miðvikudagur, júní 28, 2006

Snorrabúð

Ég talaði þýsku við mann í gær en hljómaði eins og slavnesk vændiskona með líkamsvessa í munninum, slíkar voru málvillur mínar og framburðar-, sem og höktandi rytmi sem sæmir ekki man of letters. Þetta verður að bæta.

Þýskubootcamp á dagskrá.

sunnudagur, júní 25, 2006

Richard Dawkins

Svona menn eru nú bara best komnir á auto da fé. Ég finn alltaf El Atlo koma upp í mér þegar ég heyri svona málflutning.

Um þetta gildir gamla reglan að sá hefur tapað rökræðunni sem fyrstur segist „vorkenna“ mótaðilanum vegna skoðana hans, reyndar eins og þessi ágæti maður gerði í Kastljósinu áðan.
Baltasar Kormákur í Blaðinu

„Ég held að ef maður fari til Lúxemborgar og verði þar í viku þá átti maður sig á því að menning er ekki lúxus heldur lífsnauðsyn. Það er andlegur dauði að vera þarna. Þar er ekkert nema bankar, nokkrar Gucci-búðir og flugvöllur. Þetta er ekkert líf. Svo keyra allir til Belgíu eða eitthvert annað í leit að andlegri næringu.“

Amen amen hallelúja.

laugardagur, júní 24, 2006

Richard Wagner

„Æi, gaurinn sem samdi Nílargullið.“

föstudagur, júní 23, 2006

Fávitarnir

Æi, það er svo mikið af fólki sem mig langar að tala illa um hérna. Eitthvað heldur aftur af mér. Nefnist tilfinningin sú siðferðiskennd? Velsæmi?

miðvikudagur, júní 21, 2006

Hin gömlu kynni

Fyrrverandi útvarpsstjóri gerðist vinur minn strax á fyrsta starfsdegi mínum. Þó var ég ekki ráðinn í gegnum flokksmaskínuna. Núverandi útvarpsstjóri hefur hins vegar aldrei yrt á mig. Hverju sætir þetta?
Þýskaland spilaði fótbolta við menn frá Suðurameríku í gær og vann 3-0. Miroslav Klose og Lukas Podolski skoruðu mörkin.

En einhvern tíma hefði það þótt fréttnæmt á kaffistofunni í Reichskanzlei-inu að slavar tveir, frá því uppdeilda Póllandi, hefðu varið heiður Þýskalands frammi fyrir öðrum þjóðum.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Þá er ég fluttur að heiman

Ég flutti fyrir rúmri viku í Hafnarfjörð í götu sem heitir Arnarhraun. Húsið mitt er númer 4-6. Þegar ég lét skipta hátíðlega um lögheimili á bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar kom í ljós að allir íbúar voru skráðir með lögheimili við Arnarhraun 4. Nema einn. Sem var með lögheimili á númer 6. Ég vildi ekki vera hinn blokkarfávitinn og fékk að velja húsnúmerið fjóra.

Húsið mitt er níbýli. Já, þar eru níu íbúðir. Það er hins vegar ekki nýbýli, enda reist 1963, á ofanverðum dögum Ólafs Thors. Ég bý á efstu hæð fyrir miðju í 63 fermetra íbúð, sem er björt og fögur með útsýni yfir bárujárnaðan gamla Hafnarfjörð og góðu kíkisútsýni inn á annað fólk.

Bakgarðurinn minn er dæmigerð hafnfirsk laut lík þeirri hvar ég lék mér barn að aldri hjá ömmu minni, semsé úfið og yddótt hraun en með mosatótt hér og þar. Þessi laut greikkar fallið frá svölum til jarðar og gefur tilfinningu fyrir því að ég búi í turni. Móti þessu landflæmi vita svalir í eigu minni sem eiga eftir að koma sér vel þegar ég verð kjörinn forseti og þarf að heilsa lýðnum sunnudaginn eftir kosningar.

Bókaskápar þekja umstalsverðan hluta veggpláss míns sem kemur í góðar þarfir. Hins vegar nægðu ekki tveir Ikea-geisladiskaskápar, tveir í viðbót væri nær lagi.

Það var allt í lagi að flytja að heiman. Ég neita því samt ekkert, þegar ég kom heim (gamla heim) daginn eftir að ná í helstu nauðsynjar til að mega lifa, það var erfitt. Þangað til meira yrði keypt fékk ég einn matardisk, einn hníf, einn gaffal og eitt glas. Það var erfitt að borða einn og vaska síðan upp matardiskinn minn, hnífinn minn, gaffalinn minn og glasið mitt, í singularis. Setningar eins og „Þetta er diskurinn minn“ flugu í gegn og mér fannst ég vera einn.

Ég er samt ekki einn. Það er hljóðbært í húsinu og ég heyri það um tólfleytið á kvöldin þegar pólska barnafjölskyldan við hliðina á mér eltir smábarnið sitt til að svæfa það. Þær 15 setningar sem ég kann í pólsku gagnast mér ekki til að ræða við fjölskylduna, en setningarnar snúast allar eða flestar um staðsetningu gömlu konungshallarinnar í Kraká. „Przeprazsam, gdzie jest zamek królewski?“ Í Hafnarfirði eru fáar, ef einhverjar, konungshallir.

Hins vegar er ágætt að vera einn með draslið sitt og geta gert það sem manni sýnist þegar manni sýnist. Það var orðið leiðinlegt próspekt að bjóða fólki í heimsókn í „herbergið“ sitt. Hins vegar er leiðinlegt að koma heim og þar er enginn sem sýnir áhuga á því sem maður var að gera. „Hvar varstu? Jájá. Borðaðirðu eitthvað, ertu svangur, vinur?“ Loftið gefur manni ekki að borða.

Í húsinu búa barnafjölskyldur og gamalt fólk. Meira að segja fjörgamall amerískur kven-pensjónisti sem á dóttur á hæðinni fyrir ofan. Hún er stundum í stigaganginum að ná í einhvers konar lyf upp til hennar.

Undanfarið hef ég verið hræddur við að koma heim, skella á eftir mér og henda skónum af mér á parketið. Ég losnaði við það í gær og hugsaði ekkert um hvað aðrir heyrðu. Í dag lét ég það síðan eftir mér að spila háværa tónlist. Ég lét Emmu Kirkby syngja aríur úr Messíasi yfir sjálfan mig og þar með hússins innbyggjara.

Síðan fór ég í sturtu og söng Händel-aríur við raust.

sunnudagur, júní 11, 2006

Móðir Basílea og ég

Alltaf finnst mér jafngaman á tjannelsvappinu þegar maður fer fram hjá svertingjastúlkum að hrista á sér brjóstin á Sirkus eða Skjá einum og lendir á Ómega þar sem er mynd frá sjöunda áratugnum með móður Basíleu Schlink, abbadísinni þýsku í Ísrael.

Gönguferðir söngsystranna með olíugreinar um eyðimerkur Landsins helga styrkja sálarkraftinn og ekki spilla þýskuskotnar prédikanir móður Basíleu.

laugardagur, júní 10, 2006

Framættin í beinan karllegg

Jón Ólafsson Indíafari (1593-1679),
Ólafur Jónsson (1651-????),
Jón Ólafsson (1689-1753),
Svartur Jónsson (1720-????),
Ólafur Svartsson (1754-1813),
Halldór Ólafsson (1794-1826),
Jón Halldórsson (1822-1911),
Guðmundur Jónsson (1864-1937),
Halldór Guðmundsson (1895-1940),
Guðmundur Samúel Halldórsson (1929-1995),
Steinþór Ómar Guðmundsson (1950-),
Atli Freyr Steinþórsson (1984-).

Já, góðir hlustendur, ég er kominn í beinan karllegg af Jóni Ólafssyni Indíafara.

Og til ykkar, sem ætlið að lesa einhverjar hottintottainformasjónir út úr Svarts-nafni forföður míns, þá beini ég því að móðir Svarts Jónssonar hét Margrét Svartsdóttir og var dóttir Svarts Guðmundssonar bónda á Svarthamri í Súðavíkurhreppi. Svarthamri sko.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Allegro

Maður er aldrei eintómur sembalkonsert, nema í Róm, þar er allt sembalkonsert.
Tannlæknastofa í miðborg Reykjavíkur

Mér leið áðan eins og persónu í skáldsögu eftir Braga Ólafsson, sogaðist inn í atburðarás sem varmenni stjórnuðu og ég réð ekkert við.

sunnudagur, júní 04, 2006

Pippi Långstrump gengur í ósamstæðum sokkabuxum eins og frönsk skipahóra.
Je suis poète

Þýddu þennan ljóðaleik, Helgi Hálfdanarson!

A: „Pouvez-vous m’expliquer,
s’il vous plaît,
quelque chose?“
B: „Je ne l’ose ................................... pas.“
Les femmes pour la multitude

Pourquoi dit-on toujours mon Dieu mais notre Dame?

laugardagur, júní 03, 2006

Af hverju segir maður alltaf já?

Til dæmis við því að segja verðandi læknanemum til í íslenzkum fræðum í tveggja stunda fyrirlestri 11. júní?

föstudagur, júní 02, 2006

Gátur Ármanns

Jared varð næstelstur Biblíumanna, sbr. 5. kafla 1. Mósebókar, 20. vers: „Og allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár; þá andaðist hann.“