þriðjudagur, júní 29, 2004

Rule Britannia

Strengir titra, semball syngur, lúðrar þeyttir. Söngvari og selló-continuo. The full chorus swells.

Í hvert einasta skipti sem ég heyri þetta langar mig að baða sverð mitt í blóði Fransmanna og bónapartista.

mánudagur, júní 28, 2004

Krónprins-fögnuður/raunir

Ég er skíthræddur um að ég ráði ekki við mig á Garðatorgi á morgun. Ef ég reyni að nálgast Haakon og Mette-Marit með æðisgengnum og hamslausum fagnaðaröskrum á norsku, haldið þið þá að ég verði snúinn í malbikið af einhverjum harðsvíruðum leyniþjónustumönnum?

Setjum okkur í spor leyniþjónustunnar: Einhver bersýnilega vitstola maður kemur öskrandi og vælandi með illgreinanlegum hljóðum að krónprinsparinu og vill, að því er virðist, slengja til hans höndunum. Hann reynir með offorsi að brjótast gegnum þvöguna, kjökrar og er hálfgrátandi af geðshræringu. Hvað mynduð þið gera?

Ég vil þó fá að tjá fögnuð minn einhvern veginn, en ég held að ég verði að tjúna mig niður fyrir morgundaginn ef ekki á illa að fara.

sunnudagur, júní 27, 2004

Ath. ritstj.

Án þess að ég vilji vera með einhvern atvinnuróg þótti mér kúnstug hljóðritunin efst á þessari síðu. Ég vissi ekki betur en /s/ í bakstöðu í enska orðinu 'rose' væri raddað og hljóðritað [z]. Própríetorinnu síðunnar árna ég að öðru leyti allra heilla. Broskarl inn þriði.
The British Grenadiers Are Britannia's Last Line of Defense

Imperíalistum og öðrum yfirstéttarsnobburum eins og mér bendi ég á þennan geisladisk, og sérstaklega trökk 8 og 16. Það líður næstum yfir mig af tilhugsuninni einni saman að ég geti eignast hann. Annar broskall.
Haha

Mér til skemmtunar samdi ég textakorn á norsku um hingaðkomu eidolonanna minna (vá, en skemmtileg beygingarmynd), Hákons og Mette-Maritar sætu milli Barbiespóluafgreiðslna á BGB. Þá komst ég að því að titillinn 'Hans Kongelige Høyhet' sem skeytt er framan við nafn Hákons tekur ekki eignarfallsendingu.

Dæmi: 'I anledning af Hans Kongelige Høyhet Kronprins Haakons besøk, har ...' Maður segir ekki '... Høyhets Kronprins ...' Það er eins og titillinn sé infleksjónalt súspenderaður frá því sem hann á við. Eða bara alveg stirðnaður. Athyglisvert og jafnframt skemmtilegt. Broskall.

föstudagur, júní 25, 2004

Konungskoma

Hans konunglega háheit Hákon, krónprins Noregs, og hennar mæjestet framtíðardronningen Mette-Marit Tjessem Højby munu heiðra Garðbæinga með sinni hávelbornu og veleðla nærveru næstkomandi þriðjudag.

Athöfn þeim til heiðurs verður haldin á Garðatorgi hinu nýja en við það stendur Bókasafn Garðabæjar. Af þessu tilefni var dobía af norskum bókum fengin að láni í Norræna húsinu og henni stillt upp í safninu. Þá voru norskir og íslenskir pappírsfánar keyptir af framtakssömum ungum mönnum og þeim komið fyrir á áberandi stöðum. Bókinni Olav V — 30 år på tronen var komið fyrir ofan á skáp í afgreiðslunni en framan á henni stendur kóngur hnarreistur í allri regalíu með hönd við húfuder.

Nú vantar bara risastóran tvíklofinn norskan fána með ljónsskjaldarmerki í glugga bókasafnsins og þá verð ég sáttur. Nema að ég skelli stórum borða upp á undan sem á stendur Heia Norge!

Mér líður bara eins og fyrir konungskomuna 1907. Ég ætla heim að semja drápuna sem ég flyt honum.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Loxins!

Ég hætti að vera áskrifandi að Andrési Önd fyrir mörgum árum. Ástæðan: Blaðið er drasl. Ég þori að fullyrða að allt í Andrési Önd nema Don Rosa-sögur er algjör, verðlaus, ógeðslegur, andlaus, illa teiknaður og ótíndur draslningur af verstu sort.

En Don Rosa ber af öðrum sem íturskapaður askur af þyrni, sem Prins Póló af Elitesse. Ég hef oft gluggað í Andrésblöð í leit að donrósískum sögum en virðist hafa tapað þeirri list að koma auga á hina földu skammstöfun D.U.C.K sem höfundur felur alltaf í fyrsta ramma sögunnar. Þar til í dag, góðir hálsar.

Í 27. tölublaði, 22. árgangi, sem dagsett er 28. júní 2004 kom ég auga á D.U.C.K. í fyrsta ramma framhaldssögunnar Svarti knapinn gloppar enn en dökkið er á hvolfi í efra hægra horni og dulbúið sem kínverskt letur neðst á málverki. Jessssss! Ég er bestur.

Takk fyrir mig.
Fyndnir Finnar

Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð eftir Arto Paasilinna er fyndin og skemmtileg bók. Sagan af Koivisto Finnlandsforseta og þunglynda ræstitækninum er fyndnasti texti sem ég hef lesið í áraraðir. Ég náði ekki andanum af hlátri.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Uss, fuss og svei!

Ég fór og kaus forseta utan kjörfundar áðan. Tvennt kom mér á óvart:

1) ég þurfti að rita nafn þess frambjóðanda sem ég vildi greiða atkvæði mitt á kjörseðilinn en ekki haka við prentað nafn hans;

2) ég þurfti að setja útfylltan kjörseðil minn í umslag sem ég afhenti embættismanni kjörstjórnar, en hann setti hann í annað umslag sem á voru ritaðar allar upplýsingar um mig.

Sko, í 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24, 16. maí 2000, stendur (ég verð að gera ráð fyrir að þau gildi einnig um forsetakosningar):

„Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til hreppstjórans, sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal og rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.“

Er þetta leyfilegt? Þetta umslag afhenti embættismaðurinn mér aftur og ég stakk því í kjörkassann. Ég hélt að kosningar á Íslandi væru algjörlega leynilegar. Ég spurði hann hverju þetta sætti og hann svaraði að þetta væri til þess að ef ég kysi aftur á kjördag væri hægt að ógilda utankjörfundarseðilinn. Í 73. grein sömu laga segir:

„Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrár þær sem fylgja, sbr. 66. gr. Skal kjörstjórnin síðan opna sendiumslagið og kanna hvort taka skuli utankjörfundaratkvæðið til greina, sbr. 91. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.“

Í 90. gr. segir:

„Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórnin á ný[, í viðurvist umboðsmanna lista, á ekki við hér, innsk. AFS] þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt. Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni.“

Í 93. gr. segir:

„Þau kjörseðilsumslög, sem enginn ágreiningur er um að gild séu, lætur kjörstjórn óopnuð í atkvæðakassann.“

Já, þú meinar það. Þegar kjörstjórn úti á Álftanesi hefur borist kassinn með utankjörfundaratkvæðinu mínu á laugardaginn og kjörfundi hefur verið slitið, þá opnar hún einungis sendiumslagið sem á stendur nafn mitt. Í því eru tveir hlutir: 1) annað lokað umslag sem ekki er merkt á nokkurn hátt og inniheldur útfylltan kjörseðil minn sem og 2) fylgiblað sem vottað er af kjörstjórn að allt hafi farið rétt og reglulega fram. Kjörstjórn athugar þá hvort ég hafi nokkuð mætt á kjörfund fyrr um daginn og neytt atkvæðisréttar míns, og ef svo er ekki ákveður hún hvort taka eigi utankjörfundaratkvæði mitt gilt. Ef engir meinbugir eru á því lætur hún hið ómerkta umslag með kjörseðli mínum falla alveg óopnað ofan í kjörkassann með venjulegu atkvæðunum. Sá sem telur atkvæðið síðar um kvöldið veit þá ekki hver greiddi það.

Svona er hægt að róa sig með því að lesa sér til um málið. Ég var alveg tilbúinn með yfirlýsingar um spillingu og persónunjósnir við upphaf þessarar færslu en svo las ég bara lögin og er núna eiginlega sáttur. Ahhhh. En það breytir því samt ekki að á ákveðnum tímapunkti er kjörseðillinn kirfilega tengdur nafninu mínu bara til þess að ég eigi möguleika á því að KJÓSA AFTUR! Mér finnst það ekki rétt. Mér finnst að þegar fólk kýs utan kjörfundar eigi að merkja það á kjörskrá svo það geti ekki neytt atkvæðisréttar síns í annað sinn.

Hvort vilja menn: algjörlega leynilegar kosningar eða að fólk geti verið eitthvað að dandalast fram og til baka milli kjörstaða? Ég vil leynilegar kosningar.

mánudagur, júní 21, 2004

Myndir

Jæja, sautjándi júníinn minn 2004 er kominn á internetið.

föstudagur, júní 18, 2004

Sjá roðann á hnjúkunum háu

Þetta var belti hlautjándi júní hlem ég hef upplifað. Myndir væntanlegar. Í kirkjugarðinum spilaði lúðrasveitin „Sjá roðann á hnjúkunum háu“ eftir að við Mokkurinn lögðum blómsveiginn að legsteininum og síðan var Brynhildur Guðjónsdóttir fjallkona (eins og ég hafði spáð!) og fór með sama ljóð á Austurvelli. Þar stóð ég og horfði á hana og hrópaði bravó fyrir henni. Síðan sveif hún á jökulöldum inn í Alþingishúsið.

Mér þykir vænna um færsluna 16. júní í heild sinni en orð fá lýst. „Gríski guttinn“ er betra epithet en ég gæti valið mér sjálfur. Að einhver hafi valið mér þetta heiti er meiri viðurkenning en ég hefði þorað að veita mér sjálfur.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Suðurgötukirkjugarður og leiði Jóns Sigurðssonar klukkan 10

Nýja nellikan mín er tilbúin og hún angar sætt. Húfan er tilbúin, derið gljáfægt. Ég er tilbúinn.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Rís þú, unga Íslands merki

Nú þarf ég að fara að pússa skó og pressa föt því á morgun, 17. júní, mun ég bera blómsveig frá íslensku þjóðinni til frjálsræðishetju hennar.

Og yfir í allt annað

Sama dag kl. 22 mun ég freista þess að verja þungavigtarheimsmeistaratitil í langsóttri bókmenntafræði á sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Talkúm og hanskar tilbúið.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Meira öppdeit

Litla japanska stelpan skoppaði upp að mér rétt í þessu og spurði: Hvernig fallbeygir maður 'jór'? Ég deklíneraði það snögglega fyrir hana og hún skoppaði til baka. Kannski var beðið um tveggja stafa orð yfir hest í krossgátunni.
Öppdeit

Ég fór til þeirra, rétti fram samheitaorðabókina og sagði: Viljið þið ekki heldur fá samheitaorðabók í krossgátuna? Þær brostu og kinkuðu kolli. Dóttirin varð mjög áköf og sagði Jú! Síðan sneri hún sér að mömmu sinni og bunaði út úr sér hljóðastrengnum [kókúrríjúkúkúdúdero]. Ég vildi óska að ég vissi hvað hann þýðir.
Ó þessi kona

Ó ÞESSI KONA!

Krossgáta

Áðan kom japönsk kona sem ber eftirnafn íslensks eiginmanns síns. Hún var með dóttur sína með sér sem talar fullkomna íslensku. Konan sagði hins vegar við mig: Getúr ... tú ... reitað ... að bókinni X?

Vegna þess að ég hef lært málvísindi vissi ég nákvæmlega hvers vegna hún talaði svona. Mér fannst það mjög gaman meðan ég var að afgreiða hana.

Þegar hún afhenti dóttur sinni bækurnar þrjár sem hún fékk að láni sagði dóttirin 'hai, hai, hai'. Sú spurði um íslenska orðabók áðan, og þær settust saman niður við borð og hófu að leysa krossgátu. Ég ætla að auðvelda þeim verkið akkúrat núna og bjóða þeim samheitaorðabók.

Japanarnir, maður.
Þeir eru að undirbúa annað Tyrkjarán

Einhver kom inn á síðuna mína frá Sádí-Arabíu eftir að hafa leitað að orðinu mardar á MSN Search. Færslan mín um Marðar-Eddu var sú tuttugasta í röðinni og ákvað hann að skella sér á hana.

Áhugasamir þykkja mér márar um mál vórt.

mánudagur, júní 14, 2004

Þetta kom mér sko ekkert sérstaklega á óvart, Halldóra

Þetta próf er annars óstjórnlega fyndið.

Phonology
PHONOLOGY: You are phonology! Congratulations!
You can now study why the adjectival affix
"en" cannot be added to words that
end in obstruents in English.


What's Your Linguistic Sub-Discipline?
brought to you by Quizilla
Háskólatilhlökkunarblogg II

Ég hlakka til að komast í skóla þar sem maður getur fengist við það sem máli skiptir. Ég hlakka til að þurfa ekki að fara í helvítis helvítis íþróttir. Ég hlakka til að sitja fyrirlestra. Ég hlakka til að fara að skandera almennilega. Ég hlakka til að byrja með algjörlega autt blað. Ég hlakka til að sitja í þýðingartímum í aðalbyggingunni. Ég hlakka til að vera búinn klukkan 12:15 á föstudögum. Ég hlakka til að eiga gáfulegar samræður á þýsku við erlenda gistiprófessora.
Hér er enginn

Ég gæfi mikið fyrir að vera úti, sveifla haka og rækta nýjan skóg. En ég er inni. Mér leiðist.

föstudagur, júní 11, 2004

Djörf bókabjörgun

Áðan var ég settur í að henda heilum vagni af bókum út í gám hér á BGB. Þegar ég kom inn leið mér illa eins og ég hefði drýgt hræðilegan glæp. Mér finnst vont og rangt að henda bókum.

Ég henti því hverri bók fyrir sig í gáminn og mat menningarlegt gildi þeirra jafnóðum. Mér fannst unun í því að henda Tímariti Verkfræðingafélagsins og Árbók Orkustofnunar. Þessum bókum bjargaði ég úr súgnum mér til eignar:

Leo Trotskí: Ævi mín. Ógeðsleg kilja frá 1936, drulluskítug, gul og illa lyktandi af ryki og sagga. Karl Ísfeld þýddi (vissi ekki að hann hefði verið kommúnisti). Þetta er svona ódýr kilja sem var dreift í massavís af trotskíistum niðri á höfn á fjórða áratugnum þegar stéttabaráttan stóð sem hæst. Trotskí var meira að segja á lífi þegar það átti sér stað. Kápan er rauð, höfundarnafn hvítt en bókartitill svartur og svarthvít mynd af honum skælbrosandi. Efnið er áhugavert þó formið sé úldið.

Jökull Jakobsson: Feilnóta í fimmtu sinfóníunni. Ég las fyndinn bút úr þessari bók einhvers staðar árið 2001 og fór og fékk mér hana á bókasafni (BGB meira að segja, kannski er þetta sama eintakið?). Mig minnir að eiginkona einhvers stjórnmálamanns af Arnarnesinu í Garðabæ hafi verið að gamna sér með einhverjum nemanda í MR í húsi í 101 þegar bókin hefst. Ég entist fram á bls. 50 því ég fann ekki fyndna bútinn sem ég hafði lesið. Nú ætla ég að bæta úr því og lesa alla bókina.

A. E. Brachvogel: Parcival, síðasti musterisriddarinn, síðara bindi. 700 bls. doðrantur um Wagnerstengt efni = bókabjörgun. Hverjum er ekki sama þó þetta sé síðara bindi? Kannski eignast hann Lohengrin í því. A.m.k. þess virði að skoða hana.

Jónas Rafnar bjó til prentunar: Íslenskir galdramenn. Frekar illa farin kilja frá 1948 þar sem safnað er saman mörgum þjóðsagnabútum um sjö galdramenn. Dæmi um kaflafyrirsögn: Þáttur af Þorvaldi skáldi Rögnvaldssyni á Sauðanesi. Gæti þetta orðið eitthvað skemmtilegra? Síðan er líka þáttur af Snorra á Húsafelli, þeim dánumanni. Gaman, gaman.

William J. Bossenbrook: The German Mind. Jahá. 450 bls. af stúdíu á þýskri þjóðarsál og þjóðfélagi im Allgemeinen á grundvelli sagnfræðinnar skrifuð af Bandaríkjamanni árið 1961. Upphaf bókarinnar hljóðar svona: Why the Germans have not been integrated into the Western Community of values is the key question of the German problem. This book attempts to set down some of the basic answers to the question. Ja, ég segi bara jahá.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Hjarta mitt hefur verið laugað Idol-balsami síðustu daga

Í öllum viðkynningarbókmenntum Idol-keppninnar sagðist Ardís Ólöf Víkingsdóttir vinna á snyrtistofunni La Rosa á Garðatorgi í Garðabæ. Nú hef ég unnið á Garðatorgi annaðhvort fulla vinnu eða hlutavinnu síðastliðið ár, en aldrei séð þessa glóeygu, fagurlimuðu Sakyntsgyðju.

Nú liggur snyrtistofan La Rosa í dimmum gangi gegnum húsasamstæðu og vita stórir gluggar að göngugötunni. Alltaf þegar ég fer út í Hagkaup að kaupa mér hádegismat kasta ég augnbliki mínu inn í dyngju þessa og vona að ég sjái hana. Það hefur aldrei gerst.

En þegar ég var að koma í vinnuna klukkan 9:00 um daginn, þá fellur þýður andvari á kinn mína og augu mín verða fyrir Ólympsbirtu þessa goðmagns sem hún líður rósfingruð hjá í fylgd satýra inn á snyrtistofuna La Rosa. Hún var í rauðri flíspeysu.

Hvers vegna gefur þessi sýn lífi mínu nýjan tilgang?

Jú, góðir lesendur. Á júbilantaballi Menntaskólans í Reykjavík varð nefnilega merkur atburður. Fyrir utan það að bjóða Vigdísi Finnbogadóttur upp í dans og tjútta við þá merku konu, redda mér djobbi á 17. júní og margt fleira, þá hitti ég fyrir gamlan vin. Sem þekkti mig reyndar ekki aftur.

Sem ég stóð á spjalli við barinn gengur í átt til mín Kalli Bjarni eidolon, ei þekkjandi sitt nafn. Ég batt skjótan enda á samtalið og vatt mér snöfurmannlega að honum þar sem hann stóð við barinn, og pikkaði í öxlina á honum og leit í augu honum:

AFS: Sæll.
Eid.: Sæll.
AFS: Atli Freyr Steinþórsson heiti ég og er nýstúdent (sem reyndar var augljóst af höfuðbúnaði mínum). Veist þú (smámálhvíld, þar sem ég trúði ekki hvað væri í þann veginn að gerast) hvernig maður segir 'idol' á forngrísku?
Eid. (brosir): Nei, heyrðu. Hvernig er það?
AFS: Það er eidolon. Það er hvorugkynsorð, en endingin -on er týpísk hvorugkynsending í forngrísku, og ...
Eid.: Já, meinarðu eins og -ið í íslensku?
AFS: ... já, einmitt, en með greini yrði það tó eidolon. Annars er það mjög algeng þróun í forngrískum tökuorðum í ensku t.d. að ei- verði i-, sbr. eid- verður id-.
Eid.: Já, já. Verður kannski svipuð breyting á svona forngrískum orðum í öðrum málum líka?
AFS: Jú, einmitt. Einu sinni reyndi ég að segja þér þetta á balli sem þú söngst á, það var árshátíð Framtíðarinnar í MR núna í vetur. Það var á Broadway, þú réttir hljóðnemann að mér og ég átti að syngja eitthvað í laginu en öskraði þetta í staðinn ...
Eid.: Jájájá, hahahahaha.
AFS: ... en þú heyrðir það ekki. Allavegana: Eidolon.
Eid. (kinkar kolli): Eidolon.

(Smáþögn.)

AFS: Heyrðu, bara þakka þér kærlega fyrir.
Eid.: Já, þakka þér.

(Handsal.)


Síðan gekk ég burt. Bjarninn var unninn og hafði komist að því að menn koma einfaldlega ekki og syngja á MR-balli án þess að læra einhverja forngrísku.

Þar sem ég hef rutt þessu hugarplagandi atriði frá mér ætla ég núna að ganga upp að Sakyntsgyðjunni nýuppgötvuðu og hvísla að henni (au borið fram eins og ísl. á, y borið fram eins og í dönsku):

Glaukopis ei sy. Þú ert glóeyg.

Með þeim góða Idealismus

Stílsmáti Benedikts Gröndals yngri er svo ljótur að það er eins og hann sé að skrifa færeysku.
Vivaldi er æði pæði

Þegar ég ætlaði að fara á blogger dott komm að skrifa þessa færslu sló ég fyrst inn www.vivaldi.com. Að hlusta á Vivaldi í sumarnóttinni er mergjað. Ég ætla að láta spila Vivaldi í jarðarförinni minni, burt með sorg og sút, inn með hressilegan g-dúr-Vivaldi.

Ég ætla að hætta þessari djöfuls málavitleysu og spila Vivaldi það sem eftir er ævinnar. Vill einhver kenna mér á sembal, fiðlu, mandólín og trompet?

miðvikudagur, júní 09, 2004

Málþroski minn

Þegar ég var tíu ára las ég viðtal við skækju í Helgarpóstinum sáluga, þeim þóftusterka miðli. Þar kom viðtalinu að hún sagði þetta: Já, svo er ég með svona korters strippsjó og fæ rosalegan pening út úr því.

Það tók mig nokkur ár að komast að því hvers konar sjór strippsjór væri.

Hér með legg ég til að orðið strippsjór verði innleitt í íslensku. Það er mjög fallegt og þjált. Dæmi: Svo valt ég inn á einhverja helvítis strippsævarbúllu og ældi.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Tímaritalestur

Ég var inni í geymslu á Bókasafni Garðabæjar í gær að raða tímaritum sem ekki eru til útláns í stafrófsröð, en þau voru í mikilli óreiðu. Þetta eru að stærstum hluta innbundin söfn af gömlum blöðum á borð við Skírni, Tímarit Máls og menningar og jafnvel Útvarpstíðindi frá 1938. Og fleira í þeim dúr.

Ég tók mér góðan tíma í að skoða það sem ég var að raða upp og komst meðal annars að því að dagskráin í Ríkisútvarpinu var að mörgu leyti bitastæðari fyrir sjötíu árum en í dag. Hver dagur hófst á þýskukennslu (slef) og síðan var allt kvöldið lagt undir

a) klassíska tónlist
b) fyrirlestra um sögu og menningarmál í flutningi prófessora við Háskólann.

Nóta bene: allur fyrirhugaður tónlistarflutningur var vandlega skráður, þannig að maður gat séð hvaða verk voru á dagskrá og hvenær en því er sko ekki að heilsa í dag, stendur bara 16:03: Hlaupanótan. Búið basta.

Allavegananana, þegar lestri mínum á Útvarpstíðindum lauk fór ég að lesa Ísafold frá 1882 og rakst þar á þennan texta:

Auglýsingar.

KVENNASKÓLINN Í REYKJAVÍK.

Þeir, sem vilja koma konfirmeruðum, efnilegum og siðprúðum yngisstúlkum í kvennaskólann næstkomandi vetur (1. okt. til 14. maí), eru beðnir að snúa sjer í þeim efnum til undirskrifaðrar forstöðukonu skólans, ekki seinna en 31. ágústmán næstkomandi.

Reykjavík, 26. dag júnímán. 1882.
Thóra Melsteð.


Í dag var ég að skoða Mbl. og sá eftirfarandi:

Kvennaskólinn í Reykjavík

Innritun
Innritun nýnema fyrir skólaárið 2004-5 fer fram í skólanum miðvikudaginn 9. júní og fimmtudaginn 10. júní frá kl. 8 til 18. Innritun lýkur föstudaginn 11. júní kl. 16.

Kvennaskólinn í Reykjavík býður bóknám til stúdentsprófs.
Brautirnar eru þrjár:

félagsfræðabraut
málabraut
náttúrufræðibraut


Í skólanum er bekkjakerfi en þó mikið val á 3. og 4. námsári.

Inntökuskilyrði eru samkvæmt reglugerð menntamálaráðuneytisins. Þau eru háð brautarvali nemandans. Umsókn skal fylgja staðfest ljósrit af grunnskólaprófi.

Námsráðgjafar skólans verða til viðtals innritunardagana.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu skólans, www.kvenno.is eða í síma 580 7600.

Skólameistari.


Hvor auglýsingin finnst lesendum skemmtilegri og lykta síður af stofnanaýldu?

mánudagur, júní 07, 2004

Aðeins svona

Öllum góðum mönnum bendi ég á pistil Víkverja í Mbl. dagsins í dag. Eins og talað úr mínum munni. Og tillögur hans munu verða að veruleika, det skal I nok få at se! Það er allt að gerast í þessum málum.

Smá svona meira

Ég sofnaði við sjónvarpið í gærkvöldi. Glugginn minn var opinn og dregið frá. Um klukkan 03:00 banka Helgi og Jóhann létt á rúðuna og vekja mig. Ég rís upp við dogg og trúi ekki því sem ég sé, tveir skælbrosandi og veifandi einstaklingar. Úr varð að við fórum í tveggja tíma fornøjelsesrúnt um Álftanes þar sem ég gegndi hlutverki leiðsögumanns.

Steikt en jafnframt mjög skemmtilegt. Komið endilega og vekið mig aftur, strákar. Samt ekki núna í nótt.

föstudagur, júní 04, 2004

Vi vender snart tilbage

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður skrifar grein í Morgunblaðið í dag, en lokaorð hans eru: „Ég get ekki sætt mig við forseta sem skipar sér í lið í dægurþrasi stjórnmálanna. Slíkur forseti er ekki minn forseti. Þá vil ég frekar ganga Margréti Þórhildi á hönd.“

Sjá menn ekki að þetta er vilji fólksins? Þjóðin þráir að verða hluti af Stór-Danmörku aftur og í ljósi ótryggs stjórnmálaástands er næsti leikur í stöðunni að slá á þráðinn til Amalienborgar og segja undskyld. Sagði einhver 1262? The signs are all there, innanlandsófriður og menn berast á banaspjót. Þessa stöðu er hægt að laga á einn hátt.

Nú þarf ég að setjast niður og semja bréf á góðri 18. aldar kansellídönsku og senda arfadróttningu vorri með haustskipum.

Back to basics

Menn hafa áhyggjur af því hvar Alþingi eigi að funda ef það verður kvatt saman á næstu dögum þar sem verið er að renóvera þinghúsið. Svarið liggur í augum uppi: á Sal Menntaskólans í Reykjavík.
Háskólatilhlökkunarblogg I

Kappslokkuð orð lesist með áherslu.

ÉG hlakka til að fara í háskóla.
Ég HLAKKA til að fara í háskóla.
Ég hlakka TIL að fara í háskóla.
Ég hlakka til AÐ fara í háskóla.
Ég hlakka til að FARA í háskóla.
Ég hlakka til að fara Í háskóla.
Ég hlakka til að fara í HÁSKÓLA.

ÉG HLAKKA TIL AÐ FARA Í HÁSKÓLA.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Ég synja þessari fullyrðingu þinni staðfestingar!

Margrét Erla 'málfarsráðunautur' Maack eitthvað að rífa sig. Ég bendi henni á bls. 1443 í Marðar-Eddu (nýju orðabókinni):

spúa -ði S 1 spýja, æla; gjósa

spýja spúði, spúð (eða st.b.) spjó, spjóum, spúið (vh.þt. spýði eða spýi) S 1 kasta upp, varpa upp

Sagnirnar eru jafngildar, og sannast það helst á því að sögnin spúa er útskýrð með því að vísa í spýja. Reyndar er sögnin spúa mynduð af þátíð sagnarinnar spýja vegna áhrifsbreytingar og er því eiginlega um sömu sögnina að ræða enda merkingin nákvæmlega sú sama. Menn mega því segja hann spjó eldi og hann spúði eldi, hvaða sögn sem liggur til grundvallar.

Talandi um Marðar-Eddu

Á bls. 1488 rakst ég á annað orð:

Stór-Dani KK; danskur stórveldissinni; sögul. Dani mjög andvígur frelsiskröfum Íslendinga og annarra þjóða undir stjórn Danakonungs

Word up, dude.

miðvikudagur, júní 02, 2004

Í latínu þeir kunna ekki par

Á bls. 2 í DV í dag er meinleg latínuvilla. Þar vildi einhver fyndinn greinarhöfundur snúa út úr hugtakinu 'hluti fyrir heild', eða 'pars pro toto'. Hann skrifaði 'toto pro pars'. Þar er ablativus kominn í frumlagssæti og svo virðist sem forsetningin pro stýri nefnifalli. Ef menn ætla að snúa út úr mega þeir ekki forakta forsetningar. Rétt yrði þetta 'totum pro parte'.

Ég hringdi upp á DV áðan, sagði til nafns og bað þá að birta leiðréttingu á bls. 2 á morgun. Sjáum hvað setur.
Quod felix faustumque sit

Draumar mínir um að verða viðskiptalögfræðingur frá HR með áherslu á fyrirtækjastjórnun og viðskiptaspænsku eru á enda. Í morgun gaf ég mig á vald gyðju germanskra málvísinda og klassískra Miðjarðarhafsmennta er ég skráði nafn mitt í bækur Háskóla Íslands. Sé það góðu heilli gjört og vitað.

þriðjudagur, júní 01, 2004

Prímordíalismi

Bush Bandaríkjaforseti er svo prímordíall. Tekur skammbyssu sem sigurtrófí af Saddam og geymir á sporöskjukontórnum. Hann er þó prímordíalari en ég hélt, því eftir að hann kafnaði næstum á saltkringlu er hann í góðum félagsskap fornskáldsins Anakreons frá Teos sem mun hafa kafnað á vínberi í einhverju gilli.

Fróðleikspunktur dagsins í boði Ágústs Bjarnasonar (eða öllu heldur Döggu og Hjalta). P.S. Ágúst Bjarnason var málfatlaður og beygði sögnina 'vega' óg í þátíð. Óg!