á Sverrir Jakobsson fyrir bráðfyndna frjálshyggjuskilgreiningu sína á bókasöfnum: sameign bóka = kommúnismi.
Próftaflan
er komin upp á veggi Lærða skólans. Á tímabilinu 2.–19. maí er mér gert að mæta og þreyta stúdentspróf í tveimur greinum, líffræði og stærðfræði, og lokapróf í nokkrum öðrum fögum. Í einni vikunni verður próf upp á hvern einasta dag, en í annarri er tveggja daga gap sem fer til einskis. Betra hefði mér þótt að skipuleggja þetta svo: próf á mánudegi, miðvikudegi og föstudegi (með nokkrum óhjákvæmilegum hliðrunum kannski) á þriggja vikna tímabili svo að maður hafi að minnsta kosti einn heilan dag eða helgi til að undirbúa sig fyrir hvert próf. En það verður víst ekki og því þýðir ekki að kvarta. Menntaskólinn í Reykjavík gefur sko engin grið.
Sigurjón pais aristos estin
Helvíti líst mér vel á félaga minn Sigurjón sem nú vegur með sér að skella sér á fornmáladeild I í sjötta bekk, komandi af nýmála II.
Sigurjón, þú ert æði.
Af menntum
Annars hef ég aldrei skilið sumt fólk. Ég hef aldrei skilið það fólk sem að loknu menntaskólanámi fer í greinar á borð við lögfræði, sagnfræði, íslensku eða einhverja húmaníska grein og kemur af annaðhvort dýrafræði- eða tölfræðideildum. Ég skil ekki hvaða akk slíkir menn sjá sér í því að stritast við í fjögur ár að stúdera einhvern fjandann sem gagnast þeim ekki neitt í komandi námi.
Ég blæs á þau rök að enginn lærdómur sé gagnslaus og það kerlingaraus að „þetta víkki sjóndeildarhringinn svo svakalega“ og að menn hafi „kynnst svo rosalega mörgu“. Það fólk sem fer í áðurnefndar greinar hefur ekkert gagn af líffræði, eðlisfræði, efnafræði eða æðri stærðfræði á vegferð sinni. Slíkir menn hefðu miklu meira gagn af traustri klassískri menntun í formi latínulærdóms, sagnfræðistúderinga og mikillar og traustrar málakunnáttu.
Það eina sem blífur er sérhæfing sérhæfing sérhæfing frá blautu barnsbeini!
Hvað gengur því fólki til sem kemur af dýrafræði- og tölfræðideildum og leitar í húmanískar greinar? Hefði lögfræðistúdentinn ekki meira gagn af því að geta lesið Corpus juris civilis á frummálinu? Skyldi sagnfræðistúdentinn ekki prísa sig sælan fyrir að kunna sína aoristosa þegar hann pælir gegnum Heródótos? Hvað vill sá íslenskustúdent upp á dekk sem ekki hefur brotist inn í myrkviði ablatívusafrumskógarins? (Reyndar þurfa ýmsir lögfræðingar að vera ágætlega að sér í verslunarrétti og skyldum viðbjóði, en þeir koma bara úr Versló og öllum er sama um þá.)
Þá skil ég ekki hvers vegna móðurmáls- og sagnfræðikennsla er jafnmikil á öllum deildum. Æi, allt í lagi, kannski eiga allir skilið að fá sömu móðurmálskennslu. Og þó … Nei, skera verður hana niður hjá þeim sem vilja frekar teikna parabólur og diffra sig djöfuls til! Alveg miskunnarlaust! En allir hljóta að vera sammála mér í því að veita húmanísku deildunum smávegis-„edge“ með því að auka sagnfræðikennslu þar en minnka hana á öðrum deildum svo að slíkar deildir verði girnilegri í augum þeirra sem ef til vill ætla sér í sagnfræði eða skyldar greinar.
Það hlýtur að vera keppikefli manna nú á tímum taumlausrar og óstöðvandi efnishyggju, þegar allt verður að lúta lögmálum gróðans, sama hvað það er, að sem flestir verði skólaðir á klassískan hátt. Því verður að beina öllum þeim sem leita í húmanískt háskólanám í þann farveg í menntaskóla. Öllum!