mánudagur, febrúar 27, 2006

ÉG HATA ÞIG FYRSTI MÁLFRÆÐINGUR!!! ÉG HAAAAAATA ÞIG!!!!!! (grátkast)
Úr grein um Gunnar Eyjólfsson í helgarblaði DV

„Lárus Pálsson hleypti nýju blóði í leikhúslífið og stofnaði leikskóla.“

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Omnipotens

Ég var að dæla tónlist inn á tölvuna mína frá kl. 19-05 í gærkvöldi/nótt. Mér finnst eins og mér sé allt vald gefið á himni og jörðu. Eða hver annar en Guð getur borið saman fraseringar á sama staðnum í Winterreise hjá þremur mismunandi söngvurum á jafnmörgum sekúndum, og hafnað þeim öllum hlæjandi nema Dieskau sem er fullkominn, hvort sem það er með Jörg Demus eða Gerald Moore? Hahahahahahahaha.

föstudagur, febrúar 24, 2006

iPod iPod iPod

Skyndilega hefur gripið mig óstjórnleg löngun í iPod til að safna saman 70 mismunandi útgáfum af Messíasi að bera saman. Svo langar mig líka í iTalk með þessu og útvarpssendi til að hlusta á gripinn í bílnum og í Bang og Olufsen. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Óþrjótandi segi ég.

Hins vegar langar mig í ný heyrnartól. Keypti mér meðalstóra Sony-heddfóna í haust á 9.000 kall, og stólaði á vörumerkið. Það reyndist glapræði. Heyrnartólin eru ógeð. Sóló píanó hljómar frekar eins og barinn ruslatunnubotn á torgi í Kingston en Bösendorfer í hátimbruðum sal. Þess vegna hef ég ákveðið að hætta notkun þeirra, sýta ekki þessar 9.000 krónur og kaupa mér Sennheiser-tól á 11.000 kall.

Kunna lesendur heilt að ráða?

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Bloggleikurinn Blauta tuskan

Fyrst fannst mér bloggleikurinn Blauta tuskan asnalegur og kjánalegur (kommentaðu og ég tilfæri þrennt neikvætt um þig), en núna langar mig afskaplega mikið að taka þátt í honum á öllum vígstöðvum, en ég þori ekki. Ef ég bæði einhvern að kommenta hjá mér gæti ég ekki haldið aftur af mér. Þá verðið þið stelpan sem ég hitti í Árnagarði. Og það vill það enginn.

Hvernig halda menn áfram að vera vinir eftir: „Hey, Gunni, það er oft hlandlykt af þér.“ Ekki að ég sé að segja að þetta eigi við um vini mína (sko, strax kominn í ógöngur) en þetta yrði eiginlega of flókið. Mannleg samskipti ráða bara ekki við svona bloggleiki.
Yes, I've heard that Chinese is, like, the second hardest language to learn in the world ... after English

Ég verð nú að segja að samfélagsrannsóknir Unu í Bandaríkjum Norður-Ameríku kæta mig þessa dagana.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Vonbrigði

Áðan gekk ég fram hjá sætri stelpu í Árnagarði en það reyndist vera hlandlykt af henni.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Vitleysa

Þar kom að því, væe, væe, ljóminn af gotneskunni er horfinn, latína germanskra mála er ekkert nema drasl, líf mitt er blekking og námið óarðbært (sem var reyndar vitað fyrir).

Mjög lítið er varðveitt af gotneskum textum, og það helsta er nýjatestamentisþýðing sú er Wulfilas biskup lét eftir sig, en hann var ekki einu sinni Goti, heldur einhver fáviti sem var herleiddur frá Kappadókíu (Suðaustur-Tyrklandi). Hvað um það, nýjatestamentisþýðing þessi ber það sterklega með sér að vera einmitt það; þýðing.

Wulfilas þýðir á flestum stöðum nákvæmlega eftir grískunni, eins og unglingsfáviti á Morgunblaðinu sem þýðir AP-skeytin frá orði til orðs, konstrúksjón fyrir konstrúksjón. Wulfilas þýddi lýsingarhætti, forsetningar, smáorð, hikorð og allar hinar fornmálskonstrúksjónirnar eins og fálmandi maður í tíma hjá Kolbeini að reyna að giska á hvern andskotann Krösus var að gera við þessa úlfalda. Tökum dæmi:

gotn. Jah andhafjands sa aggilus qaþ du imma ...
gr. Kai apokritheis ho angelos eipen auto ...
ísl. Og svarandi engillinn kvað (við) honum ...

Og vegna þess að bara þýðingar úr fornmálum liggja fyrir á gotnesku, en nánast ekkert frumsamið á málinu, er ómögulegt að skera úr um hvort svona kjánalatínusamsetningur er gotnesk setningafræði eða ekki. Sem er óþolandi.

Hugsið ykkur ef einu íslensku málheimildirnar sem lægju fyrir eftir 1500 ár á íslensku væru grískuversjónir skrifaðar upp í tíma eftir Kolbeini. Já, hugsið ykkur það bara. Þá héldu allir að lýsingarháttur nútíðar af miðmyndarsögnum og ablativus absolutus hefðu verið eðlilegustu hlutir í heimi í íslensku alveg eins og í grísku: að þeim berjandisk fóru þeir burt. Kommon.

Það hlýtur að vera hægt að sýna einhvern veginn fram á það að svona hafi ekki getað tíðkast í germönskum fornmálum. Ég trúi ekki öðru.

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Hebbi

Þegar ég var ungur og vitlaus hélt ég að Austurríkismaðurinn Herbert von Karajan væri af spænsku bergi brotinn og sagði alltaf [karahan]. Þetta gerði ég fram undir fjórtán ára aldurinn þegar menningarlegt sjónvarpsáhorf leiddi í ljós að innfæddir (og -vígðir (og -múraðir)) sögðu [karajan]. Stuttu seinna komst ég að því að fjölskylda téðs Herberts væri frá Grikklandi og hefði þar heitið Karajannis.

Sem er betra en ef „Karajannakis“ verið hefði. Því þegar Tyrkir voru illt nýlenduveldi í Grikklandi þá gerðu þeir íbúum grikk með því að bæta smækkunar- og háðsviðskeytinu -akis við ættarnöfn. Svona eins og ef fyndnir hárkollukontóristar í Kansellíinu hefðu alltaf bætt við Jón Aulajónsson og Guðrún Aulasímonardóttir í manntalinu.

Svo hefðum við tekið þetta upp eftir lýðveldisstofnun til að sýna þjóðarstolt (svipað og svertingjar kalla hvor annan nigger og boy) og allir hétu Aulason og Auladóttir. Atli Freyr Aulasteinþórsson.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Vei samræmd stafsetning forn vei

Þat væri svá myklu skemmtiligra í háskóla ef háskólakennarar klæddisk brjáloeðisligum miðaldamúnderingum. Ok lærdómsho,ttum.

oe = límingarstafur, hljóðvarpsstafur af löngu o
o, = hljóðvarps-o með lykkju

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Hvar ertu, Holgeir danski?

Er það ekki á svona stundum sem Holgeir danski rís upp úr viðjum Krónborgarkastala með brugðinn brand? Danir eru orðnir langeygir eftir Holgeiri danska. Hann var nefnilega í fríi einhvers staðar með pínja kólaða 9. apríl 1940. Svo var hann í löngum jógatíma 1864 þegar Bismarck meig yfir þá. Hann var líka að snyrta púðluhundinn sinn þegar breski sjóherinn skaut allan danska herskipaflotann í tætlur á kæjanum í sjálfri Kaupmannahöfn árið 1801, Dönum að óvörum sem voru að telja íslenska blóðpeninga í kansellíinu. Í kjölfarið voru reyndar engir íslenskir blóðpeningar eftir til að telja í kansellíinu því danska ríkið fór á kúpuna og varð gjaldþrota. Æ, æ. Reyndar hefur Holgeir danski bara aldrei komið Dönum herraþjóð vorri til hjálpar á hættutímum þegar þeir hafa orðið að athlægi á alþjóðavettvangi. Maður gæti haldið að Holgeir danski væri ekki til.
Generatíf klámfræði

Ég veit ekki hvað veldur því að mér finnst eitthvað klámfengið við hljóðfræðihugtakið sperrt raddglufa.

Annars er ég farinn að kunna miklu betur við „hugvísindadeild“ en „heimspekideild“.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Er einhver stemmning í samfélaginu fyrir Aríusartrú? Þ.e. að Guð faðir sé einn heilagur en sonur og heilagur andi ekki og undirskipaðir honum í þessari röð?

laugardagur, febrúar 04, 2006

Heyrðu mig nú

Kemur í ljós að Elísabet Thorlacius ofurskutla er platfrænka mín, amma mín Laufey var systir Svönu, fósturföðurmóður El Thoro.

Hvað segir Stóridómur um svona tilvik?
Hugtökin „leðuról“ og „hægt andlát“ komu upp í hugann klukkan þrjú í nótt þegar nágranninn hélt enn uppi öskrandi fullra-fólka-fjöldasöng með dyggum stuðningi geðveikt háværra magnaratengdra bassabongótromma. Hvaða fáviti kemur upp magnaratengdum bassabongótrommum Í GARÐINUM HJÁ SÉR KLUKKAN ÞRJÚ AÐ NÓTTU?
Tilkynning

Ég hef látið af stuðningi mínum við Háskólalistann, sem er asnalegt konsept með enga stefnuskrá.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Lífi skorarformanns verður þyrmt.
Útvarp Reykjavík, í síðustu færslu sló klukkan tólf á hádegi.
Ef ég get ekki talað fyrir fullum sal af fólki þá ávarpa ég bara ykkur

Ef Þjóðverjar hefðu farið svipaða leið við nýmyndun orðsins radio og vér, þá hefði það verið leitt af sögninni auswerfen > der Auswurf (sem er reyndar til í tæknimáli í merkingunni 'útskot').

Sem er ólíkt agalegra orð en der Rundfunk sem svo heitir í fínu máli. Segið þetta, Runnnnnndfunnnnnk. Ich habe es im Runnnnnndfunnnnnnk gehört. Með áherslu á síðara atkvæði: Rundfunnnnnnnnnk.

Ég ætla að hugleiða þetta nánar í bílnum mínum, sem svo vill til að heitir Der Bundeswagen Deutschland (BW Deutschland), að hætti konungsskipa.
Ef ég fæ ekki fullt fyrir þetta auma verkefni þá drep ég einhvern. Skorarformann líklega.

Sannast nú orð sem ég hleraði um sjálfan mig á fundi í þriðja bekk í Menntaskólanum í Reykjavík. Var þá rætt um þann auma mann sem hafnað hefði sæti í spurningaliði skólans, og tilfærð sú ástæða að þar færi „einkunnasjúkur gaur í fjórða bekk“.

Svona vilja staðreyndir færast til im Volksmunde.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég er farinn að fyllast hégómlegri þörf fyrir að tjá mig á þýsku fyrir framan fullan sal af fólki.
Kleppur er víða

Hér er ungur Svíi sem saman hefir setta heimasíðu á fornmáli áa sinna.

Kannski er þetta unglingurinn sem Snæbjörn hitti á strætóstoppistöð í fyrrasumar og kunni íslensku reiprennandi af sjálfsnámi en bjó við vosbúð í tjaldi í Laugardal.

Við ætluðum alltaf að hitta hann og knýja í spurningakeppni í stíl Vafþrúðnismála og veita náðarhöggið með einhverju eins og: „En seg þú, Svíi, allz þig svinnan kveða, hver er uppruni tannhljóðsviðskeytisins í þátíð veikra sagna í germönskum málum, ha? ha? ha? veistu það ekki ha?“

Því þat manngi veit.
Nöturleg framtíðarsýn

Þegar ég benti kersknislega á að ýmsar algengar fæðutegundir vantaði í ísskápinn í morgun og spurði hvort ramadan væri hafinn, brást faðir minn elskaður ókvæða við og sagði að ég gæti bara keypt sjálfur það sem mig langaði svona mikið í.

Mér rann kalt vatn milli kollagens og sogæða þegar ég uppgötvaði að einn daginn verð ég að eyða stórum hluta tekna minna í jafn ómerkilegan hlut og matarinnkaup.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Nei nei nei nei nei

Ef bírókratarnir hafa sigurinn af Silvíu Nótt þá geng ég amokk.
Að undansloppnum æstum Vökulýð

Önnur ástæða: Öll orðræða stúdentapólitíkur gerir ráð fyrir að viðtakendur séu einstæðar mæður á námslánum. Hvorugt á við mig. Látið mig vera. En gefið mér samt nammi.