mánudagur, febrúar 28, 2005

Ég nenni ekki að horfa á óskarinn

Í dag fékk ég áhuga á Lorenzo Valla.

laugardagur, febrúar 26, 2005

Haha, feis!

„Með riti því, er nefnist »Rannsókn hinnar hreinu skynsemi« komum vér að fyrsta afreksverki Kants. Hann var 11 ár að hugsa út rit þetta og reit þá lítið annað; en er þessi 11 ár voru liðin, reit hann það niður í flýti á nokkrum mánuðum, og kom það út á 57. aldursári hans eða árið 1781. Sýnir það, hversu síðbært margt af því er, sem síðan er talið til hins ágætasta er mannsandinn á, og víst er um það, að Kant með riti þessu hefir markað tímamót í sögu mannsandans. En það er þó einn galli á gjöf Njarðar. Vegna flýtisins sem það er ritað í og vegna þess hve efnið sjálft er ervitt viðfangs, er framsetningin á því svo þunglamaleg og klönguryrðin í því svo mörg, að varla er unt svo vel sé að lýsa því á mæltu máli, og einmitt þessvegna hefir það náð svo lítilli hylli meðal þeirra manna, er ekki hafa nennu eða getu til þess að brjóta örðug rit til mergjar (bls. 66, innsk. AFS).“

Ágúst Bjarnason. 1906. Yfirlit yfir søgu mannsandans — Nítjánda öldin. Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar, Reykjavík.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Old Glory

Ekkert er fyrirlitlegra / ógeðslegra en The Star-Spangled Banner í R&B-Disney-útgáfu. Kjánahrollur implied. Kommon, það er skemmtari í þessu helvíti!

Má ég þá frekar biðja um þetta?

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

mánudagur, febrúar 21, 2005

Siðleysi

Að eðlisfari er ég ekki stjórnlyndur maður í siðferðisefnum. Menn mega gera hvað sem þeir kjósa við sjálfan sig eða aðra í einrúmi svo framarlega sem það skaðar mig ekki og allir viðstaddir eru samþykkir verknaðinum.

Þess vegna er ég fylgjandi lögleiðingu fíkniefna. Ef fólk kýs að drepa sig á fíkniefnum þá má það gera það mín vegna.

En þess vegna er ég á móti óbeinum reykingum. Fólki sem telur að það megi kveikja sér í í námunda við mig á almannafæri skjöplast hrapallega. Ríkisvaldið á að veiða slíka ömurðarslordóna í net á götum úti og blóðmerja hold þeirra undir járnhæl sínum. Fólk sem telur sig hafa leyfi til að reykja á almannafæri er siðblint og gallað í sálinni.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Smow emm llioughthfrythe

Útlensk mál liggja að hálfu leyti í munnkækjunum. Margir gera sér ekki grein fyrir þessu. Til dæmis: s er ekki það sama og s. Þjóðverji sem segir „aus“ segir það allt öðru vísi en Íslendingur sem segir „ás“. Samt er það hljóðritað nákvæmlega eins (þó er þýski sérhljóðinn án tvípunkts enda ekki langur samkvæmt þýskum hljóðfræðistandpunkti, en það kemur ekki við efni þessa máls). Íslendingum virðist oft sem Þjóðverjar séu smámæltir þegar s kemur fyrir í máli þeirra vegna þess að þeir herpa tunguna mun meira en Íslendingum er eðlilegt við myndun sama hljóðs. Þetta er þó ekki rétt. Þjóðverjar þræða hárfína línu milli „íslensks“ s og smámælis sem íslenskt eyra kann ekki að greina.

Slíkir munnkækir, sem ég kýs að kalla svo, skipta höfuðmáli þegar herma á eftir erlendu máli. Þegar menn til dæmis tala frönsku verða þeir að fetta og bretta raddbönd og kok mjög sérstaklega til að mynda sannfærandi sérhljóða. Samt er þetta allt saman hljóðritað eins í öllum málum; íslenska orðið „dís“ er hljóðritað [ti:s], franska orðið „dix“ [dis]. Þetta i er hljóðritað alveg eins. Samt er það alls ekki sama i-ið.

Einhvers staðar sá ég samt vísindalegan samanburð á sh-, sch- og ch-hljóðum í ensku, þýsku og frönsku, respectively (shame-schon-chaud). Þar var þetta hljóðritað með tölustöfum fyrir aftan sem sýndu nákvæmlega munnstöðu sem var mismunandi fyrir hvert mál. Ég var svo vitlaus að leggja ekki þennan stað á minnið og hef ekki fundið slík vísindi síðar, ekki einu sinni í hljóðfræðikúrsinum sem ég tók fyrir jól.

Það er að minnsta kosti draumur minn að hlusta kannski á Frakka tala þýsku og segja: „Hmm, jájá, þetta schon hjá honum var voðalega mikið út í [sh]:+224;-116.“

föstudagur, febrúar 18, 2005

Brattar brekkur og kínverskir veitingastaðir og rauðar brýr

Einu sinni sá ég Hitchcock-myndina Vertigo. Mig minnir að það hafi verið á Hitchcock-dögum á Stöð tvö.

Ég hef líka séð myndina Foul Play með Goldie Hawn og Chevy Chase. Í þeirri mynd var vondur albínói með rauð augu sem gerði aðalpersónunum lífið leitt. Ég man líka að lokaatriðið gerðist í óperuhúsi þar sem páfinn var á uppfærslu af The Mikado eftir Gilbert og Sullivan. Gott ef það átti ekki að drepa hann.

Ég fylgdist líka með þáttaröðinni Tales of the City. Ég man ekkert eftir henni annað en að Olympia Dukakis og Laura Linney (já, aukaleikkona Númer Eitt) léku í henni.

Ég sá einu sinni Mrs. Doubtfire í bíó. Hún byrjar þar sem Robin Williams er í stúdíói að tala inn á teiknimynd, eða reyndar syngja, Largo al factotum. Lítil fugl í búri er að syngja. Falleg mynd. Og fyndin.

Einu sinni átti ég vini sem leigðu alltaf vídjóspólur með mér. Í einni þeirra fór kafteinn Kirk aftur í tímann til að bjarga hvölum. Milli þess sem hann fór í strætó með geimveruvini sínum. Það rigndi oft í myndinni.

Í minningunni finnst mér ég hafa séð allar þessar myndir um sumar; þær skapa að minnsta kosti sumar í minningunni. Þær eiga það allar sameiginlegt að gerast í San Francisco um sumar. Ég held að San Francisco sé bjartasta borg í Ameríku. Mér finnst eins og ég þurfi að fara þangað.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Trámatíseruð utanríkisstefna eða Utanríkisstefna trámatíseríngarinnar

Gamla brjálaða konan í gula húsinu sem á kartöflugarðinn tekur sig til einn daginn, flettir stærsta strákinn í hverfinu dýrum Fcuk-purpura sínum og rassskellir hann frammi fyrir hinum krökkunum. Nú deyr gamla brjálaða konan sem allir voru hræddir við og er grafin í kyrrþey, kransar afþakkaðir (sumir segja nú að hún hafi komið fram á nokkrum miðilsfundum í næstu götu, blessunin). Þá tekur fullhuginn rassskellti upp hjá sjálfum sér að grýta og brjóta glugga í húsum allra gamalla kerlinga í hverfinu. Þó þær séu ekki brjálaðar og hafi jafnvel sést á kvenfélagsfundum. Og séu heldur ekki kartöfluræktendur.
Ég bendi á myndina Bandaríkjaböku 2

Í amerískum ungdómspartíum, falla þá risastór plastglös í hendur bjórþyrstra sem manna af himnum ofan?

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Tónatjasl

Og já. Meðan ég man. Hvað á uppgangur reggí-hljómsveitarinnar Hjálma eiginlega að þýða? Horfði einhver maður á þá í Gísla Marteini um daginn? Sá einhver galtómt augnaráðið í einum viðtöldum meðlimi sveitarinnar og heyrði merkingarlaust húmbúkkið sem úr honum kom útúrfreðnum?

Raddæfingar söngvarans í þessari sveit eru vondar. Hann er að farast úr tilgerð við að reyna að herma eftir einhverjum sem ég kann ekki að nefna. Víbrató til þess eins að vekja kjánahroll. Nú snýr Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi sér við í gröfinni (lesendum bendi ég á bls. 135 í bókinni Mælt mál eftir téð góðskáld (Helgafell, 1963)).

Svo er þetta með hár úr hampi falið í einhverjum selsblöðrum niður eftir baki og aflitað skegg. Hvar í andskotanum er Jan Sobieski Póllandskonungur þegar maður þarf á honum að halda að ryðja svona Hundtyrkjum úr vegi?
Ástir samlyndra mörgæsa

Einmitt þegar ég hélt að dagurinn gæti ekki orðið leiðinlegri, þá rekst ég á þetta. Þessi frétt er svo djúúúúúpsteikt að ég á ekki orð. Mér er skemmt.
Accusativus exclamationis

Eins og það sé ekki nóg að vera vakinn og sofinn hóstandi með sárt nef og sára sál, þá er ég líka með stærsta munnangur í heimi rétt fyrir ofan neðri jaxl vinstra megin.

Einhvern veginn hefur mér tekist að bíta svona hressilega í mig svo að úr varð þrjátíu tonna svöðusár sem er að gróa núna. Alltaf þegar ég reyni að tyggja eitthvað verður það á milli tannanna, valdandi miklum kvölum.

O diem nigrum.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Flemm

Ég geri fátt annað þessa dagana en stumra yfir klósettinu og fagna sársaukanum við það þegar slím í fjölbreytilegum litum yfirgefur prísund sína í nefholi eða hálsi.

Við eitt slíkt tækifæri áðan er ég leit í klósettpappírinn varð mér hugsað til leikrits eins skosks og sagði:

„Yet who would have thought the old man to have had so much phlegm in him?“

Sannar þetta enn þá kenningu mína að öllum hlutum megi lýsa með tilvitnun úr þessu skúspili.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Matríður brennur!

Höfuðborg Spánar:

nf. Matríður
þf. Matríði
þgf. Matríði
ef. Matríðar
Nokkrir punktar

Arthur Miller er látinn. Hann átti bróður sem hét Kermit.

Tilvitnun dagsins (þó ekki í AM): The only way to defy mortality is to live on the lips of men!

Ég er í parasetamólvímu. Ég valdi áðan að horfa á Judging Amy frekar en Star Trek: The Motion Picture. Hvort þarna á milli séu orsakatengsl fjölyrðum við ekki um. Kyrie eleison.

laugardagur, febrúar 12, 2005

Baftinn

Naunau, haldið þið ekki bara að Valdís Óskarsdóttir hafi fengið BAFTA.

Og haldið þakkarræðu: „Ó, æ vös só sjor æ vúddunt gett ðí avord, æ diddint príper a spíts. On bíhaf off ðe Ítörnal Sönnsjæn editoríal tím æd læk tú þeink ðí akedemí for ðiss onnor.“

Magnað.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Að lexíu lokinni

Nei, andskotinn. Nú fer doctorinn að þýða Cíceró yfir á fornyrðislag eða eitthvað.
Lexía dagsins

Doctor Saxithorisfilius húkir nú í stól á skrifstofu sinni og lætur sér leiðast kvef sitt. Og lætur nýaflitað hárið á Eivöru Pálsdóttur fara í taugarnar á sér. Doctorinn vill aukinheldur láta þess getið að kvenfata-kallibimbóinn Eddie Izzard mun heiðra mörlandann með grínaktugheitum í mars. Fagna því allir góðir menn (og konur, þá góð-AR, að sjálfsögðu).

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Declaration of The Council of Nobles in Reykjavík Assembled

Núna ætla Prince Charles og Camilla Parker-Bowles að giftast. Camilla má hins vegar ekki heita Queen Camilla heldur verður að vera kölluð Princess Consort af því að hún (og Kalli) eru fráskilin, sem er talið frekar ófínt í anglíkönsku kirkjunni, hverrar stofnunar Kalli yrði kommandör súpremus stigi hann á tróninn.

Ég skil eiginlega ekki hvers vegna breska krúnan tekur ekki mark á umkvörtunum The Council of Nobles sem margoft og ítrekað hefur gefið út fréttatilkynningu eftir fréttatilkynningu þar sem mælst er til þess að Prince Charles víki fyrir syni sínum Prince William sem myndi geta barn við hinni ágætu Prinsesse Madeleine þeirri sænsku og ríkja um aldur og ævi við hylli lýðs mikla. Þau ERU svo myndarlegt fólk.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Samlagningaratriði

Ein bókavarðína á Landsbókasafninu er klædd eins og fiðrildi í dag: bleik ennisspöng með fálmurum, bleikur fjaðurtrefill og bleikir vængir á bakinu. Hún valsaði um hérna áðan og raðaði bókum í hillu.

Í skamma stund taldi ég ínuna brostna á geði en mundi síðan eftir öllum litlu krökkunum á Hafnarfjarðarveginum í morgun sem börðust við að halda í ljósastaura með litlu höndunum sínum svo þau fykju ekki út á rúmsjó í fínu Leikbæjarmúnderingunum og dræpust.

Ég hins vegar er klæddur sem örvæntingarfullur háskólanemi í dag.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Samanburður á algildum eða Málsvörn málfræðings

Meltingarfæralæknir spyr: „Ég meina, þúst, það tala allir íslensku. Af hverju ættir þú að vita eitthvað meira um tungumálið en allir?“

Atli Freyr Steinþórsson svarar: „Það þurfa allir að kúka. Vita þá ekki allir allt um hvernig úróbílínógen breytist í saurbrúnku? Spurning um tillærða djúpvisku, góði.“

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Tungl í fyllingu

Ég verð alltaf svo barnslega kátur í sálinni þegar ég sé þessa mynd af þessum manni.

laugardagur, febrúar 05, 2005

Miss Pontiff 2000

Já, það er spurning. Ég hætti mér enn lengra út á bannfæringarbrautina og hef ákveðið að efna til kosningar: Miss Pontiff 2000.

Felst kosningin í því að kjósa myndarlegasta páfa tuttugustu aldar. Ég mæli með þessari síðu til hliðsjónar.

Spurning: væri kvenkyns páfi kallaður pápynja? Eða pæfa? Allavegana, ég ætla að tilnefna Píus XII fyrir mitt leyti.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Hvern langar til að káfa á páfa?

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Raunir mínar

Tók einhver eftir djöfullegri tvíræðninni í færslunni fyrir neðan? Nei, hélt ekki. Fyrirgefið að ég spurði.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Hvar er Sigurður A. Magnússon þegar maður þarf á honum að halda?

Lesstofan á efstu hæð Odda er mjög óformleg. Þar talar fólk saman um allt milli himins og jarðar, allt frá tjúttinu í bænum til farsímastillinga. Mjög hátt. Þökk sé doktor Magga Jóns og opnum rýmum hans er hér einnig stanslaus hávaði að neðan.

Á móti mér situr strákur sem talaði hið hljómfegursta mál í farsímann sinn áðan. „Þetta er nýgríska,*“ hugsaði ég í því er ég fór á klósettið.

Þangað tók ég með mér framboðsbækling frá lista sem ég hef ekki kynnt mér áður. Ég var sammála hverju orði sem þar stóð og mun kjósa listann.

Þegar ég kom til baka leit ég á tölvuskjáinn hjá farsímagaurnum. Jú, mikið rétt, hann var að lesa gríska bloggsíðu. Hvað myndi hann gera ef ég arkaði að honum og færi að syngja gríska þjóðsönginn fyrir hann?

Senjórís' apó tín kopsí,
tú spaþjú tín trómerí!

Senjórís' apó tín opsí,
pú me vja metræ tín jí!

Ap' ta kókala vjalmení,
ton Ellínon ta jera.

Ke san próta, anðrjómení,
hjer ó hjer elefþerja!


Ég er á þeirri skoðun að nýgríska sé hljómfegursta mál í heimi.

[* Ég tilheyri svo lærðum kreðsum að ég verð að gera greinarmun á forngrísku, koine og nýgrísku þegar ég tala um þetta mál. Það dugir ekki að segja bara 'gríska'. Ég bið grunlausa lesendur afsökunar á óhagræði sem af þessu kann að hljótast.]