðið fyrir barðinu á hamslausu fári þeirra. Stuttu eftir að ég póstaði síðustu færslu hringir í mig maddama Þorbjörg Sveinsdóttir og tilkynnir mér að „einhver strákur [hafi komið] inn í frönskutíma í dag með eitthvað svona bleikt tölvudót sem [ég á]“.

Fundvísi benefaktor! Heiður sé yður! Þær ómaklegu svívirðingar sem ég úthúðaði yður með dæmast þeim mun ómerkari sem þér eruð meiri dánumaður og monsér. Þótt nafnlausir séuð mun yður búinn staður á himnum sakir þessa góðviljaverks.
Þýðlegur viðurgerningur garanteraður

Ef einhver hefur tekið tölvukubbinn minn í misgripum en lesið færsluna að neðan, þá þarf hann ekki að vera hræddur. Ég mun taka mildilega við hverjum þeim sem vill sameina okkur aftur.

En að öðru. Nokkurs konar deiglykt á göngunum, hál gólf og stigar, blóð, rimill einn sleginn úr stigahandriðinu og það sem mest er um vert: Glerrúðan í borgundarhólmsklukkunni fögru A. Funch frá Kjöbenhavn í anddyrinu ... brotin! Brotin, brotin, harmafregn! Vei, ó vei yður, illu örlagadísir!

Jæja. Þetta hefði getað verið verra. Í æði sínu hefðu þau getað tekið málverkið af Sveinbirni Egilssyni og skrifað tegurdæmi á það.

miðvikudagur, mars 10, 2004

DJÖFULSINS!!!!!

Í gær týndi ég ljósfjólubláa USB-tölvukubbinum mínum í skólanum. Hann kostaði mig 5000 kr. á sínum tíma. Ég hallast að því að ég hafi skilið hann eftir hjá einhverri tölvunni í gömlu tölvustofunni í Casa Nova og einhver hafi tekið hann að mér burtförnum. Ég vona að sá óheiðarlegi djöfuls drullusokkur sem það gerði brenni í helvíti.

mánudagur, mars 08, 2004

Nei, sko

Ostur Áddráðsson. Datt þetta bara allt í einu í hug sem ég var á gangi áðan.

sunnudagur, mars 07, 2004

Bilun á gamals aldri

Stundum dettur mér í hug að fletta upp þremur eða fjórum sniðugheitum á internetinu en þegar ég er búinn að hringja inn og kominn á Google er ég búinn að steingleyma því hvað ég ætlaði að skoða.

Reyndar er ég þá oft búinn að skoða nokkrar bloggsíður. En það skiptir ekki máli. Núna er ég farinn að skrá hugdetturnar í Notepad áður en ég fer á netið, en það er mjög effektíft.
Getraun dagsins

Hvaða laglína er þetta? Vegleg verðlaun í boði.

Dada dada da, dada dada dada dada dada dada da, dada dada dada dada dada dada dada dada da.

da da da, da da da da dada, da da da da DA DA DADA DADA DADA DADA DADA DA DA.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Skilgreiningin á hugtakinu 'aldrei'

Menn heimta að Pajdakinn hefji bloggun. Það mun aldrei gerast. Ástæðurnar fyrir því eru:

1) Tómas er fortíðarsinni eins og þeir gerast svæsnastir;
2) Tómas á ekki gemsa og má af því ráða hversu andteknískur hann er í hugsun;
3) Stanislaw Poniatowski bloggaði ekki = Tómas bloggar ekki;
3 b) Bloggun samræmist ekki þeim heimi sem Tómas vill búa í, þar sem allir klæðast loðfeldum, dansa masúrka, lofsyngja Vasa-fjölskylduna og gera erfðatilkall til Svíþjóðar og Saxlands.

Q.E.D.

Jæja, má ekki vera að þessu. Ég þarf að fara heim að uppáklæðast.

mánudagur, mars 01, 2004

Aufforderung zum Tanz

Fór í dag að máta kjólföt fyrir fiðluballið. Ég hef sjaldan verið flottari. Það vantaði bara bláan borða yfir brjóstið og silfurstjörnu í hálsmálið. Svo kláraðist plássið á danskortinu fyrr en dæmi eru um í samanlögðum antiquitatibus.

Nú verður dansað.