þriðjudagur, ágúst 31, 2004

DK

Í tilefni af DK-ferð minni, sem hefst á morgun klukkan tæplega átta að morgni, ætla ég að birta bút úr gamalli færslu:

„Ég ætla ekki að blogga stafkrók í Danmörku, enda verð ég upptekinn á ráðslögunarfundum með kammerherrum og feltmarskálkum að undirbúa Danmerkur Ríkis Dýrðlega Innrás í það Úsúrperaða Land IJsland.

Þið megið búast við mér á sjóndeildarhringnum undan Meðallandssandi um nónbil þann fimmta september. Ég mun snúa aftur með herfólk standandi í stafni undir blaktandi Dannebrogsflaggi.“

Og hananú!

mánudagur, ágúst 30, 2004

Sögulegar rannsóknir

Eftir extensívar rannsóknir í myrkustu arkívshvelfingum Ríkisútvarpsins við Efstaleiti tókst mér að grafa upp hljóðupptöku á stálþræði frá 10. maí 1940. Þar lýsir útvarpsþulur í tilfinningauppnámi atburðum dagsins eins og þeir raunverulega voru, en þá hertók breski sjóherinn landið í konungs nafni og innlimaði í breska heimsveldið.

Textann gat ég nálgast og birti hér á blogginu 3. júlí síðastliðinn. Hljóðgæðin í fréttinni sjálfri eru ekki eins og best verður á kosið, enda tekin beint af stálþræðinum. Upptökuna má nálgast hér.

Einhvern ávæning hef ég fengið af því að Makkanotendur geti ekki hlustað á hana vegna wma-formsins, og verða þeir menn að snúa sér tíl Ríkisútvarpsins eða mín.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Ameríka

Morgan Spurlock segir okkur að passa upp á menninguna okkar. Hann segist líta það óhýru auga að Ísland fari að líta út eins og Ameríka, að lykta eins og Ameríka.

Ég er honum fullkomlega sammála. Það fyrsta sem ég tók nefnilega eftir þegar ég fór til Ameríku árið 1995 var lyktin; þessi óræða sætindalykt sem lá í loftinu. Eftir að ég kynntist Skittles uppgötvaði ég að lyktin er nánast sú sama, gervileg og alltumlykjandi. Það var alveg sama hvert ég fór: í stórmarkaði, kringlur, heimahús, skyndibitastaði, söfn. Alls staðar var þessi lykt, og það sem meira er um vert: af öllu. Í húsgögnum, fötum og meira að segja blöðum og bókum.

Um daginn kom kona á bókasafnið og vildi láta ljósrita fyrir sig skírteini úr Princeton-háskóla. Þegar ég var kominn á bak við lyktaði ég af skjalinu, og viti menn! Sæt Ameríku-angan.

Er þessi Ameríku-lykt seld í spreybrúsum sem dreift er um allt landið?
Okur

Áður en ég fór til Anglíu fékk ég mér útlandadíl hjá Símanum. Varð að vera hipp og kúl áðí mar et cetera. Nema hvað, og nú fylgir ýkjulaus skýrsla um símanotkun mína í þeim ágæta stað:

Hringdi 4 þrjátíu sekúndna símtöl sem öll voru eitthvað á þessa leið: „HVAR ERUÐ ÞIÐ? JÁ, ÉG ER HINUM MEGIN Í GARÐINUM! ÉG KEM ÞÁ TIL YKKAR BARA NÚNA Á EFTIR! ÓKEI! BLESS!"

Fékk 4 svipuð símtöl.

Sendi tvö SMS.

Og kontóinn, góðir hálsar? 980 kr. 980 ÍSLENSKAR KRÓNUR!!!!

Ísland: þar sem landsmenn hafa ekki efni á því að eiga gemsa í útlöndum eða borða harðfisk.


miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Doctor Saxithorisfilius tekur til starfa

Uppgötvaði í gær sem ég stóð í Máli og menningu að þýski titillinn á Öxin og jörðin eftir Ólaf Gunnarsson gæti verið Beil und Boden.

Mér finnst þetta svo sniðugur titill að ég er vís með að þýða bókina bara yfir á þýsku einn daginn.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Führerschein

Táknrænt móment núna áðan þegar ég fjarlægði strætókortið úr veskinu og setti nýsótta ökuskírteinið mitt í þess stað.
Tralla ralla ræ

Já, heyrðu. Nú man ég. Ég hef lengi ætlað að mótmæla ex auditorio við doktorsvörn, eða utan úr sal, eins og er skýlaus réttur allra gesta við slík tækifæri þó allir viti ekki af því.

Þetta er náskylt þeirri þrá minni að standa upp á sinfóníutónleikum og æpa eitthvað ótrúlega óviðeigandi yfir salinn. Þegar ég sit á leiksýningu eða fundi þá get ég stundum ekki hugsað um neitt annað en viðbrögð gesta ef ég stæði upp og færi að láta eins og kynsveltur geðklofi á sambýli.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Útlandanámsmenn

Snæbjörn er orðinn alvöru útlandanámsmaður með alvöru útlandanámsmannsblogg. Þau þekkjast af því að útlandanámsmaðurinn flaggar í haus á bloggsíðunni sinni

1) útlandalegu heimilisfangi
2) útlandalegum síma með mörgum plúsum fyrir framan (sem byrjar ekki einu sinni á 5!)
3) og ímeili á torkennilegum póstþjóni

til að láta alla vita að hann sé útlandanámsmaður. Ekki það að ég sé á móti svoleiðis.

Ég er bara öfundsjúkur því mig langar líka.

föstudagur, ágúst 20, 2004

Hvað á ég að gera eftir vinnu á föstudegi?

Spurning um að fara í heimsókn til ömmu eða eitthvað (já, upphluts-ömmu). Kannski ég geri það bara.
Ísland æsku minnar

Loksins, loksins hef ég fengið gamla Íslandið mitt til baka. Þegar ég fór að kaupa mér hádegismatinn kom ég út í skuggann af The Tower og þar var ískalt. Þegar ég kom fyrir hornið mætti mér ískaldur vindgustur. Mér var líka ískalt á leiðinni þó það væri sólskin.

Svona á þetta að vera. Ekki þetta helvítis Miðjarðarhafsloftslag sem hefur plagað landið í sumar.

Þegar ég var svo kominn út í Hagkaup

Mig hefur lengi langað til að gera eftirfarandi þegar kassadama er að afgreiða mig:

KD: Góðan dag.
AFS: Góðan dag ... (beygir sig fram, pírir augun og les með ýktri tilgerð af nafnspjaldinu) ... Unnur.
Ég hef ýmislegt að segja í dag

--- Gylfi Þ. "James Bond" Gíslason dó í fyrradag. Ég hef alltaf ímyndað mér Gylfa í hlutverki 007 ef svo ólíklega vildi til að Íslendingur yrði valinn í það hlutverk. Skoðið bara gamlar myndir af Gylfa, eins og á vef Alþingis eða á bls. 2 í DV í dag, og látið sannfærast.

Maðurinn var svo últrasvalur í gamla daga að það er ekki fyndið. Vel greitt hár, skarpir og hörkulegir andlitsdrættir, munnurinn vipraður lítið eitt, albúinn að skjóta komma í bakið. Blessuð sé minning hins íslenska James Bond, Gylfa Þ. Gíslasonar.

--- Nú eru allir að hringja á bókasöfnin í landinu til að fá námsbækur lánaðar. Ekki vilja greyið námsmennirnir punga út stórum fjárhæðum til þess, heldur vilja þeir fremur svindla á samfélaginu og einoka bækurnar í níu mánuði og hleypa engum að þeim á meðan. Ekki á minni vakt.

Áðan hringdi kona sem átti ábyggilega krakka í MH, því hún las upp fyrir mig milljón bóka lista með enskum bókum sem eru vafalaust í einhverjum leikbókmenntaáfanga. Stuttu á eftir hringdi strákur og spurði hvort ég ætti Almenna sálfræði, en það er laaaangmest spurt um þá bók. Ég sagði honum að það væri kennslubók sem væri eigi lánuð út og skellti á.

(Í þessum skrifuðum orðum á ég að vera að leita að bókinni The Queen and I fyrir stelpu sem er svo greinilega stödd á skiptibókamarkaði, en ég læt hana bíða í farsímanum sínum meðan ég skrifa þessa færslu. Híhí. Svo er hún ekki til á BGB. Allt hennar símtal til einskis. Múhaha.)

(Ertu ekki að grínast í mér? Núna var ég að tala við konu sem vildi fá allar kennslubækur í lögfræði við Háskóla Íslands lánaðar á BGB!? Eru engin takmörk, Íslendingar, á sálarvonsku ykkar í garð almenningsbókasafna?)

Atli Freyr Steinþórsson bókavörður berst hetjulegri baráttu gegn spilltum landslýð fram til 31. ágúst.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Ónýtur og bilaður

Það er alltaf gaman að vera ónýtur á fimmtudegi eftir áfengisbleh föstudaginn áður.

Ólíklegustu vöðvar eru marðir og já, bara ónýtir. Ég fór að finna fyrir kvefi í fyrradag sem er nú komið í fúll svíng. Mél líðul hlvo íddla.

Öl er böl, krakkar mínir. Ekki dópa. Lærið af mér. Annars heyrið þið sögur af ykkur utan úr bæ það sem þið voruð að girða niður um sómakært fólk. Ekki það að téð persóna og hermdarverkamaður hafi ekki átt það skilið, en samt. Der må være grænser á þessu.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Der Faschismus kann uns allen zugute kommen!

Ég er hlynntur fasisma á ýmsum sviðum. Ég er til dæmis hlynntur því að reykingamenn séu sviptir öllum mannréttindum á opinberum stöðum og þeir útlægir gjörvir. Það að reykingamönnum líðist að stunda iðju sína annars staðar en á heimilum sínum er óþolandi. Non ferendum est. Ég er hlynntur hvaða úrræðum sem vera skal er stuðla að útskúfun þeirra. Skítt með mannréttindi á þeim vígstöðvum. Ógeð skal með ógeði út reka.

Þá er ég einnig hlynntur fasisma til að halda uppi allsherjarreglu. En sitthvað er þó Skálholt og Skítholt í þeim efnum. Nú var ég að lesa í DV um valdstjórnaraðgerðir gegn kaffihúsagestum sem sátu úti á stétt og dreyptu á drykkjum eftir kl. 22, engum til ama. Þá kemur lögreglan og hótar að afturkalla vínveitingaleyfi verði fólkinu ekki ruslað inn á barinn aftur.

Sko. Þetta er negatívur fasismi. Benda má lögreglunni á verðugri viðfangsefni eins og að halda rónum og öðru misindisfólki frá miðbænum og sérstaklega Austurvelli, þar sem slíkar samfélagsdreggjar hópast saman. Ég er hlynntur því að slíku fólki verði safnað saman í rétt einhvers staðar uppi í sveit, hliðinu læst og lyklinum hent oní fjóshaug.

Pósitívum fasisma má beita til að halda uppi allsherjarreglu og ef viðurstyggileg mannfélagsúrhrök raska ekki allsherjarreglu, þá veit ég ekki hvað raskar allsherjarreglu.
Ég tími ekki tuttugu dollurum, góði minn

Myndirnar sem ég tók í London er enn þá hægt að sjá á netinu. Ég veit ekki hversu lengi það verður og ekki vil ég fara að borga fyrir þetta helvíti. Hvernig virkja ég heimasíðuplássið mitt sem ég á inni hjá Símanum en hef aldrei nokkurn tíma nýtt mér?

Best að ganga í það mál.

Líf að loknu bílprófi

Ég hef svo mikið að gera núna en engan tíma til að gera það. Nú er ekki lengur hægt að skýla sér bak við það að maður komist hvorki lönd né strönd sakir transportfötlunar. Nei, nú er greið leið hvert á land sem er og mér eru allar bjargir bannaðar heima hjá mér.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Stimplað af stiptisins sekréter

Vér höfum undir höndum dókúment er ber nafnið Bráðabirgðaakstursheimild, og er dókúment þetta stílað á einn drottins undirdánugan þénara Atla Frey Steinþórsson, hvör í morgun hefir verklegt ökupróf cum laude staðizt.

Fagna því allir guðs serafar og kerúbar með lúðurblæstri og hátíð stórri.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Mossad er alls staðar og veit hvað þú heitir

Í dag kom einhver inn á síðuna mína gegnum google.co.il, sem er ísraelsk spegilsíða. Satt sem ég heiti Atli. Vegna ógætilegra ummæla sem féllu í samtali mín og sumra á MSN í vikunni (þar sem m.a. var rætt að þessi staða gæti komið upp) ætla ég að skipta um nafn og flytja upp í sveit. Ráðlegg ég sumum að gera slíkt hið sama.

Djöfull á ég eftir að skíta á mig á næstunni ef ég sé harðsvíraða gaura með sólgleraugu og ísaumað axlarskjaldarmerki skrýtt hvítri sjöarma ljósastiku á bláum grunni. Fokk. Þeir ætla að ræna mér.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Hegðun hálfvita

Hjalti tilfærir „vegfarandi-mætir-hundaeiganda"-sögu á síðunni sinni. Ég kann eina slíka.

Febrúarmorgun einn þessa árs kl. 7 hélt ég af stað út í strætóskýli eftir alnáttung sem ég hafði notað til ritgerðarskrifa. Var ég því morgunfúll nokkuð enda með öllu ósofinn. Á göngustíg eigi allfjarri heimili mínu mætir mér hundaeigandi með hund sinn sem lék lausum hala.

Mér er ekki vel við lausa hunda síðan Schäfer-hundur réðst á mig og elti mig þegar ég var að selja bingólottómiða fyrir skátana árið 1996. Viðskiptum okkar lauk þannig að ég stökk í gegnum þéttvaxið limgerði, hann á eftir og síðan ofan á mig.

Allt þetta orsakaði gamalkunnugt adrenalínflóð þegar hundur þessa morgunglaða dýravinar nálgaðist mig á ógnarhraða. Ég sneri eitthvað upp á mig og varðist glefsi hundsins fimlega. Þegar ég mætti dýravininum, sem var lítill og akfeitur með hettu yfir hausnum (það var smá-snjókoma), leit ég stranglega til hans og sagði í kurteisum umvöndunartón um leið og ég gekk fram hjá honum: „Gætirðu ekki haft þennan hund þinn í bandi?!"

Þá heyri ég hann segja á eftir mér: „Ha, bara pussy? Bara pussy!"

Þetta var allt sem sá ágæti akfeiti dýravinur hafði til málanna að leggja. Hundaeigendur sem ganga úti með lausa hunda eða í það lausum taumi að þeir líði dýrunum að glefsa í vegfarendur eru fláráðir og tillitslausir samfélagsóvinir sem ætti að hálshöggva á torgum úti.

Næst þegar ég sé þennan mann og hundinn hans þá mun ég koma þeim báðum fyrir.

Meira um Hjalta

Allan þann tíma sem ég hef unnið á Bókasafni Garðabæjar hef ég oft og margsinnis hringt í Bókasafn Hafnarfjarðar að biðja um bækur í millisafnaláni. Hversu mjög sem ég hef þráð slíka skemmtilega og skondna tilviljun, þá hef ég aldrei lent á H. S. Ægissyni bókaverði.

HSÆ: „Bókasafn Hafnarfjarðar, góðan dag."
AFS: „Já, góðan dag. Atli heiti ég og hringi frá Bókasafni Garðabæjar. Ég ætlaði að fá hjá ykkur bók í millisafnaláni."
HSÆ: „Já, millisafnalá..... Bíddu, er þetta Atli?"
AFS: „Já! Hjalti?"
HSÆ: „Já, haha. Blessaður!"
AFS: „Blessaður, haha."

Nú hætti ég störfum 31. ágúst og því lítur út fyrir að þessi draumsýn mín rætist aldrei. Hugsið ykkur hvað þetta hefði orðið skemmtilegt.

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Fyndnir og gáfaðir bókaverðir

Eins og allir vita er ekkert betra en að fá bækur afhentar frá smart-ass bókaverði með eitursnjöllum og überskemmtilegum athugasemdum. Rasmus Christian Rask, snillingur, ofurmenni og hálfguð, vissi þetta auðvitað.

Eftirfarandi saga birtist í XI. árgangi Tímarits hins íslenska bókmenntafélags árið 1890, en þar segir Björn M. Ólsen frá fyrstu fundum R. Chr. R. og Konráðs Gíslasonar í minningargrein um þann síðarnefnda:

„Fundum þeirra bar first saman í háskólabókasafninu nokkru eftir það, að Konráð var kominn á fætur eftir lungnabólguna [Konráð var aaaaalltaf eitthvað slappur, greyið — innsk. ritstj.], sem hann fékk, meðan examen artium stóð ifir. Var Konráð að fá að láni eitthvert rit um áherslu á grískum orðum. Rask var þá ifirbókavörður, og fjekk honum ritið sjálfur. Mun hann hafa heirt á málfæri Konráðs, að hann var Íslendingur [auðvitað, enda lingvistískur hálfguð], því að hann sagði vinsamlega og góðmótlega, að það væri munur á merkingu áherslumerkjanna grísku og áherslumerkjanna íslensku.“

Hahahahahahaha, Rask kallinn. Þeir mega kommenta hér að neðan sem fannst þetta líka fyndið. En fyrst ég er byrjaður á þessu ræð ég ekki við klár minn og birti aðra gamansögu úr sömu minningargrein:

„Í latínunni var hann prófaður af Madvig, og hefur kammerráð Þórður Guðmundsson sem sjálfur var við prófið, sagt mjer, að Madvig hafi látið hann koma upp einhverstaðar í riti Ciceros um skildurnar, og hafi Konráð þá lokað bókinni og þulið staðinn upp utan bókar; hafi þá Madvig sagt: »Non abs te petivi, ut ex memoria recitares [jeg beiddi þig ekki um að lesa utanbókar]«, enn síðan hafi alt prófið farið fram á latínu. Sumir segja, að Madvig hafi sagt að lokum: »Plus quam egregie meruisti [þú hefur unnið til meira enn »ágætlega«]«, enn ekki man Þórður kammerráð það.“

Ójá, óóóóóójá. Svona, nákvæmlega svona, voru allir mínir blautustu og sóðalegustu draumar um munnlega latínuprófið mitt. Göfgi og óumdeilanlegt vald samankomið í þessum texta.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Scheiße

Mér brá þegar ég sá myndina með þessari frétt á mbl.is og hugsaði með mér: „Hvenær í andskotanum varð Ásmundur Guðmundsson þýskukennari að norrænum þjóðarleiðtoga?“

Sjáið þið gaurinn sem er annar frá hægri! Þetta ER Ásmundur fjandinn hafi það!

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Minn maður, Tolkien

„When one of his readings was first taped, Tolkien was intensely suspicious of the diabolical machine and insisted on reciting the Lord's Prayer in Gothic into the mike to purge any evil influences.“

laugardagur, ágúst 07, 2004

Grínizk þér eigi?

Blekkja mig augun? Er þetta tálsýn ein? Er til möskvi í netinu sem selur allt frá fyllilega fúnksjónal barúnsbrynjum til stríðsbúnaðar enna hávu hellensku stórskjöldunga?

Hvílík dýrð. Dýrrindýrrin.

Ætla ég að fá mér fullan armúr með sverðshjöltum og morgunstjörnu einhvern tíma á lífsleiðinni? Ójá.

Ég spyr bara: Á þessi verslun einhvern sýningarsal með mátunarklefa og taka þeir greiðslukort?

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Snyrtimennska, fágun, virðuleiki og kurteist fas

Í gær fékk ég frí úr vinnunni í hádeginu til að fara í jarðarför. Ég mætti síðan aftur í jakkafötunum, fór úr jakkanum og sat þannig til fara í afgreiðslunni.

Það var mjög góð tilfinning að mæta svona. Augnsambandið frá kúnnunum varð sterkara, enginn sagði múkk við nokkurri einustu sektargreiðslu og allir afhentu mér (í beinni merkingu þess orðs) alla hluti. Virðingin fyrir bindisnælunni minni var algjör.

Í dag mætti ég líka í skyrtu með bindi og það er alveg sama sagan. Þegar fólk þarf að greiða sekt þá stend ég alltaf strax upp úr sætinu mínu og tek mér fyrirmannlega stöðu við kassann: þar sem ég er hærri en flestallir lánþegar horfir sektargreiðandinn alltaf upp á þennan prúðbúna embættismann og segir já og amen við öllu sem ég segi.

Ég ætla að halda þessum ofurklæðaburði áfram þar til ég læt af störfum 31. ágúst. Crisp og clean alla daga. Svona svo fólk fái það á tilfinninguna að það eru engir djöfuls hippar sem standa að bæjarbókasafninu í Garðabæ og að það er allt annar handleggur að fá afgreiðslu þar en hjá einhverjum Hagkaups-knektum.

Munurinn liggur í bindisnælunni. Og þéringunum náttúrulega.
Háskólatilhlökkunarblogg III: munurinn á menntaskóla og háskóla

Menntaskóli — — Lærðu þetta, helvítis afstyrmið þitt, OG GERÐU ÞETTA! Móðir þín er hóra! (Svipa tannlausa risans með svarta góminn löðrar í blóði.)

Háskóli — — Nú, langar þig að læra einmitt þetta já, hljóðfræði tokkarísku? Ókei, ég skal kenna þér það, simmsalabimm trallala. (Bleikur fíll kemur dansandi á skýjahnoðra.)
Kóngsins Kaupinhafn

Vér Helgi og Oddur munum upp í flúg-tsojg þann första September stíga, um til Kaupinhafnar tsú faren.

Ég ætla ekki að blogga stafkrók í Danmörku, enda verð ég upptekinn á ráðslögunarfundum með kammerherrum og feltmarskálkum að undirbúa Danmerkur Ríkis Dýrðlega Innrás í það Úsúrperaða Land IJsland.

Þið megið búast við mér á sjóndeildarhringnum undan Meðallandssandi um nónbil þann fimmta september. Ég mun snúa aftur með herfólk standandi í stafni undir blaktandi Dannebrogsflaggi.
Mátti reyna það

Dag einn fyrstu vikuna í júní var lítið um að vera á Bókasafni Garðabæjar. Í iðjuleysi mínu sendi ég eftirfarandi ímeil á atlif@hi.is:

„Sæll og blessaður, Atli F.

Atli Freyr Steinþórsson heiti ég og nota vanalega netfangið atlif@isholf.is. Næsta haust hef ég nám við Háskóla Íslands í íslensku, latínu og grísku. Mig langaði að halda skammstöfuninni minni í væntanlegu úníversítets-netfangi og sendi þennan ímeil út í bláinn til að athuga hvort þú, annar Atli F., hefur orðið á undan mér að tryggja þér netfangið.

Með ósk um að þú sért ekki til og eigir ekki netfangið, en annars allar mínar bestu óskir ef þú ert til.

Atli Freyr Steinþórsson
Vesturtúni 48
225 Bessastaðahreppi“


Ég var alveg búinn að gleyma þessu bréfi. En í dag fékk ég þennan póst:

„Sæll Atli

Ég vil biðjast velvirðingar á því hversu seint ég svara þessu bréfi.

Því miður verð ég að hryggja þig með þeim upplýsingum að ég er til. Ég heiti Atli Freyr Friðbjörnsson og stunda nám við verkfræðideild.

Vonandi verður fundið gott notandanafn handa þér (atlistein? atlifs?).

Annars vil ég óska þér velgengni í Háskólanum.

kv,

Atli Freyr“


Þannig fór um sjóferð þá. Með því einu að draga lífsanda hefur þessi maður haft áhrif á líf mitt. Með því einu að heita nafninu sínu hefur hann ofið þann lífsþráð minn að eignast ekki netfangið atlif@hi.is. Maður sem ég hef aldrei hitt og bara talað við í gegnum tölvu. Fyrir mér er hann texti á skjá sem þó hindrar mig í að ná mínu fram með því einu að standa á skjánum.

Kosmosin eru skrýtinn staður.

mánudagur, ágúst 02, 2004

Fynd í mynd

Ansi hreint skondin teiknimynd um USA-kosningarnar á www.jibjab.com.

Takið sérstaklega eftir því þegar neyslusamfélagið sprettur allt í einu upp í kringum tregafulla indíánann að á einu skiltinu stendur „BUY CRAP!“ Það er óstjórnlega ómótstæðilegt kauptilboð.

Óborganlega fyndið.