sunnudagur, október 31, 2004

Ó mig auman

Ég hef hlegið að þessari mynd í dágóða stund, reyndar svo mikið að mér er orðið illt af hlátri.

laugardagur, október 30, 2004

Greiði

Lesendur bloggsins eru beðnir að prenta þessa auglýsingu út og afhenda öllum núverandi MR-ingum sem þeir þekkja. Takk fyrir.

föstudagur, október 29, 2004

Botnlaus og ósmekkleg egósentrík?

Ég hef verið sakaður um að vera egósentrískur mongólíti. Ég hef einnig verið sakaður um að eiga í harðri keppni við Margréti Erlu Maack um kóver í fjölmiðlum.

Talandi um það, þá fórum við að ræða þessa keppni og komum okkur upp grófum stigalista.

Nokkur lýsandi dæmi: framkoma í sjónvarpi með nafni 100.000 stig, nafnbirting í dagblaði eða (glans)tímariti 50.000 stig. Deilt var um hvort myndbirting gilti til stigahækkunar. Framkoma á leiksviði 25.000, akademískur fyrirlestur 25.000 stig. Komið fram í útvarpi undir nafni 50.000 stig. Annars gilti sú meginregla að þegar ekki var komið fram undir nafni skyldi gefa helmingi færri stig fyrir viðkomandi lið en ella.

Ég skoraði mikið fyrir allt kóver í sambandi við Gettu betur en meginstigamagn Margrétar kom úr sviðsleik. Þá var hægt að tína til ýmisleg segment úr fréttatímum, dagblöðum, Séð og heyrt (þar sem við höfum bæði prýtt síður) og ýmsu öðru smálegu.

Eftir mjög nákvæman samanburð þar sem hart var barist komumst við að því okkur til allmikillar furðu að hvort um sig hafði eina milljón eitt hundrað og fimmtíu þúsund stiga.

Staðan í október árið 2004: 1.150.000 stig handa hvoru um sig.

Er ég plebbi? Já, og nýt þess í botn.

þriðjudagur, október 26, 2004

Sisvona bara

Áðan benti ég á dagblað og spurði upp úr mér: „Est-ce que c'est le quotidien d'aujourd'hui?“*

Djöfull er ég G-Ó-Ð-U-R!!!

* „Mun snepill sá vera tíðindablað þessa drottins dags?“

mánudagur, október 25, 2004

HR-áskóli

Ég sit inni í litlu tölvustofunni í Árnagarði baðaður mahóníljósi. Ég er í blástrípaðri skyrtu, fráhnepptri. Ég er með skegg og úfið hár að skrifa á fartölvuna mína á fullu. Það vantar bara kókdós og þá væri ég að forrita.

En nei, góðir lesendur. Ég kitla menntagyðjurnar og skrifa um íslenska málstefnu.

sunnudagur, október 24, 2004

Sambandsleysi

Þorkell Sigurbjörnsson gengur að Sigurjóni og heilsar honum. Þeir spjalla saman og skilja síðan.

Atli: Var þetta ekki Heyr-himna-smiður?
Sigurjón: Ha, er Kolbeinn Tumason hérna einhvers staðar?

Þögn.
Bismillah

Tannlæknir nokkur kom í fréttirnar áðan og talaði um hvað tannhirða gamlingja væri afskipt af ríkinu. Rödd tannlæknisins var svo hjákátleg og ógeðfelld að hún hæfði ekki karlmanni. Hún var ekki beinlínis kvenleg, hún var bara svo ljót. Óljóðræn.

Ef ég hefði slíka rödd létist ég falla á sverð mitt.

föstudagur, október 22, 2004

Una Sighvatsdóttir

er réttsýn dánukvinna. Hvaða land sem er nyti góðs af stjórnvisku hennar. Allir menntaðir og upplýstir einvaldar sögunnar blikna í samanburðinum við Unu drottningu.

Heiður hennar lifi meðan uppi er Íslands byggð!

Húrra, húrra, húrra, HÚRRA!
Ó hví?

Horngrýtis djöfuls horngrýti.

fimmtudagur, október 21, 2004

Gaman

Það er gaman að hlæja að Castro. Sérstaklega þegar hann dettur niður af sviði og sveiflar höndunum í fallinu.

Ef árið væri 1965 hefði Mogginn haft orðin „Ha, ha!“ yfir fimm dálka á forsíðu og þessa mynd fyrir neðan. Á þessum leiðinlegu PC-tímum er Kúbuforseti hins vegar bara handleggsbrotinn.

miðvikudagur, október 20, 2004

Ein stór athugasemd (þó fleyguð með plasti)

— Mér finnst það hamla mér að geta ekki talað frönsku reiprennandi eins og þýsku. Þess vegna ætla ég að læra frönsku eins og vitlaus maður næsta sumar og skrá mig í 6 einingar í málinu í Tungumálamiðstöð HÍ næsta vetur og ná orgasmísku valdi á því.

— Glæra plastpokarúllan (fyrir opna skinkupakka og svona) hefur alltaf verið geymd í Skúffu 1 við eldhúsgluggann. Einhver snillingur tók upp á því að setja hana alltaf í Skúffu 3 fyrir mánuði eða svo sem olli því að ég opna alltaf Skúffu 1 og 2 áður en ég ramba á þá réttu. Nú í gær pavlovaðist ég loksins til að opna Skúffu 3 fyrst.

— Þegar ég heimsótti Tungumálamiðstöðina fyrst í september tók ég eftir því að í þýskuhillunni var álitleg díalektkennslubók í austurrískri þýsku. Ég ætla að læra þessa bók algjörlega utan að og horfa síðan á milljón þætti með hinum víenníska lögregluhundi Rex og hljóma þannig eins og alvörustyrmerkingur þegar ég legg upp í pílagrímsför mína til Hins heilaga rómverska keisaradæmis þýskrar þjóðar um áramótin.

þriðjudagur, október 19, 2004

Fótósjoppið

hefur ýtt mér
á dimma stigu

hugarglæpsins.

mánudagur, október 18, 2004

Hjalti Snær Ægisson y Kristinsson?

Eftir að hafa horft á Silfur Egils hallast ég að því að Hjalti sé launsonur Kristins R. Ólafssonar, fréttaritara. Þeir eru skuggalega líkir.

Síðan er líka stutt fyrir hann að fara frá pabba að stofna selskap í kringum áhugamál sitt við Miðjarðarhafið: www.hsae.gr.

sunnudagur, október 17, 2004

Ég las svolítið í bréfasafni Goethe og Schillers í dag

Oft og einatt hellist yfir mig tilfinning um að vilja ekki tilheyra þessu rúmi, heldur öðru, að vera maður á öðrum stað með annan líkama.

Ein slík stund opinberunar og æðri hugljómunar var í sumar. Í sjálfveittri vinnupásu inni í þéttiskápageymslu Bókasafns Garðabæjar henti ég niður stafla af bókum úr 921 — ævisögum og settist á koll innst inni í geymslunni. Við sjálfan rarítetsvegginn þar sem marraði í skápunum.

Í þeim stað vaxa valinkunnar urtir, heiðruðu lesendur. Meðal annars Hómersþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar, seinni þýðingar, nótabene, á fornyrðislagi sem hann dundaði sér við á efri árum því hann hafði svo lítið að gera, karlinn. Með formála eftir Jón Sigurðsson, bundið í band sem endast mun fram á efsta dag, prentað með stafnum è sem þá átti að tákna hljóðið [je] til frambúðar. Flúorljósin flöktu allt í einu.

Þar er líka hilla með gömlum kennslubókum og inn í hverja bók hefur einhver párað nafnið sitt með undurfagurri gotneskri léttaskrift: „Tómas Sigurðsson, Mentaskólanum, 1907.“ Maður sem talaði íslensku og er dáinn í dag.

Inni á milli bókanna, nánast falið á milli tveggja snjáðra kjala, var rit í vínrauðri kápu sem hafði prentað á titilblað sitt: Þýsk lestrarbók, með stuttri málmyndalýsingu og orðasafni, eptir Steingrím Thorsteinsson. Og „málmyndalýsingin“ var stutt, mjög kortföttuð. Ekki meira en 20 blaðsíður og tæpti á björgólfum þýskrar beygingafræði.

Síðan hóf leskaflann á ljóðum eftir Goethe og Schiller, ekkert klippt eða skorið, ekkert tilheimskað. Og Goethe og Schiller héldu áfram og áfram, ótilheimskaðir í 260 blaðsíður!

Bók frá þeim tíma þegar menn lærðu þýsku á því að lesa Goethe og Schiller frá fyrsta degi! Eða þriðja kannski. Wie froh bin ich, dass ich weg bin! Himinn höndum tekinn, drottinn tilsýndar.

Mig langaði að stökkva inn í bókina og synda í blekinu.

föstudagur, október 15, 2004

Bittinú

Bó var eitthvað að tala um Unu í Vogue. Ég fór á netið og komst þá að því að hún sat einmitt fyrir í þessari auglýsingu í blaðinu núna í september.

fimmtudagur, október 14, 2004

Hvað á þetta eiginlega að þýða?

Í gær fór ég út í kjörbúð að versla. Þegar ég var í miðjum klíðum að lesa innihaldslýsinguna á Ora-fiskibolludós vatt sér að mér maður einn og sagði:

„Ég hef alltaf velt því fyrir mér hvernig sellufundur í últravinstriflokki gengur fyrir sig.

Þar hljóta nokkrir ákaflega réttlátir, víðsýnir og femínískir hugsjónamenn að koma saman sem hata guð og ráðslaga um heill mannkynsins, vegna þess að þeir eru einu einstaklingarnir í úníversinu sem er annt um annað fólk, einu útverðir manngæskunnar í vondum heimi markaðshyggju og velmegunar.

Strax í upphafi þegar þeir eru búnir að hlæja taugaóstyrkum hlátri að „frellunum“ (sem eru allir aðrir nema þeir sem eru sjálfskipaðir femínistar og mannkynsfriðarsáttasamlyndishúmanistar) uppgötva þeir að mannkynsfriðarsáttasamlyndishúmanismi þeirra forbýður þeim að gera grín að öðru fólki vegna þess að það er mannréttindabrot. Það er skýlaus krafa að allir haldi mannlegri reisn sinni, jafnvel óháð frelsku.

Síðan þegar allir eru búnir að kveikja á fartölvunum sínum sameinast þeir í stuttri þögn til að minnast fórnarlamba Davíðs og Halldórs í Írak, sem drógu okkur bara út í stríð og drápu fullt af fólki án þess að spyrja kóng eða prest. Þá gerir einhver að gamni sínu og segir að það land væri nú slæmt þar sem væru kóngar OG prestar. Síðan hlæja allir guðlausu lýðræðissinnarnir og viðurkenna að Ísland sé nú hálfskítt land þar sem það fullnægir helmingi skilyrðanna.

„Jæja, fylgið er þverrandi og stefnumótun bíður,“ segir þá einhver. Eftir að hafa hugsað (sameiginlega) í smátíma segir einn: „Já, ég veit hvað snýr lýðnum til vor! Vér skulum draga fram merkingarsnauða og skítuga orðaleppa eins og „heimsvaldastefna“, „valdníðsla“, „fasismi“ og „alræðisríkið Ísland“ því þannig skynjum vér raunveruleikann. Síðan skulum vér öskra orðaleppana á torgum! Við þetta flykkist þjóðin til vor sem mý á mykjuskán.“

Þá klappa félagarnir honum lof í lófa fyrir þessa skilmerkilegu úttekt. Allir klappa jafnt. Og femínískt. En þá bendir einhver á að samkvæmt nýjustu rannsóknum sé hugtakið þjóð, þjóðtunga og þjóðmenning dauður bókstafur. Fjölþjóð, fjölþjóðatunga og fjölþjóðamenning hafi leyst hitt af hólmi. Ekki má þó áminna liðsmanninn fyrir nasisma sinn því það stríðir gegn mannréttindum hans. Fundurinn samþykkir orðið samfélag í stað orðsins þjóðar.

Að hugmyndavinnu lokinni er sellufundinum slitið og allir tralla saman á mótmæli þar sem stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilislausra hamstra er kröftuglega andæft. „Dóri Dauði!“ og „Bjössi Böðull!“ er letrað á nokkur fagurmáluð skilti og í samræðum liðsmanna eftir á er það Ísland sem aldrei kom harmað.“


Þegar maðurinn hafði baunað þessu rugli yfir mig og fiskibolludósina sem ég hélt á hafði hann sig á brott.

þriðjudagur, október 12, 2004

Bezt að hugsa sér til hreyfings

Mig langar að fara í sund. Mér skilst hins vegar að öllum sé bannaður aðgangur sem eru ekki vaxnir eins og grískir guðir.

mánudagur, október 11, 2004

Inn með það góða, út með það vonda

Guðni Ágústsson vill bjóða öllum fermingarbörnum á Íslandi í sveit í hálfan mánuð. Sagt er að það kosti 130 milljónir.

Ég var í sveit í tvö sumur og veit að það breytir sýn manns á veruleikann. Það er einfaldlega mannbætandi. Þess vegna er ég hlynntur þessum áformum Guðna.

En hvar á að finna þessa peninga? Ég, Atli Freyr Steinþórsson, doktor í hagfræði frá Atlaníuháskóla, hef fundið lausnina:

Verslunarskóli Íslands verði strikaður út af fjárlögum. Þannig sparast 657,1 milljón króna sem gerir öllum fermingarbörnum þessa lands kleift að hjala við fossa og lýja járn á steðja sumarlangt hvert ár.

Að ala æsku þessa lands upp í fagurri sveitarómantík og uppræta sjálfan Belsebúb í leiðinni með einu pennastriki? Þetta er einboðið, Guðni. Þetta er einboðið.

sunnudagur, október 10, 2004

Oktoberfest II

Já, þetta eru jólakortin í ár, það er nokkuð ljóst. Myndirnar voru teknar föstudaginn 1. október síðastliðinn á Oktoberfest Háskóla Íslands. Ég ákvað um morguninn að kenna mig að nokkru leyti til fósturþjóðar minnar, Þýskalands, og spranga um svæðið í hnésokkum og leðurvesti, með bjórkrús við hönd og hatt á höfði. Fátt hefur mér þótt skemmtilegra.

Ég játa aldrei að vélað hafi verið um gerð myndarinnar af mér í bæverskum fjallasal. Og sá er að því ýjar skal skoðast sem sérstakur óvinur þýskrar þjóðar.

Og að öðru

Áðan varð merkur atburður í sögu Atlaníu. Fyrir þá sem ekki vita er Atlanía stórhertogadæmi sem nær ávallt í tíu metra radíus út frá minni persónu. Atlaníu var komið á fót árið 1998 þegar ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bessastaðahreppi og sjálfstæðisyfirlýsingin var birt í Garðaskóla. Síðan þá hefur ríkið lifað góðu lífi, hagvöxtur verið stöðugur og utanríkisverslun arðvænleg.

Áðan stofnsetti ég, Atli Freyr Steinþórsson, stórhertogi í Atlaníu, þjóðháskóla ríkisins sem ber heitið Universitas Atlaniae. Jafnframt skipaði ég Doctorem Atallum Freioverum Saxithorisfilium rectorem háskólans og setti hann inn í embættið við hátíðlega athöfn.

Stuttu eftir að þetta gerðist rak á fjörur mínar eitt stórkostlegasta vísindaafrek sem mannsandinn hefur unnið á sviði tölvunarfræði. Um það má lesa vísindalegan tractatum á heimasíðu höfundar.

Skipti þá engum togum að ég hóf upp raust mína og lýsti eftirfarandi yfir í votta viðurvist: „Ég, Doctor Saxithorisfilius, rector Universitatis Atlaniae, hef metið þenna verka Franks Arthurs Blöndahls Cassata verðan til docenstignar í tölvunarfræði við skólann. Embættisskipan þessi öðlast þegar gildi. Sé það góðu heilli gjört og vitað. — D. S.“

Yfirmaður útlendingaeftirlits Atlaníu, Atli Freyr Steinþórsson, kvað enga meinbugi á því að veita docenti Cassatae atlanískan ríkisborgararétt svo hann megi kenna við skólann, enda hafi hann enn sem komið er hreint sakavottorð og óflekkað mannorð.

Háskólaráð og rector Atlaníuháskóla bjóða því docentem Cassatam velkominn til starfa.

laugardagur, október 09, 2004

Oktoberfest

Germönsk hátíðarstemmning teygir sig frá hæstu hæðum Alpanna niður í krúsarbotninn með gleðiraust og helgum hljóm. Prost!

Grüße aus Deutschland

Deutsches Bier ist herrlich!

fimmtudagur, október 07, 2004

Nóbelsverðlaunin

Sænska akademían virðist ofurhrifin af brjáluðum kerlingum. Síðast þegar kona fékk verðlaunin var það hin brjálaða kattakerling Wislawa Szymborska sem bjó ein (með kisunum sínum reyndar) í útjaðri Poznan í Póllandi. Núna er það hin brjálaða víðáttufælna Elfriede Jelinek sem býr ein í útjaðri Vínar í Austurríki.

Jelinek þessi getur ekki farið til Stokkhólms að taka á móti Nóbelsverðlaununum því verandi agórafóbísk er hún „hrædd við að koma út undir bert loft vegna sjúklegs ótta um að allir snúist gegn henni, hæði og hati“. Ég held reyndar að það yrðu ekki margir til þess, Elfriede mín.

Ef Nóbelsverðlaunin hefðu verið til árið 1666, þá hefði Sigríður „Sigga skálda“ Jónsdóttir ábyggilega hlotið þau „fyrir ansi hreint skemmtilegan kviðling sem hún lét flakka um sköllótta sóknarprestinn með tjúguskeggið er hann steyptist um koll í einum drullupolli með sitt sálmahandrit.“

En að öðru og þó. Aðalmaðurinn í þessu öllu saman er Horace Engdahl, aðalritari Sænsku akademíunnar, sem kemur fram á hverju ári og les upp tilkynninguna eftir að hafa skellt hurðinni mjög harkalega á eftir sér.

Hann les hana fyrst á sænsku. Gott mál það. Síðan þýsku. Jú, jú, móðurmál verðlaunahafans og menntamál eitt mikið. Síðan ensku. Heimsmálið, sko. Loks frönsku. Gamla heimsmálið, sjáið til. Jú, og síðan rússnesku. Ég meina, hefði getað orðið heimsmál.

Horace var mikið niðri fyrir í ár. Það má greinilega merkja á því þegar hann segir enthüllen í lok þýska hlutans. Kannski var bara ákveðið á lokamínútum átakafundarins áður en Horace var skúbbað út úr herberginu að veita Jellanum Nobbann en ekki Mikael Torfasyni.

Hinn übersvali meistari Engdahl lætur ljós sitt skína hérna. Sjáið líka svipinn á honum á síðustu sekúndu upptökunnar þegar hann fettir upp á varirnar. Þessi svipur segir aðeins eitt: „Djöfull kann ég mörg mál. Djöfull er ég bessstur.“
Verkefni

Spurning: Hver er munurinn á persónulegum og ópersónulegum sögnum í íslensku? Lýsið því stuttlega, sýnið dæmi og notið þau fræðilegu hugtök sem við eiga.

Svar: Það að einhver munur skuli vera á persónulegum og ópersónulegum sögnum í íslensku sýnir bara hversu misskipting í þessu þjóðfélagi er mikil og jafnframt að þingræði á þessu landi sé fótum troðið.
Djöfull var hún tækluð

Djöfull var hún tekin. Djöfuls dómínator var ég. Djöfull löðrar svipan mín.

Ritgerð mín „Comparison of Pronouns in Latin and Italian versions of Peregrinatio Aetheriae ad loca sancta“ sem ég var rétt í þessu að skila af mér í ímeili til Kaupmannahafnar er fegursta listaverk á sviði samanburðarmálvísinda sem komið hefur fram síðan Rasmus Christian Rask skrifaði „Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse“ árið 1814.

Tveggja daga þankagangur kúlmíneraði í tíu klukkustunda ritæði í dag.

Égkannalltéggetalltégskilallthaltukjafti. Ach ja.

mánudagur, október 04, 2004

Lene Schøsler

Núna á ég að sitja við skriftir á verkefni í latneskri málsögu, en það á hin æruverðuga prófessorinna Lene Schøsler við Kaupinhafnarúníversitetið að fá í ímeili ekki síðar en á miðnætti er skilur milli 6. og 7. október.

Í stað þess að gera þetta verkefni í dag hef ég meðal annars:

a) skrópað í tíma til að borða pizzu,
b) farið á Þjóðarbókhlöðuna og gert ekki neitt,
c) farið í skoðunarferð á bílnum mínum um Álftanes, m.a. Sviðholtsvör,
d) horft (aftur) á færeyska fréttatímann Dagur og vika sem ég dánlódaði,
e) borðað epli,
f) framið kommentsglæp,
g) reynt að upphugsa sterk rök sem mæla gegn því að að ég taki til í herberginu mínu. Þau eru m.a.:

1) mér líður vel í draslinu,
2) ég finn næstum því allt í draslinu sjálfu sem ég þarf að finna,
3) það er tíma- og orkufrekt að taka til,
4) ég get alveg verið í tölvunni frammi í eldhúsi og lesið bækur inni í stofu.

Verkefni, já.

Já, já.
Færeyska

Vissuð þið að þegar menn leggjast undir hnífinn og fara í aðgerð á færeyskum sjúkrahúsum, þá er talað um þeir fari í viðgerð?