föstudagur, september 30, 2005

Hugleikur Dagsson er snillingur, fyndinn snillingur. Þeir sem eru á annarri skoðun eru dvergvaxnir að andlegu atgervi.
Niðurlag kaflans um Knjólf og Knjörð úr Engilsaxakróníku

Hér á eftir fylgir þýðing AFS á stórkostlegasta texta heimsbókmenntanna.


Cynewulf ond Cyneheard

Ond se Cynewulf ricsode .xxxi. wintra, ond his lic liþ æt Wintanceastre ond þæs æþelinges æt Ascanmynster, ond hiera ryhtfædercyn gæþ to Cerdice.

Ond þy ilcan geare mon ofslog Æþelbald Miercna cyning on Seccandune, ond his lic liþ on Hreopadune; ond Beornræd feng to rice ond lytle hwile heold ond ungefealice. Ond þy ilcan geare Offa feng to rice ond heold .xxxviiii. wintra, ond his sunu Ecgferþ heold .xli. daga ond .c. daga.

Se Offa wæs Þincgferþing, Þincgferþ Eanwulfing, Eanwulf Osmoding, Osmod Eawing, Eawa Pybing, Pybba Creoding, Creoda Cynewalding, Cynewald Cnebing, Cnebba Iceling, Icel Eomæring, Eomær Angelþowing, Angelþeow Offing, Offa Wærmunding, Wærmund Wyhtlæging, Wihtlæg Wodening.


Knjólfur og Knjörður

Knjólfur ríkti þrjátíu og einn vetur og liggur lík hans í Vestklaustri og lík öðlingsins [= krónprinsins, Knjarðar] að Öskjustöðum en þeir rekja kyn sitt til Garðauka.

Á því sama ári var Aðalbaldur, konungur Mervíkinga, felldur að Sökkvatúnum og liggur lík hans í Hreppatúni. Þá var til ríkis leiddur Bjarnráður en ríkti skammt og í ógleði. Sama ár var Ófeigur leiddur til ríkis og ríkti í þrjátíu og níu vetur; sonur hans Eggfreður ríkti í 141 dag.

Ófeigur þessi var Þingfreðarson en Þingfreður Jánólfsson, Jánólfur Ásmóðsson, Ásmóður Ævarsson, Ævar Bótbertsson, Bótbert Grjótason, Grjóti Kynvaldsson, Kynvaldur Kambertsson, Kambert Jakason, Jaki Jómarsson, Jómar Eggþésson, Eggþér Ófeigsson, Ófeigur Vermundsson, Vermundur Véleggsson og Véleggur Óðinsson.

miðvikudagur, september 28, 2005

BA

Eru BA-mál að skýrast? Á ég að taka:

a) Konungsbók Eddukvæða fyrir og kollvarpa gjörsamlega skilningi manna á gatinu í Sigurdrífumálum og jarða Sigurð Nordal með ævintýralegum Völuspárskýringum í seinni helmingnum?

b) spurningalista og leggja fyrir ómálga börn í Grafarvogi og komast að því að það eru jújú tengsl á milli menntunar foreldra og þágufallshneigðar og fá rammaklausu um það í Daglegt líf í Mogganum?

Hmm.

„Atli Freyr Steinþórsson, 1984. Hraunrúst : Sigurður Nordal jarðaður. Reykjavík, 2007. XCIII + 645 bls. Lokaverkefni frá Háskóla Íslands. Íslenskar bókmenntir.“

Já, a).

mánudagur, september 26, 2005

Til hamingju, ÍslendingarNæst: Jón Ásgeir getinn af geimveru.
Amores Perros og Borg Guðs

Mikið hlýtur lífið í Suður-Ameríku að vera erfitt.

laugardagur, september 24, 2005

Holdið er veikt

Svanur segir að það þyki eðlilegt að lesa 1200 blaðsíður á viku í Hróðgeirsskóla. Ó ég vildi óska að ég hefði viljastyrk til að lesa 171 og hálfa blaðsíðu af prentmáli á dag.

Ég stunda það af vísindalegri nákvæmni að reikna alltaf út hversu lengi ég verð með eina bók. Ég les eina blaðsíðu með skeiðklukku og margfalda síðan sekúndurnar með blaðsíðutalinu og þykist þá hafa komist nærri lestímanum. Að sjálfsögðu er endanlegur lestími víðs fjarri og frekar mældur í dögum en klukkustundum.

Ég þarf alltaf að lesa lengi og íhuga hverja setningu til að hafa ánægju af því sem ég les. Ég get ekki rennt yfir blaðsíðu og haft gaman af henni. Jújú, ég næ meginatriðunum úr henni en las of hratt til að geta sogið í mig allt sem þar var eða var ekki. Þess vegna virðast mér 40 blaðsíður á klukkutíma nokkurn veginn sanngjarn mælikvarði miðað við þetta seinlæsi.

Ef ég gæti hlekkjað mig við lestur í fjóran og hálfan tíma á dag þá væri lífið svo miklu miklu sætligra.

föstudagur, september 23, 2005

Það sem gerir verk Sigurðar Nordals og Einars Ólafs Sveinssonar nánast ólæsileg er óskiljanleg pervisjón þeirra að skrifa eg en ekki ég (SN) og annara en ekki annarra (EÓS). Gjörsamlegur tryllingur.

fimmtudagur, september 22, 2005

Mér finnst þetta nýja tónlistarhús ekkert voðalega flott. Enda hefur mig lengi dreymt um tónlistarhús í Reykjavík í þessum stíl. Djöfull yrði það brjálað.
Hvar eru hipparnir þegar maður þarf á þeim að halda?

Eins mikið og ég bölva hippunum fyrir að hafa líberalíserað heiminn of mikið, eyðilagt hornspangagleraugna-jakkafata-fílinginn í skólunum og fengið það í gegn að latína varð ekki lengur inngönguskilyrði í háskóla, þá mega þeir eiga það að þeir fengu sitt í gegn.

Í Háskóla Íslands er í sumum námskeiðum gefið í heilum og hálfum upp í þrjá fyrir verkefni. Ef ein lítil villa finnst í verkefni fást því 2,5 (83%) fyrir það, en ef gefið væri upp í 10 fengjust 9,5 (95%). Er þetta sanngjarnt?

Ríkisstjórnir í Frakklandi á sjöunda áratugnum þurftu að segja af sér fyrir minni brot gegn stúdentum en þetta.

þriðjudagur, september 20, 2005

Þannig er ég mísanþróp. Reyndar aðeins að ákveðnum skilyrðum orgösmuðum, eins og lýst hefur verið, en þess á milli er ég fílanþróp. Fílanþrópísku ástandi mínu er stöðugt spillt; það er til mikið af fólki sem efast um réttmæti mitt til ákveðinna aðgerða, skoðana og tilfinninga og stendur í vegi fyrir mér, og því mætti orða heimspekikerfi mitt í mottóinu: Warum gibt es Leute?

Hvers vegna er þetta fólk til? Hvaða tilgangi þjónar það eiginlega? Til hvaða réttar skírskotar fólk sem ákveður að standa í vegi fyrir mér? Að mínu áliti hafa andskotar mínir nauman rétt til þess að vera andskotar mínir.
Ég læt stjórnast af þeirri sannfæringu að ég sé fullkominn og allt sem ég geri sé maklegt, sannferðugt og réttvíst. Allir sem halda því fram um gerðir mínar að þeim sé ábótavant (nema í algjörum undantekningartilfellum) eru viðfangsefni síðustu færslu.
Þið eruð öll fífl

Ég missi oft trúna á mannkynið vegna almennra hálfvitastæla og belgings í einstökum spesímenum þess (sumir halda nefnilega að þeir séu meira en þeir eru og aðrir séu undirsátar þess) og langar þá að setja hingað skammavaðal þar sem einstaklingur er nafngreindur og honum ekki vandaðar kveðjurnar fyrir atferð sína. Þetta langar mig oft að gera vegna þess að fólk upp til hópa er fífl.

En þetta var allt saman áður en ég uppgötvaði að ólíklegustu garpar lesa þetta. Og við erum öll undir Damóklesarsverði guklsins.

Þetta þýðir samt ekki að ég ætli að fara að halda pappírsdagbók. Viðtökurnar skipta okkur egóistana sem höldum úti bloggi öllu. Nei, í staðinn mun ég hér eftir ófrægja fólk undir rós á þessum stað í Paulo-Coelho-stíl.

mánudagur, september 19, 2005

Góðir menn hafa bent mér á misræmi orðalags og tilefnis í minningargrein hér fyrir neðan. Vonandi hefur það verið leiðrétt.
Uppfært

Það var verið að reka okkur burt úr Árnagarði. Þá sneri viðfangsefni síðustu færslu sér við og sagði: My friend is teaching me Swedish via Skype. AFS (með öruggum gáfumannasvip, býst við aðdáun): I see. Are you from Iran? V: No, I'm from Morocco. AFS: Oh. Was that Arabic? V: Yes, my friend was born and raised in Sweden from Iraqi parents, and he speaks very bad Arabic. I am teaching him Standard Academic Arabic (eflaust n.k. Hochdeutsch, - innsk. AFS), because the little he knows of his parents' dialect, is very bad.

Síðan kom í ljós að þessi ágæti maður hét Tarek, og kvaðst alls ekki vera arabi (að eigin sögn), heldur berbi frá Atlasfjöllum, þar sem menn tala hina verstu málamisku; blöndu af arabísku, berbísku, spænsku og frönsku. Samtalið var því akademískara en síðasta færsla gaf í skyn.

Þannig að ekki skrifa svoleiðis færslur, krakkar. Stríð hafa verið háð af minna tilefni.
Hórdómur

Ég er í tölvuveri Árnagarðs að gera verkefni. Á móti mér situr dökkleitur maður sem talar persnesku, án efa frá Íran. Hann er á Skype að tala við Íranavin sinn í Svíþjóð, og hann er að kenna honum sænsku, og hann hefur eftir honum í sífellu: Jag studerar svenska ... jag är från Iran .. vad ska du göra i kväll ... det är billigt.

Svona menn á að bombalda.

laugardagur, september 17, 2005

Vovka Ashkenazy Valdimarsson er tónlistarmaður. Með kyrillísku letri líktist nafn hans samt mest 'Bobka'. Það fyndist mér fyndið. Að heita 'Bobka'.

fimmtudagur, september 15, 2005

Internetið og Þorsteinn Gylfason

Líf mitt hefur batnað til muna eftir að faðir minn fékk áfall yfir internetreikningnum og sagði mér að borga hann sjálfur. Ég nýt svo mikillar velvildar í foreldrahúsum að ég lét mér ekki bregða og datt ekki í hug að borga til að sýna karlinum það lið fyrir lið hvernig líkami minn myndi leysast upp af tæringu og allt falla í ógagn að interneti uppsögðu. En öðru nær, heiðraði lesandi.

Og þegar ég fer að hugsa um það, þá átti sér eftirfarandi stað á hverju kvöldi: Hmm, ég þarf að fara að gera eitthvað nytsamlegt. Best að fara aðeins á internetið áður. Blogghringur einu sinni. Svo aftur með ctrl + r, aftur aftur aftur aftur. Fréttasíður. Ctrl + r, ctrl + r, ctrl + r. Ómerkileg efnisatriði gúgluð. Hugardauði og svo er klukkan orðin 2 að nóttu. Svefn.

Ég sat fyrstu kvöldin inni hjá mér í biturð, en fór smám saman að sinna ýmsu markverðu. Til dæmis í gær tókst mér að hlusta á tvo klukkutíma af hljóðbókinni Tilraun um heiminn eftir Þorstein Gylfason, höfundur las. Þorsteinn Gylfason er fyndinn og góður upplesari; svo vill til að góðar bókmenntir eru flutningurinn að hálfu, John Gielgud hefði gert Mikael Torfason að Æskílosi. Þeir feðgar Þorsteinn, Þorvaldur og Gylfi Þ. hafa ótrúlega líka rödd. Svo hafa þeir allir rödduð samhljóð sem að réttu ættu að vera órödduð og draga seiminn á þeim, sem gefur máli þeirra aukna kúltívasjón. Framsetning Þorsteins er svo kristaltær og óbrjáluð, efnisatriðum skipað í fullkomið jafnvægi, allt sem skiptir máli sagt í réttri röð og því blandað saman við hámenningarbrandara. Það er annað en sumir heimspekikennarar (pseudo-fræðimenn, loddarar og stílslysaðir menningarmorðingjar allir saman) geta státað af. Ég hló mig máttlausan að bröndurunum í bókinni sem sígaretturödd Þorsteins kom vel til skila. Svo var hann farinn að tala um samsemdarefnishyggju og smætti og ég áttaði mig bara allt í einu: Heyrðu, ég skil upp á hár um hvað hann er að tala, og það gerðist án þess að ég tæki eftir því. Þetta er fáránlegt. Maðurinn er töframaður. Eða var. Ég skráði mig í Þórbergskúrsinn til að sitja við fótskör þína, mér skildist að líf manna breyttist til betri vegar eftir andlegt samneyti við þig. Og svo dóstu. Eftir að hafa rekið mig á andleysi og eymd hugargeldra háskólakennara (í alvöru, háskólamenn eru gjörsneyddir ímyndunarafli og húmor) finn ég vin í eyðimörkinni (í tvöföldum skilningi) sem þornar síðan upp fyrir augunum á mér. Þú ert harmdauði íslenskri menningu og mér, Þorsteinn Gylfason. Ég sakna þín án þess að hafa þekkt þig.
... unte þeina ist þiudangardi jah mahts jah wulþus in aiwins, amen. Please turn the cassette here.

Draumur minn um að lesa inn á latneskar og gotneskar hljóðbækur fyrir Oxford University Press gildnaði í dag, þegar ég las inn á spólu tvær fréttir úr Nuntii Latini (á latínu) fyrir Laugardagsþáttinn, sem verður á Rás 1 næsta laugardag kl. 13. Þar á að gera pistil um latínu, og svo skemmtilega vildi til að minn gamli mentor, Stálmúsin, benti á mig til verka þess.

Þótt ég hefði viljað hafa meiri tíma til æfinga, svo ég gæti velt hljóðkvantítetunum og áherslunum frekar fyrir mér held ég að þetta hafi sloppið fyrir horn. Svo útbý ég bréf með bréfsefni Icelandic National Broadcasting Service (yes, it's sort of like the BBC, yes) og sendi til OUP. Hahaha.

fimmtudagur, september 08, 2005

Stuð

Wagner transkríberaður fyrir orgel.
Já!

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður varaformaður Sjálfstæðisflokksins, síðan formaður og loks forsætisráðherra, en breytir titlinum í Fjallráðskona og kemur aðeins fram í baldýruðum skautbúningi og talar undir fornyrðislagi og verður óskoraður meykóngur Ísalands.

Ég elska Þorgerði.

laugardagur, september 03, 2005

Bara svo þið vitið það, þá er það glópska að „draga hreint klæði handa næsta manni“ eins og klósettgestir eru beðnir um úti um allan bæ. Ég treysti aldrei drifhvítu klæði sem ég mæti á klósetti. Það getur vel verið að einhver hafi hnerrað á það eða þurrkað hland af putta svo lítið beri á. Og svo ber maður það kannski að vitum sér og deyr úr sýkingu. Ég dreg alltaf hreint klæði undir öllum kringumstæðum, og dreg aldrei hreint handa næsta manni, svo að hann geti verið þess fullviss að það sem hann dregur muni ekki skaða hann. Ekki að ég sé neitt óhreinn eða viðbjóðslegur.
Séntilmenni borða poppkorn með kavíar.