miðvikudagur, september 29, 2004

Lærdómshötturinn minn

Ég ber heilagan metnað í brjósti til þess að mæta með lærdómshöttinn minn (hér til hægri á mynd) í skólann einhvern daginn.

Mér var tjáð að þá yrði ég þekktur sem „Árnagarðsfíflið“.

Ég hef hins vegar þá draumsýn að fólk falli á kné frammi fyrir mér og ávarpi mig: „Eheu, non dignus sum, Doctor Saxithorisfili, NON DIGNUS SUM!“ (bein ísl. þýð.: „Ó, ég er ekki verður, Doctor Saxithorisfilius, ÉG ER EKKI VERÐUR!“)

Ég hef því ákveðið að stofna til kosningar um þetta málefni. Kjósa má annaðhvort í kommentakerfinu eða með því að senda póst á afs1@hi.is.

Fólk má gjarnan gera grein fyrir atkvæði sínu með stuttum rökstuðningi.
Enemy at the Gates

Sorgarfréttir á textavarpinu: „Framsókn: Kristni úthýst úr nefndum.“

Ósmansþrælar Mahómets og Allah hafa brotist inn fyrir múra alþingis. Það hlaut að koma að þessu.

Nú fara „hinir heiðnu“ að falla fyrir sverði Hund-Tyrkjans.

mánudagur, september 27, 2004

Ekki í mín eyru

Það er algjör zero-tolerance-stefna í gangi hjá mér varðandi Björk Guðmundsdóttur. Í hvert sinn sem ég nem hennar verk á skjá, í hátalara eða á prenti fletti ég strax yfir á næstu blaðsíðu, stilli á aðra rás eða skipti um stöð.

Ég einfaldlega næ þessari konu ekki.

Ég heiti Atli Freyr Steinþórsson og ég er klassísisti.

föstudagur, september 24, 2004

Fólkið sem notar Þjóðarbókhlöðutölvurnar

Það er svo mikill hávaði af þessum helvítis lyklaborðum að það er eins og fólk noti kreppta hnefa til að dúndra á andskotans lyklana, einn og einn í einu. Eða réttara sagt: EINN OG EINN Í EINU!

Og hvað er fólkið að gera svona merkilegt? Er það að klappa latnesk kjarnyrði í stein á skjánum? Nei, það er að skrifa tölvupóst til vina sinna í útlöndum.

Svo eru flestir sem hér eru ófríðir með afbrigðum. Fólkið á uglypeople.com ætti ekki brottgengt héðan ef það kæmi í efnissöfnun.

Flestir hérna eru líka útlendingar, marenostrískir plebbar sem minna mig óþyrmilega á leiðinlegasta háskólabókasafn í heimi í ógeðslegustu úrínborg í heimi, Barcelona, eða Hlandstadt eins og ég kýs að kalla hana.

Ég held ég sé í vondu skapi.
Spurning og Exordium: Eru Japanar vitgrannir kúkalabbar?

Japanar heyra engan mun á bókstöfunum l og r. Fyrir þeim hljóma orðin right og light alveg eins. Þess vegna segja þeir áfjáðir og kinka kolli svo svart olíuborið hárið sveiflast upp og niður: „Yes, I rearn Engrish!“

En eru Japanar svona ógeðslega heimskir? Eru þeir hálfvitar aumingjar fífl asnar og fávitar? (Að telja svona upp orð án samtengingarinnar og heitir á grísku asyndeton. Djöfull rúla ég.)

Svar og meðfylgjandi Argumentum

Nei, börnin mín stór og smá. Japanar eru ekki hálfvitar aumingjar et cetera. Þeir eru mikil menntaþjóð. Fyrir þeim er munurinn á l og r nákvæmlega sá sami og á n-hljóðunum í orðunum syng og sín.

Flestir Íslendingar skynja ekki muninn á þessum hljóðum eða hafa einfaldlega aldrei hugsað út í hann. Prófið að teygja úr n-hljóðunum á ýktan hátt: synnnnnnnggggggg — sínnnnnnnnnnnnnnn. Fyrra n-hljóðið er myndað með tunguna uppi í koki en það seinna með tungubroddinn á tannberginu. Samt skynja Íslendingar þetta eiginlega sem sama hljóðið. Með öðrum þjóðum þar sem fyrra n-hljóðið er einfaldlega ekki til myndu menn heyra jafngreinilegan mun á þessum hljóðum og við finnum í orðunum kál og sál. Pælið í því.

Í huga Japana er munurinn á l og r jafnlítill og okkur finnst munurinn á n í þessum dæmum vera.

Spurning hin önnur: En eru Japanar svona miklir (allt ofantalið) alla ævi frá fæðingu?

Nei, snúllarnir mínir. Það eru þeir ekki. Og vitið þið hvernig það er prófað? Ég skal sko segja ykkur það!

Það er prófað með því að kanna hljóðskynjun ungabarna. Já, ungabarna.

Fyrst er snuði sem tengt er þrýstingsskanna stungið upp í krakkann. Síðan er upptaka spiluð fyrir hann sem hljóðar svo: „LLLAAAAAAAAAAAAAAA!“ Þegar börnin heyra svona nýtt hljóð verða þau svo spenntir að þau fara að totta snuðið af slíkri áfergju að þess verður vart á míní-jarðskjálftamælum. Þess verður einnig vart á hjartalínuriti að börnin eru skíthrædd. Ég meina, yrðuð þið ekki hrædd ef þið heyrðuð stafinn l í fyrsta skipti?

Síðan er sambærileg upptaka spiluð sem hljóðar svo: „RRRRRRAAAAAAAAA!“

OG HÉR FYRIR NEÐAN KEMUR KJARNI MÁLSINS, SAUÐIRNIR MÍNIR!

Alveg það sama gerist. Börnin fara að ókyrrast, totta snuðið og fá næstum því hjartaáfall af spenningi. Þau hafa kynnst nýjum hlut sem er ... STAFURINN R! AAH!

Og hvers vegna er þetta merkilegt? Jú, vegna þess að ef þau skynjuðu þessa tvo stafi sem sama fyrirbærið yrðu þau ekki spennt í seinna skiptið. Þá væri þeim alveg sama því þau hefðu þegar kynnst stafnum. Þau sýna hins vegar af sér hegðun sem bendir til þess að þau hafi aldrei kynnst þessu fyrirbæri. Ipso facto má sjá að þau gera greinarmun á þessum stöfum.

Sem sagt: Ef japönsk ungabörn kynnu að tala gætu þau sagt: „Indeed, dear Sir! I strive to speak the Queen's English.“

Segið svo að málfræðingar séu baggi á samfélaginu sem skila engu í þjóðarbúið! Kannski verða japanskir snuðtottarar með ofurmálgreind öflugt leynivopn í næstu heimsstyrjöld.

Og hverjum verður það að þakka?

fimmtudagur, september 23, 2004

Æi, ég nenni ekki að blogga núna.

þriðjudagur, september 21, 2004

Beygingarmynd dagsins

adi. et nom. masc. sing. gen.: bandarísks gísls

Íslenska

Lén er sérstakt svæði á netinu sem menn helga sér. Sá sem ræður yfir léni er því lénsherra. Ég elska íslensku.

laugardagur, september 18, 2004

Að vera súrrandi geðveikur

Á vafri mínu um netið rakst ég á þessa stórmerkilegu síðu.

Þar bjóða Hansakaupmenn nokkrir rúðufestar plastfánastengur falar öllum landslýð. Fánastengur þessar skal skorða milli bíls og rúðu þar sem flaggið má blakta í vindinum er vagninum er ekið um býjarins stræti.

Sú hugmynd hefur oftar en einu sinni skotið upp kollinum í Félagi konungssinna og imperíalista á Íslandi, „The Council of Nobles“, að auðkenna hvörja þá bifreið er sósjetetið ferðast í saman með einhvers konar fána, og þá helst bresk-íslenska sambandsfánanum sem áður hefur birtur verið á þessum síðum.

Sýnist mér hér sem fullkomin lausn hafi dottið af himnum ofan líkt og Dannebrog forðum oná Valdemar Sejr í Eistlandi. Einfalt mál væri að herstella litla sambandsfána og skipta út fyrir danabrók.

Hversu svalt væri það að keyra um staðinn í kjólfötum með sambandsfánann blaktandi á bílnum, glugga niðri og blasta Rule Britannia á hæsta vólúmi?

Það væri svalt utan enda.

— „Herrar, eigum við að fara á rúntinn?“
— „Bíddu mín um litla stund er ég gyrði mig sverði og næ í fánann úr skríninu.“
Og af því meguð þér eftirdæmi draga

Hann missti áhugann á blogginu og sneri sér að rannsóknum á svissneskum afdalamállýskum. Sumir kalla það „ljóta þýsku“ en það er smekksatriði eins og annað í heiminum. Oseisei.

Hann varð svo svalur að hann hætti að lesa blogg, kallaði tímasóun og gerði hróp á torgum úti að þeim sem það stunduðu.

Síðan sprakk hann svo svakalega á limminu að blóðugar tætlur þvermóðskunnar birtast nú landsmönnum í formi þrjátíu bloggfærslna á dag.

Hann heitir Erlingur og er með gleraugu.

föstudagur, september 17, 2004

Áður óþekkt tengsl

Kjúklingabringur í grænmetissósu. Ofnbakaðar kartöflur. Saltaðar.

Ég át svo mikið að mér er illt í öxlunum.

miðvikudagur, september 15, 2004

Serjeant at Arms! Seize them!

Ríkisstjórn Tony Blairs heldur áfram að saxa niður konungdæmið. Ekki nóg með að það sé yfirlýst stefna stjórnarinnar að leggja niður embætti Lord High Chancellor, heldur eru þeir búnir að banna refaveiðar.

Reiðir stuðningsmenn veiðanna, klæddir í hvíta stuttermaboli með slagorðum á, komust inn í þingsalinn og ef upptakan af þessum viðburði er grandskoðuð sér maður að um leið og þeir fyrstu komust inn við stól þingforsetans, þá stendur upp maður í sjakkett hinum megin í salnum og rífur af sér gleraugun eins og hann trúi ekki því sem hann sjái.

Siðan hleypur maður nokkur fram hjá honum til félaganna hinum megin í salnum og annar maður í sjakkett endasendist á eftir honum. Maðurinn sem sat við borðið, nú gleraugnalaus, heldur þá í humátt á eftir innbrotsmanninum og starfsfélaga sínum, og sést þá að gleraugnalausi maðurinn er með sverð.

Þessi maður ber titilinn Serjeant at Arms (já, með joði), klæðist sokkabuxum og sjakkett, er vopnaður með viðhafnarsverði og ber opinberlega ábyrgð á öryggi þingmanna. Hann ber líka þær þungu skyldur á herðum að sjá þingheimi fyrir nægu bréfsefni, eins og sjá má hér.

En þessi symbólík getur keyrt úr hófi fram. Núna áðan var fyrrum þingmaður í viðtali á Sky News, og hann var ekki ánægður:

„This is absolutely outrageous, absolutely outrageous! Those men must have had some inside help getting into Parliament. I know that place quite well, and the only way they could have got in, is through a half-concealed panel door you wouldn't have noticed unless you were well acquainted with the place!

We can't have men in tights running around in 18th century uniforms who are supposed to provide security for the MP's, because they simply can't!

And you know what? The man sitting at the entrance of the House of Commons, the Serjeant at Arms, you know what his only responsibility is? You know that? He has to be ready at all times to give snuff to any MP who asks for it!“

Snuff verandi neftóbak. Og þar hafið þið það.

þriðjudagur, september 14, 2004

Davíð

Ég man ekki eftir öðru Íslandi en Íslandi Davíðs Oddssonar. Og núna er hann að hætta. Ég veit ekki hvað ég á af mér að gera á morgun.

Jú, reyndar þarf ég að þýða 55 línur af Senecu. Æi.

Bíll

Hvað var ég að hugsa? Að vera án bílprófs er eins og að vera án fóta, handleggja, höfuðs og búks. Ég byrjaði í ökunámi 8. nóvember árið 2000 og fékk ökuskírteinið í hendur 13. ágúst 2004. Hvernig gat ég lifað þetta tímabil af?

Ég var lengst inni í viðjum Reykjavíkur kl. 13:15 í dag og var kominn heim kl. 13:35. Þetta hefði verið einhver alternatífur veruleiki fyrir rúmum mánuði.

Jaseisei.

sunnudagur, september 12, 2004

Damn the Welsh

Fundur í félagi konungssinna og imperíalista á Íslandi, „The Council of Nobles“, var haldinn í gær. Það var gaman.

Háskóli Íslands

Universitas Islandiae, eina alvöru-akademía Íslands. Þekkingargimsteinn, lærdómsgarður (hér á að setja inn lofkvæði um Háskóla Íslands undir leónísku hexametri).

Ég fékk háæruverðugt leyfi skorarformanns herra Jóns Axels Harðarsonar í gær til að skrá mig í 22 og hálfa einingu þetta misserið. Mælt er með 15 einingum, 20 er hámarkið. Ef ég ætla að ljúka 60 eininga námi í íslensku og 60 í latínu á minna en því ofurlanga tímabili fjórum árum verð ég að bera mig eftir einingunum. Og það gerist ekki án vinnu.

Áhugaverðast þykir mér við málsögukúrsinn „The Transition from Vulgar Latin to the Romance Languages“, að við lausn á heimaverkefnum sem á að skila er gert ráð fyrir að nemendur kunni ítölsku, spænsku, fornspænsku, rúmensku, frönsku og fornfrönsku. Að sjálfsögðu kann ég öll þessi mál.

Og já

Svo vann lið heimspekideildar Kollgátuna, spurningakeppni milli háskóladeilda. Við Oddur og öðlingurinn Úlfur Einarsson MS-ingur rótburstuðum hjúkkur og lyfjafræðinga fyrst, beygðum lögfræðinga í duftið því næst og undum okkur að læknanemum í úrslitum í hátíðasal Háskólans. Í öllum þessum liðum voru gamlar GB-sjónvarpskempur úr MH. Áhugavert það.

Og þetta rataði á baksíðu Moggans, okkar að engu getið reyndar. En það er alltaf gaman að vinna í spurningakeppni. Gott fyrir sálina.

Próf við Universitatem Islandiae

Ég el þá von í brjósti með hið nýja útlit mitt, að eftirfarandi samtal fari fram þegar ég gef mig fram í öll lokapróf mín eftirleiðis:

AFS: „Já, góðan dag, ég er að mæta í lokapróf í hljóðfræði og hljóðkerfisfræði.“
Yfirsetukona: „Ertu með skilríki?“
AFS: „Já, bíddu, nægir ökuskírteini, eða ...?“
Yfirsetukona: „Já, já, það er alveg ...“

(Áttar sig.)

Yfirsetukona (cont'd): „Nei, heyrðu, þú ert með löggilt akademískt fræðimannaskegg. Átómatísk tía handa þér, góði minn.“
AFS: „Já, fyrirgefðu. Vertu sæl.“
Yfirsetukona: „Vertu sæll, Doctor Saxithorisfilius.“

(Doctor Saxithorisfilius setur upp svip, eins og sjá mér hér.)

laugardagur, september 11, 2004

Rasmus Rask, þú sem ert á himnum, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki

„Hann fann mig inni á bókasafni Jónssonar aðjúnkts, tók gríska bók úr hillunni og lét mig lesa. Ég las fyrir hann stykki með íslenska framburðinum ... en eftir það tók hann bókina, las sama stykkið og gerði athugasemdir um hvernig ætti að bera fram grískuna. Á heimleiðinni (til Reykjavíkur) yfir Skerjafjörðinn var hann upptendraður og þuldi heilu stykkin úr dæmisögum Esóps utan að á grísku fyrir mig og þegar ég gat ekki skilið þau útskýrði hann þau á íslensku.“

Sveinbjörn Egilsson segir frá fyrstu kynnum sín og Rasmusar Rasks. Lesbók Morgunblaðsins, 11. september 2004, bls. 10.

Og hvað er svo merkilegast við þennan texta?

Língvistinn tekur eftir því að maðurinn segi öðrum til í réttum forngrískum framburði, hvörja list einginn héðra nennir rækta nú um tíðir; að hann sé beinlínis mælandi á forngrísku; að Bauni þessi telji ekki eftir sér að útskýra munnræpu sína á íslensku þegar sjálfur Sveinbjörn Egilsson, að vísu skólasveinn þá, skilur ekki. Ég vildi óska þess svo heitt að Rasmus Rask hefði kennt mér latínu og grísku. Grínlaust. Að lesa upp á grísku fyrir Rasmus Rask. Að tala við Rasmus Rask. Að nema af vörum Rasmusar Rasks. Tilhugsunin ein, tilhugsunin ein.

Álftnesingnum finnst merkilegast að menn skjótist milli Bessastaða og Reykjavíkur á báti yfir Skerjafjörð (!). Í þrjú löng ár þurfti ég að fara nánast sömu leið, en vegna verri samgangna, segi ég og skrifa, þurfti ég að keyra (eða vera keyrður, öllu heldur) í stórbaug frá Álftanesi, gegnum Garðabæ og Kópavog inn í Reykjavík. Ég væri að ljúga ef ég segðist aldrei hafa hugleitt að fara þessa leið á báti, þar sem ég gat frá Álftanesi séð húsið á Lynghaga 24 í seilingarfjarlægð rétt hinum megin við fjörðinn.

Nútíminn er trunta. Rasmus Rask er guð.
Jónas

Búinn að forma skeggið á mér í fagrar Fjölnismannalínur.

fimmtudagur, september 09, 2004

Begga bókmenntafræðikennari

Hún er skemmtileg. Þegar hún talar er það eins og hún orði hugsanir mínar. Lífsviðhorf hennar er upplífgandi og ég kemst í gott skap við að hlusta á hana. Hún sagði líka við mig í tíma að ég hefði verið að fikta í skegginu mínu. Sem var alveg satt.

þriðjudagur, september 07, 2004

First Things First

Kominn heim frá Danmörku.

Hól?

„Já, hún er fín stelpa. Uppáþrengjandi og leiðinleg reyndar, en samt fín stelpa.“

Ken Park

Þessi mynd er drasl. Viðbjóður. Ekkert í þessari mynd þjónar neinum listrænum tilgangi. Höfundar hennar eru fúskarar. Mér leið illa á henni.

Að horfa á Ken Park er eins og að hlusta á sinfóníuhljómsveit þar sem fiðlurnar eru falskar og slitinn strengur í hörpunni. Að koma út af Ken Park er eins og að standa í eyðimörk útataður í myglaðri súrmjólk og engin sturta í sjónmáli.