föstudagur, október 26, 2007

Eftirmiðdagur

Í dag, þegar beygjuljósin urðu græn, tók ég af stað tveimur millisekúndum seinna en ég hefði getað gert. Aldraður maður á vínrauðum Subaru fyrir aftan mig tapaði hins vegar sinni þolinmæði eftir eina millisekúndu og fór að flauta á mig. Honum til heiðurs ók ég á undan honum á 20 í tvær mínútur (það var þung umferð á móti svo hann gat ekki tekið fram úr mér) og á eins kílómetra hraða yfir þrjár hraðahindranir, og þegar við komum að hringtorginu fór ég ekki inn í það heillengi þótt það væri alveg autt. Svo vinkaði ég honum. Hann var gjörsamlega afmyndaður í hljóðlausri bræði sinni í speglinum. Bíllinn hans fór næstum því á hliðina þegar hann þeysti út úr torginu. Ég óska þessum manni allra heilla. Guð blessi hann.

föstudagur, október 12, 2007

Talandi

Þegar ég hlustaði á Dag B. Eggertsson tala í gær fannst mér alltaf eins og ég væri staddur á framboðsfundi í Kösukjallara.

fimmtudagur, október 11, 2007

Stórtíðindahraðlestin

Ástþór „tómatsósa“ Magnússon fær friðarverðlaun Nóbels á morgun. Það hlýtur bara að vera.
Fabiomassimo B. Eggertsson

Stjórnmál í Reykjavík eru farin að verða eins og á Ítalíu. Hvað hafa margir borgarstjórar setið síðan fyrir helgi? Sjöþúsund?
Háspenna

Ég þori ekki að opna ísskápinn minn því það er skyrdolla þar sem rann út 25. september.

laugardagur, október 06, 2007

Ur

Hjálpræðisherinn heitir Frelsunarherurin á færeysku.
Passaðu þig, Hu, þetta er samt klón

Hér reyna spittsbúbar og falsknektir að rengja klónakenningu mína með lygð og klækjum. En ég sé í gegnum þá.

þriðjudagur, október 02, 2007

Ólafur Ragnar: Mörgæsirnar eru vinir okkar, við eigum að stofna til fríverslunar við þær

Annaðhvort er Ólafur Ragnar Grímsson knúinn áfram af kjarnaofni eða það er búið að klóna hann í tíu eintökum, einn fyrir hverja heimsálfu, en einn auka í Bandaríkjunum, á Íslandi og Suðurskautslandinu. Semsagt tveir á Suðurskautslandinu. Alvöru-Ólafur býr með Dorrit í Belgravia og tannburstar sig með kampavíni.

mánudagur, október 01, 2007

Hallgrímur Pétursson kunni ekki íslensku

Ljúfan Jesúm til lausnar mér langaði víst að deyja hér. Mig skyldi og lysta að minnast þess mínum drottni til þakklætis.