Ég veit ekki hvort ég á að segja ykkur þetta en ég held ég hafi öðlast dýpstu og innilegustu lærdómsstundir lífsins í gegnum stærðfræði. Mér fundust öll dæmin í Almennri stærðfræði I-III svoleiðis: hver ný reikningsaðferð var ný sýn á heiminn, hver kafli var eins og sprenging sem felldi niður múra smárrar unglingshugsunar. Stærðfræðin stækkaði iðkendurna.
Mér fannst eins og bókin segði við mig á hverri einustu blaðsíðu: „Jájá, það er hægt að líta ýmsum augum á mennina og heiminn en ekki örvænta, augun vaxa sjálfkrafa í þér.“
(Og óskáldlega: Jájá, það er hægt að beita mörgum mörgum mörgum mismunandi reikningsaðferðum til að leysa stærðfræðiþrautir, en ekki örvænta, það er hægt að kenna þér reikningsaðferðirnar með einföldum og skipulegum hætti, lið fyrir lið.)
Hver nýr kafli var eins og opinberun en það var allt í lagi því maður hafði skilningsaugun til að takast á við hann. Ég tapaði þessari tilfinningu algjörlega á fyrsta ári í framhaldsskóla. Ég veit ekki af hverju. Kannski var það vegna þess að ég var með undursamlegan stærðfræðikennara í 9. og 10. bekk, en arfaslaka og vanhæfa öll árin mín þrjú í framhaldsskólastærðfræði, eða vegna þess að ég missti áhugann. Varla missti ég getuna?
Ég trúi því samt ekki að ég hafi misst áhugann, því ég man ennþá eftir þessari sterku og frelsandi tilfinningu sem fylgdi því að leysa erfitt stærðfræðidæmi, eins og maður stæði á fjallstindi, með dúndrandi hjartslátt og vindinn í hárið. Mér brá því eiginlega þegar ég fann hana ekki lengur haustið 2000. Ekki vott af henni.
Ég var mjög slyngur í stærðfræði í 10. bekk, en þegar ég fann ekki frelsunartilfinninguna lengur við útreikninga þá varð ég hræddur. Svo hræddur reyndar að ég hætti að reyna að takast á við þessa námsgrein í heild sinni fyrst ég fyndi ekki fyrir hjartslættinum og vindinum í hárinu. Mér fannst annað einhvers konar svindl (sjá færslu um stefnuna „fullkomnun eða tortíming“ hér fyrir neðan). Þetta logn náði lág/hámarki sínu á munnlegu stúdentsprófi vorið 2003, þar sem ég stóð uppi við töflu og hafði bókstaflega ekkert að segja. Mig langaði ekki til að það færi þannig.
Þess vegna læt ég mig stundum dreyma um að taka alla stærðfræðiáfanga (líka þá sem heita 800 og eitthvað) sem í boði eru við einhverja öldungadeild eða kvöldskóla þegar ég finn að það bærist eitthvað um mig og ég verð tilbúinn aftur. Ég veit ekkert hvenær það verður.