miðvikudagur, apríl 30, 2008

Tónmál

Þegar ég hlusta á Mahler líður mér stundum eins og að einfættur maður sem er afmyndaður í framan og með blettaskalla haltri grátandi á eftir mér en ég er að reyna að flýja.
Um framburð í ljósvakamiðlum eða Yheiður Z. Xursdóttir tekur til máls

Nú um stundir er fullt af latmæltum Austurríkismönnum í sjónvarpinu að tjá sig um karlmann sem [deletum]. Það gera ekki margir feður. En hvað um það, Austurríkismennirnir segja ekki [aindojtíx] fyrir ‘eindeutig’ heldur [eeeeendöytíx] af því að þeir eru sveitamenn sem vilja ekki tala háþýsku.

Það er gott og blessað. Annað einkenni á suðrænni sveitaþýsku er að fella brott í ritmáli stoðhljóð í enda atkvæðis á undan sónóröntum svonefndum, eins og menn kannast við í nafni tónskáldsins Haydn (í stað Hayden til dæmis, eins og er ritað þegar nær dregur Norðursjó).

Engu að síður er þetta nafn utan Stórþýskalands borið fram eitthvað í líkingu við [haiden], semsé með stoðhljóði þótt ekkert sé í rithætti. Þjóðverjar sjálfir fara örlítið aðra leið; hafa n-ið síðasta atkvæðisbært, og ber það í hljóðritun lóðrétt strik niður úr sér því til táknunar, svo að n-ið oftnefnda sé lengi í nef kveðið, án stoðhljóðs. Framburður verður því eitthvað í líkingu við [haid-nnnnnnnn].

Sama er uppi á teningnum í nafni föðurins greiðvikna, en hann heitir Josef Fritzl. Ekkert er þar stoðhljóð til að gefa til kynna að l-ið síðasta, sónórant af sömu ætt og n-ið í Haydn, sé atkvæðisbært og raddað, og nafnið því útlagt [fridds-lllllllll].

Nú hefði maður ætlað að Haydn-reglan væri mönnum um alla jarðarkringluna svo gjörkunnug, jafnt Palestínuaröbum á Gaza sem Masai-veiðimönnum í Afríku og líka fjölmiðlamönnum á Íslandi, að ekki þyrfti að minna á slík sjálfsögð sannindi. Öðru er nær.

Allir sem um þetta mál hafa fjallað hafa farið með ættarnafn þessa manns eins og um eitt atkvæði væri að ræða en ekki tvö, og sagt [friddsl] eða jafnvel [frissdl], með l-ið óraddað, sem ég hef lengi sagt að væri ljótasta hljóð í íslensku og bæri að útrýma. Þetta er eins og ef nafn tónskáldsins Haydns yrði borið fram sem eitt atkvæði með órödduðu n-i og sagt [haidn], eða eins og það væri stafsett Hænn, og rímaði við ‘kænn’ eða ‘vænn’. Það á að ríma hér um bil við ‘lætin’ eins og menn vita (sunnlensku útgáfuna). Á sama hátt á nafnið Fritzl að ríma nokkurn veginn við ‘fiddle’ í ensku, sem er tvö atkvæði, ekki eitt.

Nokkrir menn [deletum] eiga sökótt við Jósef þennan (Fritzl þeas., ekki Haydn, guð minn góður). Samt tel ég brýna nauðsyn til þess að bera nafn hans rétt fram, ekki [friddsl] eða [frissdl], heldur [friddsel], vegna þess að það er sannleikur, en hitt lygi.

föstudagur, apríl 25, 2008

Á leiðinni út

Mig langar til að hlusta á kantötu BWV 195, Dem Gerechten muss das Licht immer wieder aufgehen.

Hún er til á aðalsafni Borgarbókasafnsins. Ég hef of oft lent í „hmm haa jáá hún bara finnst ekki hmm“-aðstæðum á því bókasafni til að bera nokkrar væntingar til ferðar minnar þangað.

Tölvumynd af Bach, rekonstrúeruð eftir leisermynd af höfuðkúpu hans.

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Kínverska

Þetta er fáránlega öflug frammistaða hjá forsætisráðherra Ástralíu. Verra samt að hann hafi farið á fund með forstjórum Rio Tinto, en eins og lesendur Draumalandsins vita þá er Rio Tinto einhvers konar frontur fyrir flugnahöfðingjann hér á jörð, nokkurs konar and-Vatíkan.

Ég efast meira að segja um að víkingasveit herlögreglunnar í Rio de Janeiro geti ráðið við Rio Tinto.
Í ljósi atburða eða BOPE II

Meyvant A. Sigurðsson vöruflutningabílstjóri hætti að kvarta yfir „harðræði“ íslensku lögreglunnar þegar víkingasveit herlögreglunnar í Rio de Janeiro var send til að díla við þá.

þriðjudagur, apríl 22, 2008

BOPE (Fala! Fala! Fala!)

Friðjón átti sér einskis ills von þegar víkingasveit herlögreglunnar í Rio de Janeiro stöðvaði hann undir Kópavogsbrúnni og mundaði plastpokann.
Lögbirting
Vísað er til tilkynningar 10. október MMIV.
Ég, Atli Freyr Steinþórsson, stórhertogi í Atlaníu, rektor Atlaníuháskóla og forseti háskólaráðs, hef ákveðið að veita Frank Arthur Blöndahl Cassata framgang í embætti lektors í tölvunarfræði við háskólann. Titill hans er lector regius retiarius plenipotentiarius, konunglegur tölvunarfræðilektor án kennsluskyldu, en með heimild til kennslu við aðrar skólastofnanir sem sendimaður Atlaníuháskóla.
Sé það góðu heilli gjört og vitað.


(Lektor Frank er til vinstri á polaroid-myndinni. Við hlið hans er Helgi Hrafn Guðmundsson, bóhem og sjónvarpsstjarna, en Elín Lóa, Mosfellingur og námsmaður, gægist yfir myndina í raunveruleikanum. Á skrifandi stundu er eigandi þumals mér óþekktur.
Uppfært 23:11: Lektor Frank segir þumalinn sinn.)

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Járnin

Þegar ég verð kominn með sixpakkinn ætla ég að halda partí þar sem ég verð ber að ofan allt kvöldið. Þér er boðið.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

La contadina

Emma Kirkby var umsjónarmaður útvarpsþáttar sem ég heyrði fyrir skömmu. Hún sýndi þar á sér töluvert aðra hlið en hún flíkar í barokksöngnum, þar sem hún syngur fínpússaða RP-ensku. En í þessum þætti talaði hún greinilega sitt eigið móðurmál, unaðslega og sætfljótandi sveita-ensku, og sagði [kúntre] fyrir 'country' í stað [kantrí]. Ég varð ástfanginn af henni aftur á nýjum forsendum.

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Íslenzk einsöngslög

Eru æði, þvert á það sem ég hélt einu sinni.

Staðreynd: Til eru söngvarar (non-pólskir, meira að segja) sem sérhæfa sig í því að syngja sönglög á pólsku eftir Chopin, sem eru óintresant, leiðinleg og á máli sem er ógerningur fyrir útlendinga að bera rétt fram.

Til umhugsunar í framhaldi af þessu: Væri ekki gaman ef Bryn Terfel og Malcolm Martineau gæfu út portrett-disk með klassískum íslenskum sönglögum og kæmu síðan þegar tónlistarhúsið verður opnað og tækju Ásareiðina eftir Sigvalda Kaldalóns, eða Sverri konung eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, og Bryn full-coachaður í íslenskum söngframburði?

Möguleg afleiðing: Íslensk einsöngslög yrðu þá að költfyrirbrigði í klassíska tónlistarheiminum og áður en varði væri komið á fót Der Internationale Kaldalóns-Wettbewerb í Reykjavík, sem fram færi á fimm ára fresti og blóðheitir söngvarar segðu sig reglulega úr dómnefndinni eftir deilur um sigurvegarann.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Et iterum venturus est cum gloria judicare vivos et mortuos

Þetta var rosalegt. Takk fyrir, öll sem ég hitti. Amen. Hallelúja fyrir líf hinnar komandi aldar.
Farinn

Jæja, ég er farinn upp í Öskjuhlíð. Sjáumst þar.
Allir að mæta

Mér hefur rétt í þessu borist guðleg fregn um að Jesús Kristur muni stíga niður úr hásæti sínu á himnum og stofna til þúsundáraríkis síns í Öskjuhlíð í dag klukkan 17:30, fyrir utan Perluna. Brauð og fiskar til sölu á staðnum.