laugardagur, apríl 30, 2005

Eretz Zavat Halav (klapp, klapp)

Eitthvað við þjóðlagatónlist frá Miðjarðarhafinu veldur því að mig langar að dansa á borðum og brjóta glös.

Diskurinn Most Popular Songs from Israel á mig allan, hann er mesta afrek mannsandans fyrr og síðar, Leoncie og Goethe ekki undanskilin. Þetta og þetta. Þarf frekari orð?

föstudagur, apríl 29, 2005

Handsal

Í dag
blésu mér vindar
á efsta leiti íslenskrar menningar.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Hvað hafa margir Cortezar afskipti af íslensku tónlistarlífi? Skipta þeir tugþúsundum?
Ég er undir => icelandic

Í dag rakst ég á þessa síðu. Þar safna amerískir háskólamenn saman enskum framburðarsýnishornum og rýna í. Þetta gera þeir til að átta sig á því hvernig málhafar frá fjarlægum heimshornum (eða obskúrum landshlutum) bera þetta ágæta mál fram. Gagnagrunninn nota tungutæknifræðingar, leikarar sem þurfa að ná valdi á erlendum (nú, eða obskúrum) framburði, málfræðingar, hljóðfræðingar, talmeinafræðingar og ýmsir aðrir.

Sjálfboðaliðar lesa staðlaðan texta og senda inn:

Please call Stella. Ask her to bring these things with her from the store: Six spoons of fresh snow peas, five thick slabs of blue cheese, and maybe a snack for her brother Bob. We also need a small plastic snake and a big toy frog for the kids. She can scoop these things into three red bags, and we will go meet her Wednesday at the train station.


Ég get ímyndað mér að í textanum sé að finna allar helstu hljóðkonstrúksjónir í ensku, svona svipað og setningin The quick brown fox jumps over the lazy dog inniheldur alla stafi í ensku.

Nema hvað, ég sendi inn mína versjón og reyndi að beita eins íslenskulegum framburði og mér var unnt. Ég hefði getað brugðið yfir mig purpuraskikkjunni og talað The King’s English, en það hefði ekki gagnast neinum; þá hefði enginn kynnst íslenskum framburðareinkennum og dæmið hefði verið andstætt tilgangi síðunnar.

Ég reyndi að radda aldrei blísturshljóð eða lokhljóð, veikja aldrei sérhljóða niður í schwa, reyndi að hafa hljóðalengd eins og um væri að ræða íslenskt orð, gerði affríkata og önnur útlend hljóð eins íslenskuleg og hægt var (cheese = [tjís]), afraddaði alla hljómendur á undan lokhljóðum og ýkti óraddað r í enda orða svo það færi ekki á milli mála. Auk þess bar ég [w] fram sem [v]. Rúsínan í pylsuendanum: setti inn aðblástur, íslenskasta framburðareinkenni í heimi, alls staðar þar sem því varð við komið.

Þeir leitast við að hljóðrita öll dæmin af vísindalegri smásmygli en þar sem mitt var sett inn áðan eiga þeir það eftir. Ég hlakka til að sjá hvort greiningin þeirra stemmir við mína. Æm es giddí es a skúlboj.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Við búum ekki í Búrma

Farðu að flaka fisk, Brynhildur Flóvenz. Ég vil ekki borga meira svo þú getir haldið áfram að ljósrita eða hvað það er sem þú gerir.

laugardagur, apríl 23, 2005

Der Untergang

Wenck! General Wenck mit seiner Neunten Armee soll die Bolschewisten niederschlagen!

Þessi mynd er snilldin ein. Frábær leikur. Mér fannst ég aldrei vera að horfa á kvikmynd. Mér finnst þýskur leikur iðulega tilgerðarlegur, eins og íslenskur. Hef einlægt haldið að það lægi í tungumálinu, þó það sé erfitt að halda því fram að þýska sé vont leikmál, sem á mörg hundruð ára hefð í þeim efnum og Jón Ylfil Goethe.

Það breytir því ekki að mér finnst íslenska hræðilegt leikmál. Það er a) vondum leikurum að kenna, b) vondri leikritun eða c) blöndu af báðu og hefðarskorti einum miklum. Ég fæ alltaf kjánahroll þegar ég hlusta á íslenskan leikdíalóg. Sama hvað ég reyni, þá get ég ekki tekið íslenskan leik í sátt. Alltaf einhver rembingur eða óræður skortur á einhverju sem ég kann ekki að nefna. Af hverju geta íslenskir leikarar ekki verið eins og Scarlett Johansson; leikið eins áreynslulaust og þeir depla auga? Kannski liggur þetta í íslenskunni. Þá þarf að endurnýja skáldskaparmálið til að það henti leikhúsinu! Þetta gerði Shakespeare. Og Jón Ylfill.

En aftur að Der Untergang. Það er málhórdómur að auglýsa hana undir nafninu Downfall. Hold þeirra sem báðu um miða á Downfall í Regnboganum nú í kveld brann illa undan augum mínum. Ég meina, þetta helvítis tungumál þýska er ritað latínuletri og vel læsilegt! Hver er vandinn?

Ja, mein Führer, ich berate Ihnen sich gleichzeitig zu erschießen und das Gift zu nehmen.

Firringin var algjör og það kemst til skila. Góð mynd.

föstudagur, apríl 22, 2005

Nei, danskan er eiginlega farin að verða of létt. Ég uppgötvaði það þegar prestur nokkur var kallaður sjælesørger. Þegar ég uppgötva að tungumál er ekkert nema umritun á mínu eigin máli þá segi ég stopp.

Nú ætla ég að læra kínversku. Eitthvað við r-hljóðin sem kveikir í mér. Svo er líka hættan á kognöntum á borð við sjælesørger mjög hverfandi: *Kvún tong sjá kei van sjælesørger dong.

Ég vildi óska þess að hér á landi væri rekinn kaþólskur menntaskóli með alvitrum frönskum jesúítum við katedruna. Jesúítar kenndu Voltaire að skrifa skikkanligan stíl. Ég hefði máski farið í þann menntaskóla.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Dansbrúnar hugleiðingar um aprílmánuð og stærstu syni árinnar Inn

Sextánda apríl árið 1927 fæddist drengur í þorpinu Marktl am Inn í Bæjaralandi. Hann varð síðar páfinn í Róm hinn nítjánda apríl.

Tuttugasta apríl árið 1889 fæddist drengur í þorpinu Braunau am Inn í Efra-Austurríki. Hann varð síðar kanslarinn í Berlín og dó þrítugasta apríl.

Milli þessara tveggja bæja eru fjórtán kílómetrar og lækjarspræna. April is the cruellest month.

Ég er að hugsa um leggja spennuskáldsögu út af þessu þar sem táknfræðingurinn Robert Langdon þeysist milli dómkirkna og helgra dóma í Berlín, München og Róm með ljóshærða þýskaragellu upp á arminn sem flíkar steríótýpísku nafni (segjum Helga).

Nýi páfinn sendir einrænan sósíópata-skósvein gegn þeim svo þau geti ekki lokið kúltúrratleiknum sem tengir páfann við fornkristnan og útdauðan villutrúarsöfnuð sem nú er upprisinn tvíefldur og stefnir á heimsyfirráð gegnum kaþólsku kirkjuna, segjum Aríusarsöfnuðinn (neglir Hitlerstenginguna vegna nafnsins og þess að hann var æðstiprestur safnaðarins til 1945 þegar páfinn tók við af honum í búnkernum neðst).

Ratleikurinn byggist á því að ráða í leyndar meiningar í verkum einhvers evrópsks trúarlistamanns á hámiðöldum eða við upphaf nýaldar (segjum bara Albrechts Dürers, á hvers verkum enginn hörgull er við Rómar-München-Berlínar-öxul sögunnar), sem var einmitt líka æðstiprestur Aríusarreglunnar á sinni tíð. Og dó sjötta apríl. Pælið í því.

Síðan kemur í ljós að maðurinn sem var allur af vilja gerður til að hjálpa þeim í ratleiknum (segjum bæverski kardínálinn og listunnandinn Hans Grünmeyer) var aðalskúrkurinn í Aríusarsamsæri vorra daga. Með páfanum. Sem var eftir allt saman sonur Hitlers.

Svo ætla ég að græða fullt af peningum. Og halda því fram að ég sé að segja sannleikann.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Sumarstarfið

„Útvarp Reykjavík. Nú verða lesnar veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands.“

Já, góðir hálsar: þulur Rásar 1.
Ratzinger vann mig.

mánudagur, apríl 18, 2005

Ég má ekki vera að þessu bloggdóti lengur, ég þarf að dressa mig upp og drífa mig á conclave.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Ég át mig saddan á ostsneiðum og hamborgarasósu áðan. Jeg føler mig ganske modbydelig.

föstudagur, apríl 15, 2005

Þau eru öll tökuorð úr grísku

„Kratakórinn kyrjaði pólitískan pistil.“

krati < gr. 'kratos' > 'krateia';
kór < gr. 'choros';
kyrjaði < gr. 'kyrios' sbr. Kyrie eleison;
pólitískur < gr. 'polites' > 'politeia';
pistill < gr. 'epistole'.

Og kommentskomment

Orðið 'króatískur' er hins vegar (eins og nærri má geta) komið úr króatísku, 'Hrvat', og er talið hafa þýtt 'hæð' eða 'fjalllendi' á fornslavnesku.

Króatar voru þekktir fyrir falleg hálsbindi sem voru í París kennd við þjóðina og kölluð Cravates. Þjóðverjar tóku þetta upp og nú heita hálsbindi Krawatten þar í landi.

Króatar voru þekktir fyrir fleira en falleg hálsbindi, en þeir þóttu ójafnaðarmenn í þrjátíu ára stríðinu. Þess vegna er hægt að nefna óstýrilátan krakka helvítis krabat á íslensku. Það er komið úr lágþýsku.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Æ, ég er eitthvað svo eitthvað. Best að fara að horfa á State Opening of Parliament eða Trooping the Colour.
Ég var byrjaður á reiðifærslu þar sem ég kallaði Íslenska hómilíubók „illa og hráslagalega þýddan latínuversjónavaðal“, en rak þá augun í þetta paragraf:

Setupallar kirkjunnar merkja vorkunnláta menn, þá er hægja meinum óstyrkra náunga í vorkunnlæti, svo sem pallar veita hógindi sitjöndum.

Skólabókardæmi um af hverju kristnin lifði af: Nógu helvíti einfalt líkingamál sem vér almenningur skiljum og getum tileinkað okkur. Jesús Jósefsson var meistari í þessu. Þetta er til dæmis ástæða þess af hverju enginn á eftir að muna eftir Jacques Derrida að tvö þúsund árum liðnum.

Íslenskri hómilíubók er hér með fyrirgefið.
Málvandi

Er það merki um saurskap minn og pseudo-intelligensíu að ég get lesið sjötíu síður í Dan Brown í striklotu og skemmt mér gífurkonunglega, en sjö línur í Íslenskri hómilíubók með vítisherkjum áður en ég loka henni og fer að skoða of kunnuglegar bloggsíður?

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Smáauglýsing

Ég hef ákveðið að gerast morfínfíkill. Læknar og/eða læknanemar í hópi lesenda eru beðnir aðstoðar í formi ótakmarkaðra uppáskrifta.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Rödd frá liðnu sumri

Áðan fann ég tvær færslur í drafts-fólderinu sem ég skrifaði í júlí 2004 en lagði ekki í að birta af einhverjum ástæðum. Kannski hef ég ekki ýtt á publish-takkann og gleymt síðan færslunum. En þær standa fyrir sínu og birtast hér að neðan. Ég hef að vísu gleymt hvaða mark þetta var sem ég dylgjaði um. Einnig sést hvað minnið um óþolandi smástelpur með tíkarspena hefur fylgt mér lengi.
Farðu í rassgat, Noam Chomsky

Ég var að ljósrita vaxlitamyndir handa fimm ára stelpum í bleikum flíspeysum með hjálma áðan. Þær eltu mig inn á kontór og horfðu á mig skera blöðin í sundur með pappírssveðjunni Við að sjá það sagði ein þeirra: „Vá, kúl.“ Þá er það orð kirfilega komið inn í orðaforðann.

Síðan sagði hún: „Ég hef aldrei skerið með svona hníf.“ Þá spurði ég hversdagslega á móti: „Jahá, með hvernig hníf hefur þú skorið?“ Hún: „Ég hef bara skorið með svona barnahníf!“

Án þess að leggja neina sérstaka áherslu á nokkurt orð notaði ég réttu sagnmyndina og hún apaði hana upp á eftir mér athugasemdalaust. Og síðan er sagt að börn læri ekki tungumál með því að apa eftir!

Það var nefnilega eitt í málvísindum í fyrra sem ég var ósáttur við. Í námsefninu var spurt: Læra börn mál af 1) því að herma eftir, 2) tilsögn, 3) hliðstæðum, 4) barnalegu máli fullorðinna? Svarið við öllum þessum spurningum var 'nei' og niðurstaðan var sú að menn vissu bara eiginlega ekki sko hvernig börn lærðu mál.

Í dag urðu kaflaskipti í sögu málvísindanna á Bókasafni Garðabæjar.
Skref og mark

Skref voru stigin í átt að ákveðnu marki í dag. Þó ekki sama marki og nægði enum hávu Hellenum til sigurs og eilífrar setu á Ólympstindi evrópskrar knattspyrnusögu um helgina.

Mörg prik

En talandi um Grikki á EM. Fréttablaðið fær ótrúlega mikið af prikum fyrir íþróttasíðurnar í dag. Þar segir: „Fyrirliði Evrópumeistaranna, Þeóðoros Zagorakis, var valinn besti leikmaður EM.“

Í stað þess að apa allt hugsunarlaust eftir Reuternum og skrifa 'Theodoros' nýttu þeir sér þann möguleika sem íslenska stafrófið býður upp á að skrifa nafnið hans eftir nýgrískum framburði. Sem er flott.

Loksins er þeirri blóðugu baráttu lokið sem Sigurður A. Magnússon hóf í vorhefti Skírnis árið 1992 með greininni 'Um íslenskan rithátt grískra orða' og henni lauk með fullnaðarsigri nýgrískumanna.

Lokaorð Sigurðar: „Ég læt þessi dæmi nægja til að ítreka þá skoðun að Íslendingar séu almennt hörmulega fákunnandi um grískar menntir, og að löngu sé orðið tímabært að bæta fyrir þau afdrifaríku glöp að fella niður hérlendis uppfræðslu í grísku og grískum menntum við upphaf aldarinnar.“

Þetta hefur nú verið afsannað. Og sú afsönnun birtist á íþróttasíðunum af öllum stöðum.

Asnalegt fólk

Ég fyrirlít fólk sem neitar að fallast á einföld hagkvæmnisrök. Fólk sem neitar að gera hlutina á hagkvæmari hátt en tíðkast hefur og tekur ekki sönsum þegar hagkvæmnin öskrar framan í það, megi það hvergi þrífast.

laugardagur, apríl 09, 2005

Er það einhver misskilin hógværð hjá mönnum eins og Megasi að mæta aldrei í sjónvarpsviðtöl?

föstudagur, apríl 08, 2005

Á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í dag segir í myndatexta: „Ítalskur lögreglumaður notar hund við sprengjuleit á Péturstorginu.“

Allir sæmilega gáfaðir menn sem hafa kynnt sér staðhætti vita af afstöðu kúpulsins og úrverksins á þakinu að þetta getur ekki verið inni á Péturstorginu. Maðurinn er staddur við súlnaröðina á Via Paolo VI.

Það væri alveg öltimet að senda þetta sem leiðréttingu: „Athugasemd frá spjátrungi.“
Æstar grúppíur mínar muna líklegast til færslu minnar á gamlársdag 2003. Þar bloggaði ég um þennan ágæta mann, David Crystal, sem er reyndar nokkuð líkur erkibiskupnum af Kantaraborg. Ekki að það skipti máli. Og þó, kannski á einhverju merkingarlegu súbstratúmi.

Kjarni málsins er þessi: Ég veit ekki hvað ég geri ef ég kemst ekki á fyrirlesturinn hans.

Mér líður eins og stelpu í brúnu pilsi með túberað hár á leið á Bítlatónleika.
Íslenskir sálmar: iðulega smekklegar þýðingar á danskri pontoppidanguðfræði við lágþýska búxtehúðarlagboða. Einn er öðrum líkur, eins og kynnast gömlum vini að heyra nýjan. Með öðrum orðum, dásamlegt. Lútherskt sálmakvak rúlar. Það gerir líka síðasta lag fyrir fréttir, svona kl. 12:17 hvern dag. Það er gaman að vera gamall. Gæskurnar mínar.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Ég hef öruggar heimildir fyrir því að næsti páfi muni nefnast Marteinn Lúther I.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Finnar steikja öðrum þjóðum ákafar.

Mig langar svolítið að heyra þetta lag.
Ég hef þeyst um Álftanes síðustu daga á hjóli mömmu.

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna karlmannsreiðhjól eru með stöng sem gengur úr hnakk fram í stýri, en kvenmannsreiðhjól ekki. Kvenmenn hafa engra hagsmuna að gæta á þessum stað, en það hafa karlmenn.

Þess vegna ætla ég að halda áfram að þeysa um Álftanes á hjóli mömmu.
Nýr póll í hæðina, hvað deilendur athugi!

Ég lýsi yfir þeirri skoðun minni að mannsandinn og trúarlífið sé eitt og hið sama. Sá maður sem býr ekki yfir guðstrú er að mínum dómi andlaus.
Það sem stuðar mig aðallega við færslu Arngríms er setningin: „Auk þess getur ekkert gott komið af stofnanavæddum trúarbrögðum.“

Allir kúltíveraðir menn (sem ég geri ráð fyrir að Arngrímur sé) ættu að gera sér grein fyrir að vestræn menning hvílir á kristindóminum. Án hans værum við ekki það sem við erum.

Annars nenni ég ekki að ræða kirkjuna sem slíka eða leiðtoga tiltekinna kirkjudeilda. Mig langar frekar að ræða hreina þeólógíu. Þess vegna læt ég umræðunni um mennska birtingarmynd trúarinnar lokið og tek þráðinn upp í næstu færslu.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Ég er orðlaus yfir þessari söguskoðun, svo illa ígrunduð er hún! Að segja að þrír helstu leiðtogar 20. aldar hafi litlu komið til leiðar er ámælisvert.

Að segja að Jóhannes Páll páfi II. hafi ekki haft nein áhrif á mannkynssöguna bara vegna þess að hann var „helvítis trúarleiðtogi“ er eins og að segja að Heinrich Heine hafi ekki haft nein áhrif á þýska ljóðlist bara vegna þess að hann var „helvítis gyðingur“.

Slíkur málflutningur er fordómafullur þvættingur, vanvirðing við áhrifamátt kirkjunnar og trúarhatur. Einnig þykir mér þetta lykta af andúð á stórmennasögu, sem póstmódernískum sósíalistasagnfræðingum er mjög töm um þessar mundir. Slíkir menn segja að öll afrek sögunnar séu eignuð tilteknum stórmennum og grey alþýðan liggi óbætt hjá garði. Án þess að vilja gera lítið úr þýðunnar ali, þá er það staðreynd að maðurinn er hjarðdýr sem fylkir sér um viljasterk stórmenni sem móta söguna í sinni mynd.

Kirkjuhatur og vantrú á mennskan anda heyrir sögunni til. Sú tóma öld og kalda sem liðin er getur aðeins leitt eitt í öndvegi: hughyggju og trú. Að öðrum kosti verður hefðarrof sem býr mannsandanum hátt fall.

Góðir hálsar: Ég boða ykkur guðs öld og trúmennsku!
Annars öfunda ég kardínálann Jorge Medina Estévez. Hann stígur fram á svalir Péturskirkjunnar eftir páfakjör og segir „Habemus Papam!“

Fyrst þarf að vera ábúðarmikil þögn. Svo þarf hann að segja Papam aðeins hærra og virðulegar en Habemus. Og hann þarf að segja þetta af snerpu, hratt en samt ekki of hratt.

Æi, fokk, ég þarf bara að hringja í hann. Er einhver með númerið hjá honum?

„Já, sæll, herra kardínáli. Atli Freyr Steinþórsson heiti ég, og mig langar aðeins að leiðbeina þér um latneska prósódíu, því ég treysti þér ekki. Ég ... halló?“
Mér hefur verið hnekkt

Eftir að hafa gert allar mögulegar ráðstafanir til að sannfæra trúfasta lesendur um blekkinguna hér að neðan féll ég á því að nota séríslenska stafi á nokkrum stöðum. Bölvaður sért þú, Einar Örn. Megi Þorsteinn Gylfason finna rökvillu í ritsmíðum þínum.

Eftir að hafa blokkað alla á MSN, hvorki svarað SMS-um, símhringingum né tölvupósti, skrifað ankannalega stafsetta bloggfærslu og fengið saklaust fólk til að taka þátt í samsærinu og neita kunnskap við mig í þeim tilgangi að sannfæra alla um að ég væri í raun á Ítalíu, þá féll ég. Og fallið var mjög hátt.

Annars er þessi mynd ekta, færslan spannst af því. Gott til þess að vita að svissneskur hermaður í Vatíkaninu lítur nákvæmlega eins út og ég. Alveg eins og þegar lítill strákur í löggubúningi og á þríhjóli, skuggalega líkur mér, birtist í Kays-listanum 1990 frá B. Magnússyni, Hafnarfirði. Ég var (og er enn) þess fullviss að hér hefðu útsendarar vörulistans náð af mér mynd og sett í katalóginn. Í Schweizergarde-málinu er hins vegar ekki um það að ræða.

Ég vona að þú sért ánægður, Einar Örn Gíslason.
Kaeru systkin i Jesu Kristi

Eg er kominn til borgar Peturs, Roms, ad vera vidstaddur utfor pafa. Eg fekk thessa skaldlegu skyndihugdettu a fostudag thegar ljost var ad Kristur ætti hlid sin mjog opnud fyrir honum.

Thad var afar audvelt ad fa flug og gistingu a vegum katholskrar ungmennahreyfingar i Rom sem kontaktar innan minor-basiliku Krists konungs a Islandi voru svo vinsamlegir ad utvega mer.

Hvilikur stadur! Her andar sagan a hvorju horni! Fyrsta heimsokn min i Vatikanid hlytur einnig ad teljast soguleg: Med thvi ad na tali af hattsettum manni i rodum schweizer-gardistanna, beita fyrir mig smooth-talki a latinu og svissneskri djoflathysku sem eg laerdi af bok i thridja bekk i MR (schweizertüütsch, ja!), tokst mer allraundirdanugast ad sannfaera hann um ad fa lanadan buning i thrja klukkutima og vappa um stadinn!

Sidan kom i ljos ad vegna forfalla vantar tvo menn i heidursfylkingu gardista thegar pafi verdur grafinn a fostudag. Eg greip gæsina (eda tvihenti kastspjotid, ollu heldur (eins og sest af digitalmynd)) og bad um stoduna (thetta er adallega symboliskt heldur en strang-militariskt).

Og hver haldid thid ad verdi i heidursfylkingu della Guardia Svizzera Pontificia i Peturskirkjunni vid utfor pafa? Dyggur Kristi thjonn, Atli Freyr Steinthorsson!

Mer hefur ekki i annan tima eda munderingu lidid betur! Das ist herrlich!

sunnudagur, apríl 03, 2005

Að vera fastur í búri rútínunnar

Hvað mun hamsturinn vilja? Hann veltist um svo fast, að hans djammhjól snýr og föstum honum heldur.

föstudagur, apríl 01, 2005

Hvað ef Auðuns-Georgs-málið er aprílgabb Markúsar Arnar Antonssonar? Hvað ef Friðrik Páll Jónsson var í raun ráðinn fréttastjóri en þessi sýning sett upp sem eitt risastórt aprílgabb?

„Haha! Fyrsti apríl!“